27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

1. mál, fjárlög 1927

Bernharð Stefánsson:

Á þskj. 230 eru 2 brtt. frá mjer við þennan kafla fjárlaganna, og skal jeg nú gera grein fyrir þeim með nokkrum orðum.

Fyrst skal jeg víkja að IV. brtt. á þskj. 230, sem er við 12. gr. 15. d., sjúkraskýli og læknisbústaðir. Fer brtt. fram á, að Siglufirði verði veittar 30 þús. kr. til byggingar sjúkrahúss. Jeg bar fram þessa brtt. á síðasta þingi, en það fór svo, að hv. fjvn. lagðist á móti því að styrkurinn yrði veittur þá, enda fjell till. hjer í hv. deild. Hinsvegar hafði hv. frsm. nefndarinnar (ÞórJ) góð orð um, að styrkinn bæri að taka upp í fjárlögin 1927. Jeg verð að líta svo á, að í ummælum hans hafi falist loforð um, að málinu yrði sint á þessu þingi. Jeg kannast við með þakklæti, að nefndin hefir efnt þetta loforð sitt að miklu leyti, þar sem hún leggur til að styrkurinn til sjúkraskýla og læknisbústaða verði hækkaður úr 15 þús. upp í 23 þús. kr., með það fyrir augum, að Siglufjörður fái hann allan. Miðar nefndin við það að þetta sje 1/3 hluti þeirrar upphæðar, sem húsið muni kosta, en það er vanalegt, að ríkissjóður veiti 1/3 hluta til slíkra bygginga.

En þó að jeg sje nefndinni þakklátur fyrir að hafa tekið beiðnina frá Siglufjarðarkaupstað til greina að þessu leyti, hefi jeg samt leyft mjer að leggja til, að styrkurinn verði hækkaður um 7 þús. kr. og það skýrt tekið fram i fjárlögum, að hann sje ætlaður handa Siglfirðingum einum. Er þessi tillaga bygð á þeirri staðreynd, að til Siglufjarðar safnast að sumrinu mikill fjöldi aðkomufólks, og er þörfin fyrir sjúkrahús þar eins mikil, ef ekki meiri, vegna þessa fólks en Siglfirðinga sjálfra. Horfir til stórvandræða, ef veikindi koma upp hjá þessu fólki, sem hvergi á höfði sínu að að halla og býr við afarljeleg húsakynni. Lít jeg svo á að ríkinu beri bein skylda til, vegna þessa aðkomufólks, að styrkja þessa sjúkrahúsbyggingu meira en aðrar, sem aðeins koma hlutaðeigandi bæ eða hjeraði að notum. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þessa brtt., en vona að hún fái góðar undirtektir hjá hv. deild.

Þá vil jeg minnast á XI. brtt. á sama þskj., af því að jeg er meðflm að henni. Hún fer fram á, að heilsuhælissjóði Norðurlands verði endurgreiddar 10 þús. kr. fyrir lagningu vegar af Eyjafjarðarbrautinni heim að hælinu. Það hefir áður verið vikið að þessu máli við 2. umr. um vegalögin, og þarf jeg því ekki að fjölyrða um það nú, enda mun hv. aðalflm. (BL) gera nánari grein fyrir till. Jeg vil aðeins heita á meiri hl. samgmn., samkvæmt því, sem segir í nál hans, málinu til stuðnings, og vona jeg, að hv. meiri hl. standi nú við orð sín.

Jeg finn ástæðu til að votta hæstv. stjórn og hv. fjvn. þakkir fyrir að hafa munað eftir Ólafsfjarðarlækninum, því jeg

tel nauðsyn, að þessi fjárveiting standi áfram í fjárlögum.

Jeg vil beina því til hæstv. stjórnar, að jeg er ekki ánægður með framlagið til Þelamerkurvegar; finst það nokkuð lágt í samanburði við ýmsa aðra vegi. Mun jeg þó enga brtt. koma með við þennan lið, en láta sitja við það að þessu sinni, sem ætlað er til vegarins í frv.

Jeg hafði í fyrstu ætlað mjer að athuga nokkuð einstakar brtt. annara þm., en eins og ástatt er í deildinni nú, sje jeg ekki, að það sje til neins. Lýk jeg því máli mínu hjer með.