29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (2161)

40. mál, yfirsetukvennalög

Halldór Steinsson:

Það er aðeins athugasemd út af orðum hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). Hann sagði með mikilli alvöru, að hv. deildarmenn myndu víst ekki hafa áttað sig á, hvað hjer er verið að gera, eins og væri verið að gera eitthvert voðalegt óhæfu-strik, þar sem farið er fram á að breyta launalögunum frá 1919. Jeg verð að segja, að ef launalögin frá 1919 reynast ekki rjettlát að einhverju leyti, þá á ekki frekar að láta þau lög heldur en önnur lög haldast óbreytt. Auðvitað á að laga þær misfellur á lögum, sem síðar koma í ljós.

Og þetta á sjer einmitt stað, að því er snertir laun yfirsetukvenna, laun þeirra voru á launalögunum 1919 sett alveg óhæfilega lág. Og með tilliti til þess er ekki nema sjálfsagt að breyta þeim, og hefði átt að vera búið að því fyrir löngu.

Þá fanst mjer ekki laust við, að kendi nokkurra ýkna hjá hv. þm., þegar hann talaði um hækkunina. Hann fjekk út 300%. Mjer er ómögulegt að sjá, hvernig það má verða, — kann að vera af því, að jeg sje ekki eins upplagður reikningsmaður og hv. þm. Eins og jeg vjek að við 1. umr., munu meðallaun vera 300 kr. En eftir frv. hugsa jeg að meðallaun verði um 400 kr. með aukatekjum. Á það bætist svo dýrtíðaruppbót, sem eftir nútímamælikvarða miðast við 300 kr. Meðallaunin fara ekki fram úr 700 kr. Ef þetta er 300% af 300 kr., þá kann jeg ekki að reikna.

Þar sem sami hv. þm. var að tala um barnakennara í þessu sambandi og ýmsa aðra starfsmenn, sem launaðir eru eftir þessum launalögum, þá vil jeg segja það, að hvaða starfsflokkur sem er tekinn, jafnvel barnakennarar í sveit, sem eru mjög lágt launaðir, þá þolir það engan samanburð við laun yfirsetukvenna. Þegar tillit er tekið til þess, að barnakennarar vinna ekki nema 5–6 mánuði ársins, en hafa besta tíma ársins til þess að vinna sjer inn fje við ýmsa atvinnu, þá verða laun þeirra áreiðanlega þrefalt hærri árslaun en laun yfirsetukvenna með þessari hækkun. Svo þetta þolir engan samanburð.

Þess vegna held jeg það sjeu ekki nægileg rök hjá hv. þm. Eyf. (EÁ), að það megi ekki rjetta kjör þessara kvenna nú, með tilliti til þess, hvort aðrir starfsmenn verði þá útundan.

Hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) leiddist það mjög, að hv. frsm. nefndarinnar hafði ekki tekið það fram, hve mörg yfirsetukvennaumdæmi væru óskipuð; og mjer skildist á ræðu hans, að hann teldi engan hörgul á ljósmæðrum. Eftir bestu heimildum, sem jeg hefi, munu óskipuð eitthvað um 20–30 umdæmi á landinu. Og jeg veit af einu læknishjeraði, þar sem eru óskipuð 3 umdæmi. Svo jeg get hugsað, að þetta muni ekki of hátt talið á öllu landinu. Mjer er líka kunnugt um það af eigin reynslu og sönnum sögnum, bæði frá landlækni og fleirum, að það er sífeldur hörgull á ljósmæðrum, enda þótt þær hafi verið 10–12 á ári á skólanum. Þær hafa ekki getað fullnægt þörfinni, af hverju sem það er. Margar hafa alls ekki gefið sig við því starfi, og aðallega vegna þess, að launin, sem stjettin átti við að búa, voru alls ekki viðunandi. Það er ekki glæsileg framtíð, sem blasir við þeim, eins og launin hafa verið hingað til. Þetta mun vafalaust mikil ástæða til þess, að þær að loknu námi fara eitthvað út í veður og vind. En hverju sem það er mest að kenna, þá verðum við að líta á málið eins og það er, að nú er hörgull á ljósmæðrum, við verðum að bæta úr því, en það verður ekki betur gert en með því að bæta að einhverju leyti hin slæmu kjör þeirra.