31.03.1926
Efri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (2180)

40. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Gunnar Ólafsson):

Jeg verð að byrja á því að taka undir með hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) um það, að talað hefir verið margt og mikið um þetta mál. Hv. andstæðingar frv. hafa við allar umr. klifað á því, að með frv. þessu væru laun yfirsetukvenna þrefölduð, og sama sagði hæstv. fjrh. (JÞ). Þetta er rjett að vissu leyti, en það er líka alveg rangt í sumum tilfellum. þessi margföldun á sjer aðeins stað um þær ljósmæður, sem hafa verið lægst launaðar, þær, sem eru í sveitaumdæmum, og það er svo mörgum sinnum búið að taka það fram, að þessi launahækkun er bygð á þeirri vöntun á ljósmæðrum, sem nú er. Það skal enn tekið fram, sem líka er ómótmælanlegt, að ljósmæður í sveitum hafa talsverðan kostnað af því, að þær verða, eftir því sem ljósmæður hjer í Reykjavík hafa sagt mjer, að hafa talsvert af dýrum meðulum, og þeir, sem vit hafa á, segja, að þau meðul, sem þær verða að hafa, ónýtist, ef þau eru geymd nokkuð langan tíma. Þetta eru strax dálítil útgjöld á litlum launum, og þá er ekki lengi að fara kúfurinn af þessum háu launum, sem sumir kalla hjer. En þegar talað er um þreföldun á launum og litið er til kaupstaðanna, þá er þetta algerlega rangt. Eftir núverandi lögum eru hæstu laun yfirsetukvenna í kaupstöðum 1000 krónur; en verði þetta frv. að lögum, þá eru hæstu laun í kaupstöðum ákveðin 1500 krónur auk dýrtíðaruppbótar af fyrstu 500 krónum þessara launa. Ef gert er ráð fyrir 60% dýrtíðaruppbót á 500 kr., þá verður hún 300 kr., og launin þá öll 1800 krónur. Jeg vona, að hv. þm. sjái, að í þessu efni hafa þeir farið villir vegar, þegar þeir tala um þreföldun launanna yfirleitt. Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) sagði það í fyrri ræðu sinni, að auk þessara miklu launa, sem yfirsetukonur fá, fengju þær einnig borgun fyrir störf sín. Þetta er rjett, lögin áskilja þeim laun fyrir störf sín, jeg ætla, að það sjeu 7 krónur fyrir að taka á móti barni og kr. 2,50 í daglaun. Jeg geri ráð fyrir, að í mörgum tilfellum innheimtist þessi borgun skilvíslega og ef til vill nokkru meira hjá einstöku mönnum, en hitt veit jeg líka, að það er víst oft og mjög oft, að ljósmæður fá ekkert og kalla ekki eftir neinu, þar sem um fátæk heimili er að ræða. Ætla jeg og, að miklu frekar megi finna þess dæmi, að yfirsetukona leggi fátæku heimili frekar til en taki þar laun, og mun það gilda engu síður í sveitum en í kaupstöðum.

Þegar nú þess er gætt, sem jeg hefi sagt og jeg hygg að menn þekki, þá býst jeg við, að menn verði að viðurkenna, að launin sjeu ekki of há, því að óneitanlega mun slík hjálp ærið nauðsynleg, bæði í sveitum og í kaupstöðum, þar sem fátækt fjölskyldufólk á hlut að máli, Með bættum launakjörum er ljósmæðrum, að minni ætlan, gert mögulegt að framkvæma vilja sinn um liðsinni, við þá, er bágast eiga.

Hv. 1. þ. m. Eyf. (EA) viðurkendi það, að ljósmæður hefðu orðið verst úti, þegar laun opinberra starfsmanna voru ákveðin á þingi 1919. En þegar nú hv. þm. (EA) viðurkennir það, þá þykir mjer undarlegt, ef hann ekki vill viðurkenna það, að rjettmætt sje að bæta nú það, sem þá var rangt gert. Enn spurði hv. þm. (EÁ) um það, hvað yrði af þessum ljósmæðraefnum, sem lærðu, og bar fyrir sig umsögn landlæknis í þá átt, að nokkuð margar lærðu árlega. Það er sjálfsagt rjett, að það eru nokkuð margar að tiltölu, sem læra árlega, en að þær ekki láta skipa sig sem yfirsetukonur, því er víst fljótsvarað, það er vitanlega af því, að þeim býðst betra annarsstaðar en í ljósmæðrastöðunni. Eftir þeim upplýsingum, sem nefndin að nokkru leyti hefir fengið, og þeim, sem jeg hefi fengið persónulega, hefir það komið í ljós, að það er ákaflega mikil hreyfing meðal ljósmæðra í landinu að fá bætt kjör sín. Vitanlega segi jeg ekki, að þær leggi niður störf sín fyrir það, ef þau verða ekki bætt, og þó hefi jeg heyrt, að það hafi komið til orða.

Enn eru það nokkur orð viðvíkjandi till. hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ); jeg tók það fram áðan, að sú till., þótt samþykt yrði, breytti ekki aðstöðu margra til þessa frv., en hinsvegar vil jeg taka það fram, að mjer þykir hún ekki sanngjörn, og eins hitt, að jeg mun greiða atkvæði á móti henni. Mjer þótti vænt um að heyra það, að hv. 4. landsk, (IHB) óskaði þess helst, að öll laun yfirsetukvenna væru greidd úr ríkissjóði, ekki beint af því, að jeg ætlist til, að svo verði, heldur vegna þess, að þegar hv. 4. landsk. (IHB) er samþykkur því, að öll laun sjeu þannig greidd, þá býst jeg við, að hv. þm. (IHB) verði einnig fús til þess að fella þá skriflegu till., sem hjer er fram komin um það, að kaupstaðirnir njóti ekki sama rjettar í þessu efni eins og sveitirnar, því að hvernig sem maður reiknar það út og hvað sem maður segir um það, þá er það þó ekki nema alveg sanngjarnt, að uppástunga nefndarinnar, sem miðar að fullkomnu jafnrjetti milli sveitanna og kaupstaðanna, verði samþykt, eins og vitanlega á að vera. Það er margt, sem hv. andstæðingar frv. hafa fundið að því, en flest af því hefir verið þannig lagað, að það krefst ekki andsvara, og eins hitt, að þeir hv. þm., sem með frv. eru, hafa mótmælt því, svo að jeg sje ekki ástæðu til þess að segja meira að sinni.