07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

1. mál, fjárlög 1927

Benedikt Sveinsson:

Þótt það sje mjer fjarri skapi að auka metnað eða ríg milli deildanna, þá get jeg ekki felt mig við slíka aðferð sem þessa, og allra síst um meðferð fjárlaga. Þótt svo sje kallað, að báðar deildir sjeu jafnrjettháar, þá er þar þó nokkur munur á. Kemur hann fram, þá er mál koma fyrir sameinað þing; þá kennir meir afls þeirrar deildarinnar, sem fjölmennari er. Hitt er og annað, að fjárlögin eru jafnan lögð fyrst fyrir þessa hv. deild, og er henni þar með fengið frumkvæði til breytinga á frumvörpum stjórnarinnar og höfuðstarfið um skipun fjárlaga landsins. Nú eru breytingar hv. Ed. að vísu ekki svo stórvægilegar, að bein ástæða sje til þess að fyllast þykkju, en þó finst mjer óþarfi af þessari hv. deild að fara ekki höndum um frv. Það mætti skiljast svo, sem hún treysti sjer ekki til þess að bæta um og teldi Ed. hafa borið meiri giftu til að ganga frá frv. en Nd. sjálfa. En slíkt get jeg ekki samþykt. Jeg býst nú ekki við, að það sje af þeirri ástæðu, að þessi háttur er upp tekinn, heldur muni ástæðan ef til vill vera sú, að með þessu eigi að flýta þinginu. Vil jeg því spyrja hæstv. stjórn, hvort þetta sje gert í því skyni að flýta þingi, og óska jeg þá jafnframt að fá að vita, hvenær stjórnin hygst að slíta þingi. Það er nauðsynlegt fyrir deildina að vita þetta, vegna ýmissa mála, sem óafgreidd eru enn.

Með því að hjer hefir nokkuð verið minst á afgreiðslu Ed. á ýmsum málum, þá vil jeg leyfa mjer að minnast á eitt mál, sem jeg var við riðinn, brúna á Brunná. Hjer í Nd. var samþykt með miklum meiri hluta að byggja hana. Til þess að svo mætti vera, var fjárveiting til brúargerða hækkuð um 10 þús. kr. En Ed. lækkaði þá fjárveitingu um sömu upphæð, og mætti því í fljótu bragði virðast svo, sem hún hefði sneitt niður till, mína um smíð Brunnárbrúarinnar. En svo er ekki. Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, skírskota til nál. fjvn. Ed. Þar segir svo:

„Nefndin er þeirrar skoðunar, að þrátt fyrir þessa lækkun muni, hæði vegna lækkandi verðs á sementi og væntanlegrar kaupgjaldslækkunar, verða hægt að hyggja allar þær brýr, sem hv. Ed. hefir miðað fjárveitingu sína við. — En bregðist það, verður afleiðingin sú, að bygging þeirra brúa, sem að áliti vegamálastjórnar þolir helst bið, verður að dragast árinu lengur.“

Hjer er talið víst, að fje endist til þess að byggja allar brýrnar, og því er sami vilji í Ed. um þetta atriði sem neðri deildar. Alt Alþingi vill fá Brunnárbrúna 1927. Ennfremur er og sleginn sá varnagli, ef einhver brú þurfi að sitja á hakanum, þá skuli vegamálastjóri ráða fram úr því. Við það get jeg vel unað, því að ekki er jeg hræddur um, að Brunnárbrúin verði þá á hakanum, því að hann hefir mælt með þessari brú og gefið mjer hana í jólagjöf, sem frægt er orðið.