29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (2158)

40. mál, yfirsetukvennalög

Sigurður Eggerz:

Það er eitt atriði hjer í nál., sem jeg vildi vekja athygli á.

Þar segir: „Nefndin hefir meðal annars komist að raun um það, að mörg yfirsetukonuumdæmi sjeu óskipuð víðsvegar um landið, aðallega vegna þess, hve launin eru lág.“ — Jeg verð að játa, að jeg hafði ekki hugmynd um, að svona væri ástatt. En það er ákaflega alvarlegt mál, ef sum umdæmin eru yfirsetukonulaus. Hjer er einmitt mjög mikil þörf á því, að yfirsetukonur sjeu margar og vel mentaðar, ekki síst fyrir það, hve víða er erfitt að ná í lækni. Jeg hefi oft bent á, að varla muni eins illa farið með nokkra stjett og yfirsetukonur, þegar tekið er tillit til, hve starf þeirra er þýðingarmikið. Það er beinlínis hryllilegt að hugsa til þess, að sum umdæmi skuli vera yfirsetukonulaus, og er mesta þörf á að bæta úr því hið bráðasta. — Jeg held, að rjett hefði verið, úr því mál þetta var tekið til meðferðar, að láta eftirlaunagreinina standa, enda hefir mjer heyrst hv. deild taka svo í strenginn, að hún telji það rjettmætt.