31.03.1926
Efri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (2177)

40. mál, yfirsetukvennalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. 3. landsk. (JJ) var hjer að segja sögu frá Alþingi 1919. Jeg veit ekki til þess, að hann ætti sæti þar, og það átti jeg heldur ekki. Hv. þm. sagðist hafa fyrir satt, að þingið 1919 hefði látið kúgast fyrir samtökum launamanna ríkisins. Jeg hefi nú aðeins heyrt þessa sögu frá hv. 3. landsk. (JJ), og jeg hefi lesið öll þingtíðindin, að því er til launamálsins kemur, og ekki getað annað fundið en að þetta muni vera tilhæfulaust. Og jeg vil bæta því við, að jeg álít, að launalögin frá 1919 sjeu alveg sjerstaklega hagstæð fyrir ríkissjóð, sem sjest af því, að embættislaun hafa síðan verið mikið minni hækkun undirorpin en laun og kaup þeirra manna, sem starfa annarsstaðar en í ríkisins þjónustu. Það er því mjög ósennileg saga, að þingið hafi látið kúgast af samtökum launamanna. Hitt nær heldur engri átt, að yfirsetukonur gjaldi þess, að þær hafi ekki sett sig í varnarstöðu gagnvart þjóðfjelaginu. Sje slík hugmynd ekki beint sprottin af sjúkleika, þá ber hún þó a. m. k. ekki vott um fullkomna heilbrigði. Jeg veit vel, að það er mjög vanþakklátt verk, sem jeg gegni hjer, með því að reyna að halda í horfi laununum í hverju einstöku tilfelli, til þess að ekki komi fram ósamræmi, sem dragi á eftir sjer hækkun á öðru sviði, svo endirinn verði sá, að embættin og launabáknið vaxi þjóðinni algerlega yfir höfuð. Hitt er miklu þægilegra hlutskifti, sem hv. 3, landsk. (JJ) hefir valið sjer, og getur gengið um stund að láta sífelt undan kröfum þessa og hins, sem nauðsynlega þurfi á launabót að halda. Forlögin hafa nú hagað því svo, að hinu erfiða hlutskifti er varpað á mínar herðar um stund. En háttv. 3. landsk. (JJ) getur setið að fótum meistara síns, sem er lýðurinn, og talað eins og hver vill helst heyra.

Hv. 1. landsk. (SE) fór mörgum og fögrum orðum um nauðsyn yfirsetukvenna. Það atriði er nú ekki til umræðu hjer, heldur hitt, hve há laun þurfi að greiða, til þess að geta notið aðstoðar þessara nauðsynlegu borgara.

Hv. 1. þm. Rang. (EP) gerði ljósa grein fyrir því, að eins og komið væri alment gjaldþoli sveita og sýslusjóða í landinu, þá væri heldur langt gengið í uppástungu hv. flm. brtt. á þskj. 258, nema með henni væri ætlast til þess, að ríkissjóður greiddi dýrtíðaruppbót einnig af þeim hluta launanna, sem sveita-, bæja- og sýslusjóði bæri að greiða. Einnig verður það að teljast óheppilegt, að einn aðili greiði grundvallarlaunin, en hinn uppbótina. Hjer var nefnt eitt dæmi upp á þetta, sem sje laun barnakennara, en slíkt er síður en svo til fyrirmyndar, og það mun sýna sig, þegar ný skipun verður gerð á launalögunum, að þessu verður breytt. Það er eðlilegast, að sett sjeu bein ákvæði um það, hvað ríkissjóður eigi að greiða, og það því fremur, sem hlutfallið milli þess, sem ríkið greiðir, og hins, sem sveitareða bæjarsjóður greiðir, hlýtur að verða breytilegt, nema hvor aðili greiði uppbót á sinn hluta launanna. Þess ber að gæta, að orðin þriðja hvert ár eru notuð í lögum um laun og skipun barnakennara, og það framkvæmt á sama hátt og háttv. 2. þm. S.-M. (IP) segir, að sje tilætlun nefndarinnar hjer: 3. hvert ár = á þriggja ára fresti; og kemur þá full aldursuppbót ekki fyr en eftir 12 ára þjónustu.

Það er mjer óskiljanlegt, að nokkur skuli vilja meta það, hvað há laun yfirsetukvenna skuli vera, eftir því, hvað hátt kaup þarf að gjalda vinnustúlkum fyrir störf alt árið. Það verður að líta á það, hvað stórt þetta starf er, en ekki hitt, hvað aðrir vilja fá fyrir önnur störf allan ársins hring. Jeg vil líka benda á það, í sambandi við þá launabót, sem hjer er farið fram á, að það er nokkuð óvenjulegt stökk að þrefalda laun alt í einu frá því, sem þau áður hafa verið.

Jeg hefi aðeins talað um frv. í sambandi við brtt., og hv. þdm. verða að ráða það við sjálfa sig, hvort þeir greiða hærri eða lægri till. atkvæði. En þegar litið er á þetta tvent, annars vegar launin þrefölduð frá því, sem verið hefir, og hinsvegar hvort sveitarfjelögunum muni ekki ofvaxið að greiða þessi laun eftir sömu hlutföllum og áður, þá finst mjer ástæða til þess að spyrja, hvort rjett sje að ganga svona langt.