26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (2231)

83. mál, útrýming fjárkláða

Jón Kjartansson:

Jeg tók það fram við 2. umr., að mjer fyndist mál þetta illa upplýst, bæði hvað snerti kostnaðarhlið þess og eins hitt, hversu mikil brögð væru að fjárkláðanum í landinu. Jeg óskaði eftir frekari upplýsingum til 3. umr. og greiddi atkv. í þeirri von, að sú ósk mín yrði uppfylt. En ekkert nýtt hefir komið fram í málinu síðan þá. Mjer skildist á hæstv. atvrh. (MG), að hann teldi það lítinn skaða, þó að málið biði til næsta þings. Jeg vil því gera það að tillögu minni, að því verði vísað til stjórnarinnar og að hún noti tímann á milli þinga til þess að rannsaka og undirbúa það. Vilji hv. deild ekki fallast á þetta, vænti jeg, að hún samþykki brtt. á þskj. 420, sem jeg er meðflutningsmaður að. Jeg skal ekki orðlengja um þær. brtt., þar sem hv. þm. A-Sk. (ÞorlJ) mælti rækilega fyrir þeim, enda get jeg ekki sjeð, að mótbárur, sem fram hafa komið gegn þeim, sjeu á rökum bygðar.

Hæstv. atvrh. (MG) vill lítið leggja upp úr almennri skoðun. Er þá hægt að leggja upp úr böðun alment? Er það ekki fyrir trassaskap ýmissa manna, að kláðinn breiðist út? Mjer finst hart, ef þau hjeruð, sem aldrei hafa orðið vör við kláða, eigi að gjalda hinna. Þau hjeruð, sem altaf hafa sjeð um rækileg þrifaböð og kláðaböð, ef nokkur grunur hefir verið um kláða, og yfirleitt gætt hinnar mestu varúðar, eiga vegna hinna að fara að leggja út í kostnaðarsamar framkvæmdir að nauðsynjalausu. Í Vestur-Skaftafellssýslu hefir ætíð verið gætt mjög mikillar varúðar í þessum efnum; t. d. með fóðrafje og annað aðkomufje. Þó er ekki vitanlegt, að nokkur kláði hafi verið undir Eyjafjöllum. Jeg hefi spurt háttv. 1. þm. Rang. (EP) um það, og hann veit ekki til þess.

Mjer finst, að . hæstv. atvrh. (MG) ætti vel að geta skilið, hvað átt er við í till., þegar stendur einhverjum landshluta. Hv. frsm. landbn. (ÁJ) nefndi nokkrar sýslur, sem hann segir, að kláða hafi aldrei orðið vart í, og vil jeg biðja hv. þdm, að taka eftir því, að þær sýslur eru einmitt þær sömu og ekki var kláði í 1903 eða áður. Finst mjer hart að skylda þær enn til útrýmingarbaðana. Annars held jeg ekki, að málið sje svo undirbúið, að það eigi að ganga fram á þessu þingi, og vil jeg því vísa því til stjórnarinnar.