21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (2204)

83. mál, útrýming fjárkláða

Bernharð Stefánsson:

Jeg vil taka undir með hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) og hv. þm. Str. (TrÞ), að full þörf er að ræða og athuga þetta mál. Jeg vil meira að segja kveða svo sterkt að orði, að það hefði verið óhæfa, að það hefði farið umræðulaust gegnum hv. deild, svo mikinn kostnað sem þessi útrýmingarböðun mundi hafa í för með sjer. Þessi orð mín ber þó ekki að skilja sem andstöðu gegn frv., því að jeg álít, að mikið sje vinnandi til að útrýma kláðanum. Því að svo sem menn vita, er það hann, sem stendur mest í vegi fyrir, að við fáum að flytja lifandi fje til Englands.

Út af kostnaðinum, sem mikið hefir verið um rætt, vil jeg segja, að allur þessi kostnaður verður ekki aukakostnaður fyrir ríkissjóð. Því að eins og kunnugt er, er altaf verið að gera ýmsar kák-ráðstafanir til útrýmingar kláðanum, þeim ráðstöfunum fylgir altaf kostnaður, sem má draga frá þessu. En þessar kláðabaðanir eru aðeins kák. Haustið 1921 voru t. d. 2 kláðabaðanir í nokkrum hluta Eyjafjarðar. Þó tekist hefði að útrýma kláðanum í bili á því svæði, þá hefði það samt orðið alveg gagnslaust, því að næsta sumar gekk fjeð saman við annað fje, og hefði því getað fengið kláðann aftur. — Jeg held, að eina ráðið sje almenn böðun um land alt, eða a. m. k. meiri hluta landsins. Það kann að vera, að svo hátti í AusturSkaftafellssýslu, ef aldrei hefir komið kláði þar, að vötn og aðrar torfærur hefti samgang fjár á milli hjeraðanna, og að af þeim ástæðum mætti sleppa eins strangri böðun þar. Hinsvegar álít jeg, að ef þetta er ekki fullkomlega trygt, þá verði böðunin að fara fram um alt land, ef átt er við hana á annað borð.

Það hefir verið minst á útrýmingarböðunina 1903 og 1904, og í því sambandi á greinargerð dýralæknis, sem fylgir frv. Jeg verð að segja það, að jeg er ósamþykkur ummælum dýralæknis um starf þeirra manna, sem unnu að böðuninni 1903–4. Jeg álít það algerlega ómaklegt, að gert sje lítið úr því. Hinsvegar hafa aðrar ástæður ef til vill legið til þess, að útrýmingin tókst ekki betur en raun varð á. Það stóð svo á, að ekki var hægt að koma því við að baða alstaðar á landinu sama veturinn, og þó að verðir væru hafðir um sumarið og yfir höfuð varúðar gætt, þykist jeg hafa ástæðu til að ætla, að sú varsla hafi eigi verið fullnægjandi. — Í mínu kjördæmi var það svo, að eftir þessa böðun fjell kláðinn niður um mörg ár, en kom upp aftur síðar, og einkum í því fje, sem ástæða var til að ætla, að hefði gengið saman við fje Skagfirðinga, — en böðunin fór fram vetri seinna vestan Hjeraðsvatna heldur en í Eyjafirði og austurhluta Skagafjarðar. — Þetta hygg jeg að hafi verið ein af ástæðunum til þess, að ekki tókst að útrýma kláðanum á árunum 1903–5.

Jeg hafði ætlað mjer að koma fram með litla brtt. við frv., en vil nú í þess stað beina þeim tilmælum mínum til hv. landbn., að hún athugi til 3. umr., hvort ekki væri rjett að breyta 1. gr. frv. lítilsháttar. Í 1. gr. stendur, að böðunin skuli framkvæmd í ársbyrjun 1929, en mjer finst, að heppilegra væri að breyta þessu. Það væri víða miklu hentugra, að böðuninni gæti verið verið lokið fyrir jól, að minsta kosti þar sem fje er tekið snemma í hús. Mjer þykir rjettara, að um þetta atriði kæmi fram brtt. frá hv. nefnd, en að jeg fari að flytja hana.

Í 3. gr. er atriði, sem jeg vildi gjarnan fá upplýsingar frá hv. nefnd um, hvað meint er með. Það er ákvæðið um það, að hreppsnefndir skuli annast flutning baðlyfjanna frá höfnum, En í 2. málsgrein er svo ákveðið, að fjáreigendur skuli greiða 1/3 andvirðis baðlyfja og flutningskostnaðar, eftir fjártölu, en ríkissjóður allan annan kostnað, eða 2/3 hluta hans.

Er það þá meiningin, að ríkissjóður eigi að endurgreiða hreppunum 2/3 af flutningskostnaðinum frá höfnum og heim í hreppana? Það er vitanlega lítið atriði þetta, en jeg vildi þó gjarnan fá skýringu á því.