29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (2165)

40. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Gunnar Ólafsson):

Það eru útreikningarnir, sem okkur kemur ekki saman um, hv. 1. þm. Eyf. (EA) og mjer. Hann sagði, að eftir uppástungu nefndarinnar yrðu launin um 1000 kr. Mjer skilst, að ef uppástunga okkar nær fram að ganga, þá muni launin verða 500 kr. í umdæmi, sem ekki telur yfir 1000 íbúa. Nú, en geri maður ráð fyrir 60% dýrtíðaruppbót, þá eru það 300 krónur. Eftir þessu geta launin komist hæst upp í 800 krónur í sveitaumdæmum þeim, sem ekki telja nema 1000 íbúa. En eftir frv. eru launin 700 kr. og með 60% dýrtíðaruppbót, sem er 420 kr., verða þau 1120 krónur, svo jeg verð nú að segja, að lækkun nefndarinnar frá frv. sje allveruleg. En þetta vill hv. 1. þm. Eyf. (EA) ekki viðurkenna með neinu móti.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) sagði og beindi til mín að sanna, hverjir hefðu skapað þetta misrjetti milli sveita og kaupstaða, þá skal jeg játa, að mjer var þetta ekkert kappsmál, að kenna það sjerstaklega sveitaþingmönnum. En eins og hann veit, hafa bændur ráðið mestu á þingi, eins og vera ber, og mjer finst gott og blessað, enda sagði jeg ekki þetta um afskifti bænda af þessu máli í þeim tilgangi, að jeg vildi niðra þeim á nokkurn hátt. Þvert á móti er það álit mitt, að þeim löndum sje best borgið, þar sem bændur og aðrir atvinnurekendur ráða mestu um löggjöfina, því fylgir alt af meiri festa og yfirvegun, Bændurnir eru eða eiga að vera aðall þjóðarinnar, og er því ekki ósanngjarnt af þeim að sýna þroska nokkurn í þjóðmálum, þótt reyndin verði önnur á köflum. Hann hjelt því líka fram, hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ), að aldrei mundi takast að skifta launum hlutfallslega rjett á milli sveita og kaupstaða. Jeg skal játa, að í einstaka tilfellum geti orðið vandkvæði á því, en þegar til heildarinnar kemur, held jeg, að auðvelt verði að skifta eftir rjettum hlutföllum.

Jeg vil halda því fram, að í anda og sannleika sje það rjettmætt, að ríkissjóður greiði að helmingi laun yfirsetukvenna, og að sama gildi um sveitir og kaupstaði í þeim efnum. Hinsvegar geri jeg þetta ekki að ágreiningsatriði frekar.