07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Baldvinsson:

Mjer finst það hart af hv. fjvn. þessarar deildar að beygja sig svo gersamlega fyrir hv. Ed. sem nú eru horfur á, eftir að hv. Ed. hefir aðeins haft fjárlögin einu sinni til meðferðar. Í stjórnarskránni er beinlínis ætlast til þess, að hv. Nd. ráði fjárlögunum. Þykir mjer það því undarleg ráðstöfun hjá hv. fjvn., að hún treystist ekki að láta koma til atkvæða till., sem hún sjálf er fylgjandi, eins og þá, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) flytur á þskj. 514. Í stað þess ætlar hún í pukri og bak við hv. deild að ákveða útgjöld með því einu að tala um það við stjórnina. — Jeg marka þetta af því, að hv. frsm. (ÞórJ) talaði um, að þetta mundi koma til útgjalda þegar á þessu ári. — Jeg mundi greiða atkv. með því að veita þessa upphæð, en verð að finna að því, er menn vilja nota slíka aðferð sem þessa. — Jeg geri ráð fyrir því, að háttv. fjvn., sem sjálf er ¼ hluti háttv. deildar, hafi trygt sjer hjálp einhverra annara hv. þdm. til að drepa þær brtt., er hún vill að falli. En nú langar mig til að vita, hvort hv. fjvn. hefir samþykt það og bókað í fundargerðir sínar, að hún ætli að vera á móti hverri till., sem fram er borin, og nota þá aðferð til að fella þær. Því að þótt hv. þd. hafi synjað afbrigða um brtt. mínar, eru þó nokkrar aðrar eftir, sem enn geta komið til atkv. Jeg tók ekki almennilega eftir, hvort hv. þm. Mýr. (PÞ) tók aftur brtt. sína á þskj. 514. (KlJ: Jú, það gerði hann greinilega). Jæja. En með 3. brtt. á því sama þskj. hafa flm., hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. þm. Str. (TrÞ), flutt svo sterk rök, að þeir hafa sannfært mig um nauðsyn þeirrar fjárveitingar; vil jeg ekki láta þessa till. niður falla, og tek hana því hjer með upp.

Þá vil jeg víkja að því, sem hv. þm. Mýr. sagði. Hann talaði um, og vjek því til hæstv. stjórnar, hvort hún vildi ekki lofa að veita einum umsækjanda, er hann tilgreindi, styrk af 15. gr. 19 a, af skálda- og listamannastyrknum. En það eru allmargar umsóknir, sem annaðhvort hafa ekki verið bornar upp eða ekki auðnast að ná samþykki. M. a. er umsókn um 5000 kr. frá Eggert Stefánssyni. Þessari umsókn ætlaði jeg að hjálpa áleiðis, en hv. þd. hefir nú varnað mjer þess, svo að engin formleg till. liggur fyrir um að veita þetta fje. En erindið sjálft liggur þó fyrir, og vil jeg skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort hún treystir sjer ekki til að veita Eggert Stefánssyni nokkuð af því fje, sem ætlað er til skálda og listamanna. Það mun vera bannað að veita minna en 1000 kr., svo að hæstv. stjórn gæti þá vel úthlutað Eggert tveim. Hann segir m. a. í erindi sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefir sýnt sig, að hvarvetna sem jeg hefi sungið íslensk lög, hafa þau vakið mikla eftirtekt og sú eftirtekt beinist um leið að landinu og þjóðinni, eins og sýna fjöldi greina í blöðum og tímaritum, sem ritaðar hafa verið í sambandi við söng minn.“

Ennfremur vil jeg út af 15. gr. 19 e. geta þess, að hv. Ed. lækkaði fjárhæð þessa um 500 kr. Það mun nú orðið of seint að koma fram með brtt. um þetta, en þar sem hv. Nd. samþykti með miklum atkvæðamun, að þessi maður skyldi fá 2500 kr., vona jeg, að hæstv. stjórn sjái sjer fært að veita honum 500 kr. í viðbót. — Hv. Ed. hafði það svo um utanfararstyrki til listamanna, að hún jafnaði þá alla og ákvað 2000 kr. til hvers. En það er enganveginn sanngjarnt, að þarna fái allir jafnt. Þeir, sem stunda erfitt nám og kostnaðarsamt, verða að fá hærri styrk en hinir. Karl Runólfsson er einn þeirra, sem erfiðast nám stunda og leggja mest á sig. Hefði því verið mjög rjettlátt, að hann hjeldi þeim 2500 kr., sem hv. Nd. ætlaði honum, er fjárlögin voru afgreidd þaðan. Endurtek jeg því áskorun mína til hæstv. stjórnar, að veita honum a. m. k. 500 kr. að auki.

Við 17. gr. hefir hv. Ed, ekki gert miklar breytingar. Þó gerði hv. fjvn. tilraun til að fella niður 5. lið, og vildi að vísu, að í stað þess kæmi annar nauðsynlegur styrkur. Nú var það vitanlega ekki formrjett að láta styrk til sjúkrasamlags koma í stað styrks til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík, enda var brtt. nefndarinnar feld. Sjúkrasamlag Reykjavíkur fær því engan styrk í þessum fjárlögum til að stofna ný sjúkrasamlög og starfa að samvinnu meðal sjúkrasamlaga. Vil jeg því víkja því til hæstv. stjórnar, hvort hún gæti ekki ætlað því fje í þessum tilgangi í næstu fjárlögum. Sjái hún sjer það ekki fært, mun jeg bera fram brtt. um það á næsta þingi. — Nú er hinsvegar tekin upp sú regla að ákveða útgjöld án þess að spyrja þingið, og vil jeg því fara fram á það við hæstv. stjórn að hafa það svo með þetta. (Atvrh. MG: Það þori jeg ómögulega).

Þá hefi jeg nú launað háttv. deild að nokkru, að hún vildi ekki veita afbrigði, til þess að brtt. mínar mættu komast að. Á jeg enn eftir aðra ræðu og „stutta“ aths., og er ekki ólíklegt, að jeg noti þann rjett minn, ef ekki verður búið að breyta þingsköpum næst þegar jeg vil standa upp.