07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

1. mál, fjárlög 1927

Pjetur Þórðarson:

Jeg hafði flutt eina brtt. við fjárlagafrv., brtt. 514,II. Þegar þetta frv. fór hjeðan upp til Ed., stóðu svo sakir um þennan lið, sem brtt. er við í frv., að a-liður í lið 19 var þá töluvert öðruvísi en hann er nú. Upphæðin, sem ætluð var óskift til styrktar ýmsum listamönnum og námsmönnum, var þá 10 þús. krónur, og auk þess var athugasemd við liðinn, þannig að ekki átti að fara meira en 1000 krónur til hvers fyrir sig. Nú stendur svo á, að sá maður, sem nefndur er í minni tillögu, Guðmundur Kristjánsson, er við sönglistarnám í útlöndum. Í 4 ár hefir hann stundað þetta nám með mjög góðum árangri, aðallega í Þýskalandi og nú í Ítalíu. Hann hefir farið frá einum kennaranum til annars, sem allir eru víðfrægir menn, og sá kennari, sem hann er nú hjá í Mílano, hefir gefið honum ágætan vitnisburð, sem legið hefir frammi ásamt umsókn um þennan styrk.

Jeg hefði við 3. umr. frv. flutt sjerstaka tillögu um sjerstakan styrk handa þessum fátæka pilti, ef það hefði ekki verið í samræmi við mína sparnaðarhugsun að sætta mig við, að hann yrði þátttakandi í 1000 króna styrk af óskiftu upphæðinni. En nú sje jeg, að Ed. hefir lækkað þennan styrk, en hækkar þó styrkinn í heild sinni að mun og fellir í burtu athugasemdina við liðinn. Nú eru því í burtu öll skilyrði fyrir því, að Guðmundur Kristjánsson geti fengið styrk af þessari óskiftu upphæð. Eftir að jeg hefi heyrt tillögu hv. fjvn. um afgreiðslu fjárlaganna, sje jeg glögt, að ekki er árennilegt að koma fram með brtt. við frv. eins og nú standa sakir, og hika jeg því við að bera slíka tillögu undir atkvæði, en vil beina því til hæstv. stjórnar, að hún komi því svo fyrir, að þessi styrkur komi undir a-lið 15. gr. og taki sjerstaklega til greina erfiðar ástæður þessa pilts og láti hann ekki gjalda þess, hve hann, við meðferð styrksins í Ed., hefir farið illa. Jeg vil leggja áherslu á, að hæstv. landsstjórn taki þetta til greina, og í því trausti leyfi jeg mjer að taka brtt. aftur.