31.03.1926
Efri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (2170)

40. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Gunnar Ólafsson):

Þeir hafa nú allir, þessir hv. flm. sem standa að brtt. á þskj. 258, stutt þá skoðun, sem þar kemur fram, með ræðum sínum, og sumir jafnvel farið lengra en brtt. gefur tilefni til.

Eins og hv. þdm. vita, þá er ein aðalorsök þess, að frv. þetta er fram borið, vöntun sú, sem er á ljósmæðrum í allmörgum sveitaumdæmum. Það hefir nú verið upplýst og enginn dregið það í efa, að ljósmæður vantar í um 20–30 umdæmi víðsvegar á landinu. Samhliða hefir og verið upplýst, og því heldur ekki neitað, að aðalorsökin til þessarar vöntunar muni vera sú, að launin sjeu fram úr hófi lág. Með þetta fyrir augum ætla jeg að frv. sje fram borið, auk þess, sem margir eru þeirrar skoðunar, að laun ljósmæðra sjeu alt of lág, samanborið við laun annara manna, sem opinberum störfum gegna. Tveir flm. brtt., hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) og hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ), hafa tekið ljett á þessu og lítið farið í ræðum sínum út fyrir það, sem brtt. gefur tilefni til. Aftur á móti hefir þriðji flm., hv. 1. þm. Rang. (EP), gert aðfinslur sínar að alllöngu máli og laumað inn í það mörgu, sem ekki sýnist eiga heima á þessu stigi málsins. Það, sem jeg sjerstaklega hjó fyrst eftir í ræðu hans, var það, að hann hrósaði flm. frv., hv. þm. Snæf. (HSteins), en hinsvegar áfeldist hann fjhn., sem um málið fjallaði, og aðallega fyrir það, að mjer skildist, að nefndin er á sama máli um ýms atriði frv. eins og hv. flm. þess. Nú vildi jeg spyrja hv. 1. þm. Rang. (EP), hvort það sje ekki sanngjarnt, að nefndinni sje líka hrósað, þar sem hún er að mestu leyti sömu skoðunar og flm. frv.? Brtt. hennar voru allar í anda upphaflega frv. og fóru í þá átt að bæta launakjör yfirsetukvenna,

Hann kvartaði mikið yfir því, og það máske ekki að ástæðulausu, að með frv. væri lagður þungur skattur á sýslusjóðina. Það er að vísu rjett, — jeg ætla ekki að bera á móti því. En spurningin er þá þessi: Verður hjá þessum kostnaðarauka komist? Vilji konur ekki læra vegna þess, að þeim þykir ekki til þess vinnandi, af því að launin sjeu svo lág, verður ekki hjá því komist að breyta til, því ekki gefa sveitirnar verið ljósmóðurlausar frekar en áður; þær verða væntanlega jafnnauðsynlegar hjer eftir sem hingað til. Hitt er vitanlegt, að ljetta mætti á sýslusjóðunum með því að láta ríkissjóð greiða öll yfirsetukvennalaunin. En hv. 1. þm. Rang. (EP) hefir ekki farið fram á það, enda er jeg hræddur um, að brtt. þess efnis ætti örðugt uppdráttar, eins og nú standa sakir. Óánægja hv. 1. þm. Rangæinga og fleiri hv. þm., út af brtt. nefndarinnar og frv. yfirleitt er sprottin af umhyggju fyrir sýslusjóðum, og er það út af fyrir sig ekki ámælis vert. En hjá þessum kostnaði verður ekki komist, ef hjer skal bót á ráðin. það er í alla staði rjett, að ríkissjóður greiði launin að hálfu á móti kaupstöðum og sýslusjóðum, og þó að þessir hv. þm. tali um það, að sveitirnar verði harðara úti hlutfallslega; þá er ekki öðru að svara en því, að sveitirnar geta ekki án ljósmæðra verið og verða því að taka á sig þau gjöld, sem af því leiðir. Eins og stendur greiða bæirnir launin að öllu leyti, en það er ósanngjarnt, úr því að sýslurnar sleppa með að greiða aðeins helminginn. Fyrir nefndinni vakti ekkert annað en að leiðrjetta það misrjetti, sem kaupstaðirnir hafa verið beittir. Því hefir nú verið kastað fram hvað eftir annað, að brtt. nefndarinnar væri framborin vegna okkar kaupstaðarbúa, sem í nefndinni eigum sæti. En fyrir nefndarinnar hönd vísa jeg slíkum aðdróttunum á bug sem algerlega ómaklegum og óviðeigandi.

