21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (2208)

83. mál, útrýming fjárkláða

Sveinn Ólafsson:

Jeg get tekið undir það, að mjer finst þetta mál hafa komið nokkuð hastarlega inn í þingið og ekki fengið þann undirbúning, sem nauðsynlegur hefði verið. Í rauninni hefir hv. þm. Str. (TrÞ) tekið af mjer ómak að mótmæla þeim ummælum dýralæknis, um böðunina 1903–5, sem mjer fanst ástæða til að átelja. Þarf jeg ekki að bæta neinu við það, sem hann sagði um þetta efni. En hitt vildi jeg taka fram, að jeg hefi hvergi orðið var við þá villukenningu, nema í áliti dýralæknis, að fólk trúi því alment, að hægt sje að útrýma fjárkláða með einni böðun. Hinsvegar hefi jeg heyrt menn segja, sem við baðanir hafa fengist, að með einu þrifabaði megi halda kláðanum í skefjum, svo að hann komi ekki að sök, en engan mann hefi jeg heyrt halda því fram, að ein böðun útrýmdi kláða, og veit ekki til, að nokkur maður standi í þeirri meiningu.

Jeg verð að segja, að jeg hefi enga tröllatrú á því, að það takist að útrýma fjárkláðanum, þótt þessi leið verði farin, eða að skorið verði fyrir rætur hans. Jeg hygg, að fjárkláðinn sje lítill eða enginn í mörgum hjeruðum landsins. Mjer er ekki kunnugt, að hann þekkist í mínu hjeraði sem stendur. Sjálfur hefi jeg aldrei sjeð kláða, og hefi þó gert mjer far um að kynna mjer ástand kinda, sem grunur hefir leikið á, að hefðu kláða. Það hefir oft komið upp kvittur um kláða, þar sem hann hefir þó eigi fundist, sýnishorn hafa verið send og dýralæknir skoðað, en oftast hefir niðurstaðan orðið sú, að um kláða væri ekki að ræða. Þó mun kláði hafa verið sannprófaður tvisvar eða þrisvar í örfáum kindum í Suður-Múlasýslu, og hefir þá slóð hans verið rakin norður fyrir Lagarfljót. En hins hefi jeg oftar heyrt getið, að hann hefir gert vart við sig nokkrum sinnum norðan Jökulsár og Lagarfljóts. Jeg hefi það fyrir satt, og hefir verið sagt það af fróðum mönnum, að Skotar, sem eru ein af mestu fjárræktarþjóðum álfunnar, hafi aldrei lagt út í það, að útrýma fjárkláðanum, heldur haldi þeir honum í skefjum með þrifaböðunum, svo að hans verði naumast vart.

Nú er í 3. gr. þessa frv. svo ákveðið, að allur kostnaður við útrýmingarböðunina, að undanskildum 1/3 af andvirði baðlyfja og flutningskostnaði, skuli greiddur úr ríkissjóði. Eftir þessu ætti þá ríkissjóður að kosta fóðrun fjárins meðan á böðun stendur. Ekki verður hjá því komist að hafa fjeð mikið í húsi milli 1. og 3. böðunar, en í útigöngusveitum kostar það ærna peninga. Eftir þessari frvgr. á allur slíkur kostnaður að greiðast úr ríkissjóði, og er þó fremur ólíklegt, að hv. landbn. hafi ætlast til þess, en það liggur ótvírætt í orðum greinarinnar. Það hefir verið fullyrt af ýmsum í dag, að fjárkláðinn hafi útbreiðst hin síðari ár. Mjer er ekki kunnugt um slíka útbreiðslu, en hitt veit jeg, að sumstaðar þar, sem grunur var um nokkurn slæðing kláða áður, verður hans ekki vart nú. Þetta er árangur þrifabaðananna, þar sem þær eru vel ræktar.

Mjer er ókunnugt, hvar þau hjeruð eru, sem kláðinn hefir náð útbreiðslu um, en ef um slíkt er að ræða, þá er mjer nær að halda, að útbreiðslan stafi af vanrækslu þrifabaðana, ljelegu eftirliti eða ónýtum baðlyfjum. Fleira hefi jeg ekki um þetta að segja í bili. Jeg get tekið í sama streng og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), að það er rjett að sjá hvað setur til 3. umr., og mun jeg ráða við mig þá, hvort jeg fylgi frv. eða ekki.