21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (2200)

83. mál, útrýming fjárkláða

Þorleifur Jónsson:

Jeg álít þörf á því, að ræða þetta mál hjer við þessa umr., þar sem engar umr. urðu um það við 1. umr. Það eru ýmsar athugasemdir, sem jeg vildi gera, en þó skal jeg ekki vera langorður.

Það er svo um frv. þetta, að frá hv. nefnd hefir því ekki fylgt neitt álit nje greinargerð um það, hver þörf sje á því að ráðast í þetta fyrirtæki, sem jeg álít nokkuð stórt. Frv. fylgir að vísu brjef frá dýralækni, en engin skýrsla um það, hvað kláðinn sje útbreiddur í landinu. En áður en þessu máli er ráðið til lykta, álít jeg, að skýrslur þurfi um það atriði og eins um hitt, hvort kláðinn sje að magnast svo, að taka verði til þessara ráða.

Það eru nú 22 ár síðan að ráðist var í þá útrýmingu kláðans, er allir trúðu þá á, að koma mundi að fullu gagni. En það sýnir sig, að sú tilraun mishepnaðist, því að skömmu á eftir fer að bóla á kláðanum aftur. Nú er spurningin sú: Mun takast betur nú en þá að útrýma kláðanum? Það væri náttúrlega ágætt, ef það væri hægt, en jeg leyfi mjer að efast um það.

Svo sem jeg drap á áðan, þá er engin skýrsla frá hv. nefnd um það, hvað kláðinn er útbreiddur. Fyrir nokkrum árum var talað um mikinn kláða í Árnessýslu, en nú er hann þar ekki, og má búast við, að honum hafi því verið útrýmt þar. Einnig hefir verið talað um kláða fyrir norðan og vestan, en eftir öllum sólarmerkjum að dæma er hann þar í rjenun, og sýnir það, að honum má halda í skefjum með þeirri aðferð, sem höfð hefir verið.

Það eru hreinustu vandræði, að leggja út í útrýmingarböðun, jafn-kostnaðarsöm og hún er, með stuttu millibili, nema því aðeins að menn sjeu vissir um, að hún komi að því gagni, sem til er ætlast.

Það er sannfæring mín, að því aðeins sje hægt að útrýma kláðanum, að allur almenningur leggist þar á eitt, og að nákvæmt eftirlit sje haft með því. En það hefir nú sýnt sig, að almenningur hefir ekki mikla trú á þeirri hættu, sem af fjárkláðanum stafar, og því er hætt við því, þótt þessi tilraun verði gerð, að fara muni sem áður, en á hinn bóginn mundi miklu fje á glæ kastað. Þótt sá kostnaður nemi ekki meiru en 100 þús. kr. fyrir ríkissjóð, verður tilraunin dýr fyrir almenning, því að böðunin kostar langa innigjöf fyrir fjenaðinn. Mjer skilst, að hafa verði fjeð í haldi fram yfir allar baðanirnar. Þetta hefir að vísu ekki mikið að segja, þar sem fje er á innigjöf hvort sem er, en víða er útbeit mikið notuð, og þar er teflt á tvær hættur um heybirgðir bænda, ef þeir verða að taka alt fje til innigjafar um langan tíma. Jeg býst líka við því, að fje þurfi betri hjúkrun eftir baðanir en ella.

Það er aðalgallinn á frv. þessu, að gert er ráð fyrir, að ekki sje hægt að útrýma fjárkláðanum nema með því móti, að alstaðar sje baðað, jafnt í þeim hjeruðum, þar sem aldrei hefir orðið kláða vart, sem í hinum. Í AusturSkaftafellssýslu hefir aldrei verið fjárkláði, hvorki fyr nje síðar, og líklega er sama máli að gegna um Vestur-Skaftafellssýslu. Og því væri hart fyrir þær sýslur, ef þær yrðu að sætta sig við þetta frv.

Jeg vildi, að ítarleg fjárskoðun yrði látin fram fara um alt land, og þar sem kláða verður vart, þar verði baðað kláðabaði, en þeim hjeruðum, þar sem enginn kláði er, verði slept við böðun. Þess hefði verið óskandi, að hv. landbúnaðarnefnd hefði tekið þetta til athugunar áður en málið kom hjer til umr., og eins hvort nauðsynlegt sje að leggja út í þessa stórböðun, sem á að ganga jafnt yfir allar sveitir.