11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (2246)

83. mál, útrýming fjárkláða

Eggert Pálsson:

Háttv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) furðaði sig mjög á því, að nefndin hefði verið sammála; jeg skil ekki, af hverju háttv. þm. er svo hissa á því, nema hann áliti og telji sjálfsagt; að allar nefndir klofni, af því að allsherjarnefnd hefir nýlega klofnað í einu einasta máli. Landbúnaðarnefnd fanst sjálfsagt, að máli þessu verði ekki ráðið til lykta án þess, að það verði borið undir sýslunefndirnar. Hún telur alveg óviðeigandi og rangt að ganga alveg fram hjá rjéttum aðiljum þessa máls. Málið hefir ekki ennþá verið lagt undir dóm þjóðarinnar, en það verður að fá vitneskju um það, hvort menn alment óska eftir allsherjar útrýmingarböðun eða ekki, það er kurteisisskylda gagnvart svo stórri stjett í landinu sem bændstjettin er, að hún fái að láta álit sitt í ljósi um þetta, áður en það verður lögboðið. Jeg fæ ekki skilið, að neitt tjón geti af því hlotist, þó að máli þessu verði frestað um eitt ár, aðeins til þess að fjölmennasta stjettin í landinu geti fengið tóm til að athuga það og láta uppi sinn dóm og tillögur um það.

Þó að svo færi, að útrýmingarböðuninni seinkaði um eitt ár vegna þessa, og færi t. d. ekki fram fyr en um ára- mótin 1929–30, í stað 1928–29, þá get jeg ekki sjeð, að það hafi mikla þýðingu; en jeg tel talsvert um vert, að þessari stjett, bændastjettinni, verði gefið tækifæri til þess að segja eitthvað um þetta mál, áður en lögunum verður skelt yfir. Hitt nær engri átt, og nefndin hefir aldrei sagt neitt í þá átt, að útrýmingarböðunin væri óþörf. Vitanlega er kláðinn ekki eins magnaður alstaðar, og þar sem hann er, má búast við, að menn hafi vakandi áhuga á því að losna við hann. En úr þeim hjeruðum, sem fjárkláði hefir ekki ennþá fundist í, þarf þess varla að vænta, að háværar raddir heyrist um útrýmingarbaðanir. Jeg býst við, að landstjórnin fái nógar óskoranir um að hefjast handa, úr þeim hjeruðum, sem kláðinn er í, svo að ekki þurfi að óttast, að málið sofni til fulls, þó að því sje frestað í þetta sinn. — Jeg hefi svo ekki fleira að segja, en vildi aðeins taka þetta fram, að jeg vildi ekki leggja til, að máli þessu yrði ráðið til lykta áður en bændastjettinni gæfist kostur á að gera sínar tillögur um það.