31.03.1926
Efri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (2181)

40. mál, yfirsetukvennalög

Halldór Steinsson:

Það verða aðeins örfá orð, því að það, sem jeg hefði viljað segja, hafa þeir, sjerstaklega hv. 4. landsk. (IHB) og hv. 2. þm. S.-M. (IP), tekið fram og tekið af mjer ómakið. Það er þá fyrst þessi sífeldi jarmur um það, að þessi laun sjeu þrefölduð. Þessi jarmur kom svo greinilega fram hjá andstæðingum frv., og þó sjerstaklega hjá hæstv. fjrh. (JÞ), sem vildi halda því fram, að það ætti ekki að fara eftir sama mælikvarða á þessum launum og launum annara starfskvenna í þjóðfjelaginu, en það er algerlega rangt, það verður einmitt að miða við það, því að af hverju stafar þessi fæð af yfirsetukonum? Ekki af öðru en því, að laun annara starfskvenna hafa hækkað mikið á meðan laun yfirsetukvenna hafa staðið í stað, og þaðan stafar fækkunin og það, hve erfitt er að skipa yfirsetukvennaumdæmin. Það er einmitt það, að þó menn líti aðeins til launa annara kvenna hjer á landi, þá hafa laun þeirra síðan árið 1919 áreiðanlega meira en þrefaldast, svo að ef það er tekið til samanburðar, þá er ekkert við því að segja, þó að laun þessara kvenna yrðu þrefölduð, því að menn verða nú einu sinni að slá því föstu, að yfirsetukona í sveit eða kaupstað er ekki frjáls ferða sinna. Það væri ekkert við því að segja, ef hún gæti farið úr umdæmi sínu og leitað sjer atvinnu þar sem best er, eins og t. d. lausakonur gera; þær fara í fiskvinnu og koma svo kannske með 600 krónur eftir tímabilið, en yfirsetukonan verður að sitja heima og getur kannske, þegar best lætur, fengið einhverja kaupavinnu, og þó aðeins slitrótt; því að hún verður alt af að fara, þegar kallið kemur. Þessvegna þýðir ekki að segja það, að í fámennu hjeraði geti slík kona gefið sig við öðrum störfum, því að hún er of ófrjáls til þess. Þá hefir verið minst á hjúkrunarstarfsemi í sambandi við þær. Við 1. umr. þessa máls sagði jeg, að jeg áliti, að þessi starfsemi gæti vel farið saman, og þó að landlæknir álíti, að það sje ógerlegt, þá verð jeg að standa fast við mína skoðun, og jeg þykist líka, með allri virðingu fyrir landlækni, bera talsvert skyn á þetta. En jeg ætlast heldur ekki til, að yfirsetukonur séu algerlega ólærðar í þessu starfi, eins og hv. 2. þm. S.-M. (IP) virtist gera ráð fyrir; jeg tók það fram, að þær yrðu látnar ganga á hjúkrunarnámsskeið, samfara náminu við yfirsetukvennaskólann, svo að þær yrðu ekki ólærðar. En þar sem svo hagar til eins og hjer á landi, að það eru svo mikil vandkvæði á að fá vel lærðar hjúkrunarkonur, vegna þess hve fáar eru til ennþá, þá yrði að taka því, þó að þær væru ekki hálærðar, og smitunarhættunni geri jeg ekki mikið, úr, því að jeg verð eins og fleiri að halda því fram, að svo framarlega sem ljósmóðirin er starfi sínu vaxin, þá verði líka að gera þær kröfur til hennar, að hún geti varnað sjúkdómnum að berast frá einum til annars, því að hvernig ætti annars að vera hægt að gera ráð fyrir því, að hún bæri ekki smitun á milli sængurkvenna sinna? Ef hún t. d. bæri smitun frá taugaveikissjúkling, sem hún hjúkraði, þá gæti hún alveg eins borið smitun frá einni sængurkonu til annarar. Þá hefir verið, bæði við þessa umr. og eins við fyrri umræður, minst á laun annara starfsmanna og þá oftast boxið saman við laun barnakennara. Einn hv. þm. sagði, að barnakennari myndi hafa yfir 6 mánaða tíma um 980 krónur, en sá hv. þm. lagði ekki áherslu á það, eins og vera ber, að hinn helming ársins, og það er betri helmingurinn, getur barnakennarinn sannarlega haft annað eins, svo að laun þeirra verða alt af að minsta kosti helmingi hærri en yfirsetukvenna, þó að þau komist í þetta horf.

Þá skal jeg aðeins lýsa yfir því, sem flm. þessa máls, að jeg er ekki í neinum vafa um það, hvernig beri að skilja ákvæðin um að borga út dýrtíðaruppbótina. Jeg skil það svo, að hún eigi að vera borguð af sömu aðiljum og launin. Á sama máli er og hæstv. frjh. (JÞ), og finst mjer, að ekki þurfi að taka það frekar fram í frv. en gert er.