26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (2225)

83. mál, útrýming fjárkláða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg ætla að segja út af brtt., sem fram eru komnar og hv. flm. nú hafa talað fyrir. Það er mitt álit, að áramótin (ársbyrjun 1927 (Brtt. 420, 1.) sjeu ekki heppilegur tími til almennrar kláðaskoðunar, því þá er ekki eins auðvelt að finna hann. En á vorin er það, sem kláðinn einna helst kemur upp. Sá tími ársins mundi því vera heppilegastur til að láta kláðaskoðunina fara fram á. Mjer finst, að orðalag brtt. á þskj. 421 vera mjög óákveðið, t. d. þetta: „leiði skoðun í ljós, að mikil brögð sjeu að“ o. s. frv. þetta hygg jeg að verði allmikið álitamál, hvað telja skuli „mikil brögð að“ og hvað ekki, og munu verða um það skiftar skoðanir. Ennfremur er þess að gæta, að allerfitt er að finna þenna sjúkdóm, því hann leynir sjer all-lengi, og ber ekki verulega á honum fyr en hann er kominn á allhátt stig. Skoðunin mun því verða óábyggileg í flestum tilfellum.

Þá er 2. brtt. á þskj. 420, um að undanskilja einhverja landshluta eða hjeruð böðunarskyldunni. Fyrst er þetta ákaflega óákveðið, því það er ekki hægt að sjá af brtt., við hvað stór svæði eða landshluta er átt (MJ: Einn bæ!) Jú, það mætti t. d. hártoga þetta þannig. Háttv. frsm. (ÞorlJ) nefndi svæðið frá Jökulsá á Fjöllum að Skeiðarársandi, og sýnir það, að hann hefir allstóra landshluta í huga, aðrir hafa nefnt aðeins eina sýslu eða jafnvel minni hjeruð en það. Svo er orðatiltækið: „hlutaðeigandi dýralæknir“. Hvaða dýralæknir er það? Er ekki sá dýralæknir hlutaðeigandi, sem um málið er spurður, t. d. af stjórninni? Það gæti hugsast, að sama atriðið yrði borið undir þá alla. Þeir eru fjórir alls á landinu, og ekki er ómögulegt, að þeir gætu orðið ósammála, þeir gætu komið með tillögur eða fyrirskipanir hver á móti öðrum. Auk þess gerir brtt. ráð fyrir miklu meiri tilkostnaði ríkissjóðs en upphaflega var til ætlast í frv. En aðalatriðið í þessu öllu er það, að jeg trúi ekki á það, að skoðun þessi geti leitt í ljós, hve mikill kláði er á landinu, og allra síst á þessum tíma árs.

Aftur á móti er það vitað, að kláðinn er næstum orðinn að hjeraðsplágu á sumum stöðum, t. d. í Dalasýslu, og næst verstur mun hann vera í Húnavatnssýslum og í Skagafjarðarsýslu, Árnessýslu o. fl. Eins er hitt vitað, að mjög lítið mun vera um hann í Skaftafellssýslum. Jeg veit ekki um, hvort háttv. nefnd hefir aflað sjer þeirra upplýsinga, sem er að fá í sjórnarráðinu af þeim kláðaskýrslum, sem þar eru til. En að vísu er það, að þangað koma ekki skýrslur nema úr þeim hjeruðum aðallega, þar sem svo mikil brögð eru orðin að kláðanum, að hjeraðsstjórnirnar óska eftir ókeypis baðlyfjum. Jeg fæ ekki sjeð, að brtt. þessar bæti um frv. á neinn hátt. Ef þessi háttv. deild telur ekki nægilega upplýst ennþá um útbreiðslu kláðans, mætti t. d. safna skýrslum um hann til næsta þings og fresta afgreiðslu frv. þangað til, því samkv. þeim tíma, sem ákveðinn er í frv. til böðunarinnar, er þetta óhætt, þó annars sje ilt að fresta þessu máli mjög lengi, því kláðinn getur útbreiðst allsnögglega og sýkt ýms ný hjeruð, sem nú eru talin heilbrigð. Þeir, sem nú telja sín hjeruð laus við þenna sjúkdóm, munu fljótt kveða við annan tón, þegar kláðinn er kominn þangað til þeirra, því hann er hinn mesti vágestur.

Þá kem jeg að brtt. hv. þm. Str (TrÞ), jeg skil hana svo, að ef Búnaðarfjelag Íslands, eða jafnvel aðeins eitthvert eitt búnaðarsambandið telur ekki fært að láta almenna böðun á sauðfje fara fram vegna ljelegs heyafla, verður ekki hægt að láta böðunina fara fram.

Það er því viðbúið, að aðeins eitt einasta nei, einhversstaðar að af landinu, geti hindrað allsherjar böðun árum saman, og þetta tel jeg mjög varhugavert ákvæði. Jeg skal gjarnan viðurkenna það, að böðunin getur orðið allþungbær fyrir þá, sem hafa heyjað illa, en ef þessi ákvæði komast að, er æði hætt við, að búnaðarsamböndin verði hneigð til að mótmæla böðun, ef heyafli er í rýrara lagi. Reikning hv. þm. Str. (TrÞ) um fóðureyðslu vegna útrýmingar baðanna tel jeg vera alt of háan, og málar hann þar eitthvað ljótt á vegginn, sem ekki er ástæða til að gera í þessu sambandi. Áætlun hans er altof há, því að það þarf oft að gefa inni á stórum svæðum landsins hvort sem er. (TrÞ: Jeg dró helming frá. Samt eru eftir 90 þús. töðuhestar). Þá segi jeg, að þetta nái ekki nokkurri átt. Það er það eina, sem hægt er um það að segja.

En það, sem jeg hefi sjerstaklega á móti brtt. hv. þm., er þetta vald, sem einu búnaðarsambandi er gefið yfir böðunum. Annars verð jeg að segja, að mjer fanst talsvert annað hljóð í hv. þm. Str. (TrÞ) nú en við næstu umr. á undan. Það gleður mig; því að jeg er viss um, að verði ekki innan skamms tekið í taumana, þá breiðist þessi sjúkdómur óðfluga út. Það hefir reynsla síðustu ára sýnt. Jeg get vorkent þeim mönnum, sem alls ekki hafa fengið fjárkláðann í fje sitt og ekki þekkja hann, þótt þeir líti á hann dálítið öðrum augum en þeir, sem þekkja hann. En jeg vildi biðja þá sömu að athuga, að það getur komið að því fyr en varir, að þeir fái þann gest inn á sin heimili, og þá munu þeir ekki verða fegnir.