29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (2164)

40. mál, yfirsetukvennalög

Guðmundur Ólafsson:

Hv. þm. Snæf. (HSteins) hafði það eftir mjer, að jeg hefði sagt, að eins og stendur væri enginn hörgull á yfirsetukonum. En þetta er ekki rjett eftir mjer haft, enda er mjer kunnugt um, að 20–30 umdæmi standa auð, sem engin yfirsetukona er fengin í. Jeg man nú ekki í svip, hvað umdæmin eru mörg (IP og fleiri: Þau eru 200). Nú, jæja, eru þau 200. Nefndin er þá búin að kynna sjer það.

Hv. sami þm. komst að þeirri niðurstöðu, að það væri nóg, ef 12 nemendur sæktu yfirsetukvennaskólann á ári, og hinu sama hjelt landlæknir fram fyrir 2–3 árum, en svo misti hann þær allar út í veður og vind, um leið og þær útskrifuðust úr skólanum. Jeg gat nú ekki skilið, að þær sjeu svo óskynsamar að vita ekki, að hverju þær ganga og á hverju þær eiga von, þegar þær fara í skólann. Vanhöldin stafa af einhverju öðru en því, að þær viti ekki, að hverju er að ganga með launakjörin.

En svo hefi jeg ekki heldur sagt og segi ekki enn, að jeg vilji ekki bæta launakjör þeirra, þó jeg hinsvegar telji, að of langt sje gengið með þeim breytingum, sem nú á að gera.

Þá var það hv. frsm. (GunnÓ) og reipdrátturinn milli kaupstaða og sveita. Hann hjelt því fram, að misrjettið í lögunum væri að tilstuðlan sveitaþm., en reyndi ekki að hrekja það, sem jeg sagði, að misrjettið væri nú stofnað með brtt. nefndarinnar, en í henni ættu sæti menn, sem allir væru búsettir í kaupstað. Það er auðvelt að komast hjá kjarna málsins, þegar svona rök eru notuð. Þetta vona jeg að aðrir hv. þdm. skilji betur.