31.03.1926
Efri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (2167)

40. mál, yfirsetukvennalög

Einar Árnason:

Við 2. umr. gerði jeg grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Í samræmi við það hefi jeg leyft mjer ásamt tveimur öðrum hv. þdm. að flytja hjer brtt. á þskj. 258, þess efnis, að frv. breyttist í þá átt, að yfirsetukonur fái dýrtíðaruppbót úr ríkissjóði á núverandi laun sín frá 1. jan. 1926. Að öðru leyti ætlumst við flutningsmenn till. ekki til, að breytt verði að neinu leyti núgildandi lögum um laun yfirsetukvenna.

Eins og kom fram við 2. umr. málsins, þá geta hæstu lágmarkslaun yfirsetukvenna orðið 275 kr. Með þessari brtt. okkar, ef maður gerir ráð fyrir dýrtíðaruppbót 60%, verða launin 440 kr. Aftur geta hámarkslaun hjá þeim, sem hæst komast, hækkað úr 1000 kr. upp í 1600 kr. með dýrtíðaruppbót. Með þessu eru bætt allverulega launakjör yfirsetukvenna, að borgunin, sem þær fá frá því opinbera, hækki um meira en 1/3. Það sýnist vera allsæmilegt, þegar á það er litið, að ekki virðist liggja neitt fyrir um það, að hækkað sje hjá öðrum opinberum starfsmönnum þjóðfjelagsins.

Þar sem jeg þekki til, er starf yfirsetukvenna alls ekki mikið í sveitum; og eftir því sem ýms störf í sveitum eru borguð, þá virðist þetta vera vel viðunanlegt.

Í kaupstöðum munu störfin vera allmiklu meiri, en þar eru líka launin hærri, og auk þess hafa yfirsetukonur þar talsverða aukaborgun, sjerstaklega hjer í Reykjavík, þar sem jeg veit ekki betur en að þær taki borgun fyrir að leiðbeina og segja til ljósmæðraefnum.

Eftir þessu frv., eins og það liggur nú fyrir, þá er það óneitanlegt, að gjöldin til yfirsetukvenna aukast mjög mikið á sýslusjóði. Það mun svara því, að sýslur, sem þurfa nú að greiða um 1500 kr. í ljósmæðralaun, muni eftir frv. þurfa að greiða á 5. þús. Nú er það alkunnugt, að sýslusjóðir hafa ekki úr miklum tekjum að moða, eiginlega engar aðrar tekjur en af því, sem þeir leggja á hreppana. Og á sýslusjóðina hafa nú á undanförnum árum altaf verið lögð ný og ný gjöld. Má þar sjerstaklega tilnefna berklavarnir, sem eru orðnar ákaflega hár liður og tilfinnanlegur fyrir sýslusjóðina; auk þess sem kröfur til sýslusjóðanna frá hreppunum fara altaf vaxandi, sjerstaklega um það, að leggja alt af meira og meira fje fram til ýmissa samgöngubóta.

Af þeirri ástæðu, að við flm. þessarar till. teljum naumast fært að auka nú enn mikið útgjöld sýslusjóða í þessu skyni, þá höfum við lagt til, að þessi dýrtíðaruppbót verði greidd úr ríkissjóði.

Jeg sje ekki ástæðu til þess, að svo komnu máli, að tala meira um þetta. Málið var nokkuð rætt við 2. umr., og þá tók jeg fram afstöðu mína til þess.