Háttv. 1. þm. Rang, talaði um það, að laun yfirsetukvenna í sveitum væru of há í samanburði við laun oddvita og þessháttar manna. Jeg skal játa, að mjer er ekki vel kunnugt um laun oddvita sumstaðar, en mjer er kunnugt um það, að í sumum sveitum hafa þeir 4% af innheimtum sveitargjöldum, og þar sem því er svo farið, fá þeir eigi minni laun en yfirsetukonur. Það má vitanlega segja, að það sje meira starf, sem oddvitar vinna, en það er aftur á móti vandasamara starf, sem yfirsetukonur inna af hendi, og ætti það því að vera betur launað. Mig furðaði á því, að hv. 1. þm. Rang. ljet í ljósi, að nefndin hefði viljað íþyngja sveitunum með þessu. Eins og jeg hefi áður tekið fram er þetta gersamlega ástæðulaust. Nefndin sá, að hjer var um aukin útgjöld að ræða fyrir sýslurnar, en hún áleit, að hjá þeim kostnaði yrði eigi komist, ef bæta ætti úr hinum mikla núverandi skorti á ljósmæðrum, nema því aðeins að einhver vildi leggja það til, að ríkið greiði að öllu leyti laun þeirra í sveitum. Hvað snertir till. háttv. þm. A.-Húnv., þá hefi jeg ekki haft tíma til að bera mig saman við hv. samnefndarmenn mína um hana. En jeg get sagt það fyrir mitt leyti, að þó að jeg sje með því, að ríkið greiði að hálfu laun yfirsetukvenna í bæjum, þá geri jeg það eigi að svo miklu kappsmáli, að jeg vilji með því hindra, að frv. þetta nái fram að ganga og að kjör yfirsetukvenna verði bætt.

Það var víst margt fleira, sem háttv. þm. sögðu, en jeg held ekki, að það hafi gefið sjerstakt tilefni til frekari umræðu.

Einhver hv. þm, mintist á það, að yfirsetukonur í sveitum ættu um leið að vera hjúkrunarkonur. Jeg skal viðurkenna, að það væri mjög heppilegt, ef það gæti farið saman, en jeg skal um leið taka það fram, að nefndin átti tal um þetta við landlækni, og setti hann þvert nei fyrir, að slíkt geti farið saman. Nefndin sá sjer ekki annað fært í þessu efni en hlíta hans ráðum. Um launakjörin sagði hann eins og tekið er fram í nál., að hann áliti hina mestu þörf á, að þau yrðu bætt, og það hefir nefndin með till. sínum viljað leitast við að gera. Í hinu upphaflega frv. var gert ráð fyrir meiri launahækkun en nefndin gat fallist á. Nefndin vildi fara meðalveginn og finna út þau launakjör, sem allir aðiljar gætu, eftir atvikum, unað við fyrst um sinn. Háttv. deild hefir, að undanteknum 3 hv. þm., viðurkent, að nefndin hafi einmitt hitt á sæmilega leið í þessu máli.

Jeg man ekki eftir, að fleiri hv. þm. hafi hreyft andmælum en þeir 3, er bera fram brtt. á þskj. 258. Jeg verð að taka það fram, að öll ámæli háttv. þm. Rang. í garð nefndarinnar eru með öllu órjettmæt að mínu áliti. Nefndin hefir reynt að skipa þessu máli svo, að allir aðiljar mættu sem best við una, það er rjett, sem háttv. 1. þm. Rang. sagði, að sýslusjóðirnir stynja undir þungri gjaldabyrði, en jeg vil benda honum á það, að það eru engu síður bæjarfjelögin, sem stynja undir gjaldabyrði sinni, og þau hafa að ýmsu leyti þyngri byrðar að bera en sveitirnar, þó að þær berji sjer svo mjög eins og títt er í mörgum tilfellum.