21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (2207)

83. mál, útrýming fjárkláða

Jón Kjartansson:

Mjer þykir eðlilegt, að mikið sje um þetta mál rætt, því að hjer er um stórmál að ræða. Jeg vil fyrst og fremst undirstrika það, sem hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) sagði, að hjer vantar skýrslur um ástandið eins og það nú er og hefir verið á undanförnum árum. Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að kláðinn væri nú mjög að færast í aukana, en að hinsvegar væru nokkur hjeruð enn laus við hann. Mjer finst vanta, hvaða hjeruð þetta eru, því það getur haft mikla þýðingu að fá vitneskju um þetta atriði.

Í mjög ítarlegu nál. frá 1903, frá nefnd þeirri, er hafði þetta mál til meðferðar, eru talin þessi hjeruð, sem þá voru talin laus við kláða: Rangárvallasýsla, Vestmannaeyjar og VesturSkaftafellssýsla, og telur nefndin, að svæðið frá Jökulsá á Breiðamerkursandi að Þjórsá sje alveg hreint. Mjer er ekki kunnugt um, að kláða hafi nokkurntíma orðið vart í Vestur-Skaftafellssýslu síðan, eða síðan böðunin 1903–4 fór fram. Jeg verð að segja það, að mjer finst það nokkuð hart að skylda nú þessi hjeruð til þess að taka þátt í útrýmingarböðun, ef það er víst, að þau hafi ekki haft kláða fyrir böðunina 1903 og heldur ekki síðan. Það er að vísu satt, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði, að samgöngur hafa batnað, t. d. er nú komin brú á Jökulsá á Sólheimasandi. Þó hygg jeg, að þetta skifti litlu máli, vegna þess að sjaldan er þar fje á ferli á söndunum. En mestu máli skiftir þó hitt, að enginn kláði hefir verið undir Eyjafjöllum, hvorki fyrir böðunina 1903–4 nje heldur síðar. Eða mjer er ókunnugt um, að svo hafi verið. Hvað snertir hitt, að fje gangi saman að fjallabaki, þá mun það vera mjög lítið. Jeg skal ekki fortaka, að það eigi sjer stað, en það mun vera sjaldgæft. Yfir höfuð finst mjer engin ástæða til að skylda þessi hjeruð til þess að taka þátt í útrýmingarböðun, þessi hjeruð, sem hvorki hafa haft kláðann fyrir eða eftir böðunina 1903. Jeg vildi helst leggja það til, að þetta mál yrði rannsakað betur, og gefnar skýrslur um það, hvaða hjeruð eru laus við kláðann og hvar hann er mestur o. s. frv.

Jeg vænti þess, að málið verði rannsakað, og mun jeg greiða frv. atkvæði mitt nú, í því trausti, að hægt verði að leggja fram skýrslur um málið við 3. umr., en ef svo verður ekki, mun jeg ekki sjá mjer fært að greiða atkv. með því lengra.