26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (2230)

83. mál, útrýming fjárkláða

Hákon Kristófersson:

Því er ekki að neita, að þetta mál er stórmál og krefst nákvæmrar rannsóknar. Jeg hefi ekki getað orðið samferða hv. meðnefndarmönnum mínum. Við viljum allir fara mismunandi leiðir að sama takmarki. Jeg tel ekki rjett að stofna til allsherjar útrýmingaböðunar og vil taka undir með hv. þm, A-Sk. (ÞorlJ) um, að það hafi engan smáræðiskostnað í för með sjer. Jeg skal ekki fullyrða neitt um nákvæmni útreiknings skólastjórans á Hvanneyri, en jeg er viss um, að sje fóðureyðsla og annar kostnaður metinn til verðs, nemur kostnaðurinn í heild stórfje, því að eftir fjárbaðanir er fjeð mjög þollaust til útigangs og þarf því miklu meira hey en annars, auk þess sem það þarf að ýmsu öðru leyti nákvæmari meðferð.

Jeg vil skjóta því til hæstv. atvrh. (MG), sem hefir mikinn hug á útrýmingaböðunum, að þetta hefir hann alveg í hendi sinni. Hann getur hvenær sem er fyrirskipað allsherjar útrýmingabaðanir. En jeg lái ekki þeim mönnum, sem ekki vilja taka á sig að nauðsynjalausu slíkar framkvæmdir, sem hafa mikinn kostnað í för með sjer. Jeg er líka sannfærður um, að kláðinn er víðar en í þessum 5 sýslum, sem þegar hafa sagt til sín. Eins og hæstv. atvrh. (MG) tók fram, getur kláðinn flutst á milli sýslna um leið og bændur flytja búferlum. Þannig komst hann í Austur-Barðastrandarsýslu með fje úr Saurbæ í Dalasýslu. Enginn vissi um það fyr en um seinan. Það er ekki vantraust á bændum, þó að jeg segi, að þrifaböðum hafi verið ábótavant, og er það eitt meðal annars, sem hæstv. atvrh. (MG) hefir í hendi sinni að herða á, að þeim verði framfylgt.

Jeg býst við, að jeg geti fylgt þeim að málum, sem flytja brtt. á þskj. 420, og grundvalla jeg mína skoðun á því, að jeg álít ekki rjett að hefjast handa með algerðum útrýmingaböðum, fyr en einskis hefir verið látið ófreistað í að leita upplýsinga um það, hvort slík útrýmingaböð eru nauðsynleg. En mjer er spurn: Eru menn yfirleitt svo einhliða trúaðir á það, að þó að útrýmingaböð færu fram, megi sleppa öllu eftirliti? Jeg held, að þrátt fyrir það sje ekki síður þörf á árlegum þrifaböðum, með það fyrir augum að útrýma þessum vágesti fullkomlega.

Jeg get verið sammála hv. þm. Str. (TrÞ) um tillögu hans á þskj. 421. Það hlýtur að vera að mestu leyti í höndum atvinnumálaráðherra, þegar á að meta, hvernig möguleikar eru fyrir framkvæmd baðananna, heyja vegna.

Þá vil jeg beina fyrirspurn til hæstv. atvrh. (MG). það hefir komið upp fjárkláði í einhverjum hluta Austur-Barðastrandarsýslu. Hvað hefir verið gert? Hafa farið fram baðanir? Vitaskuld sýnast baðanir árangurslausar, ef það er satt, að einn ónefndur maður í Barðastrandarsýslu hafi látið þess getið, að baðlyfið sje meðal til að ala upp fjárkláða. Vonandi er þetta ekki rjett skýrt frá í símskeytinu, eða sá, sem þetta símaði, hefir ekkert vit á málinu.