12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í C-deild Alþingistíðinda. (2268)

98. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Aðeins örfáum orðum verð jeg að víkja til hv. frsm. meiri hl. (JAJ) . Honum fanst ekki geta átt við, þegar búið er að afgreiða fjárlög, að koma fram með dagskrá eins og þá, sem minni hl. hefir borið fram; af því að stjórnin, skildist mjer, hefði þá ekki ráð á neinu fje til að framkvæma skipsbyggingu fyrir. Jeg vil minna hv. frsm. á það, að í lögunum frá 1913, sem hjer er skírskotað til, er gert ráð fyrir, að þetta komist í framkvæmd með lántöku, og þar er heimild fyrir stjórnina til að taka lán, alt að 450 þús. kr., ef með þarf. Þess vegna er frá þeirri hlið skoðað ekkert í vegi.

Út af því, að hv. þm. endurtók fleirum sinnum, að hjer væri lagt til að hefja verkið á yfirstandandi ári, þá verð jeg að minna hann á það, sem allir geta reyndar sjeð á dagskr., að þar er berlega sagt „á þessu eða næsta ári“, og auk þess með þeim fyrirvara, að stjórnin sjái sjer fært að ráðast í fyrirtækið. Dagskráin er nefnilega svo varlega orðuð, að engin stjórn getur haft á móti henni í þessu formi nema þá af skorti á velvild. Dagskráin er aðeins tilvísun til þeirra laga, sem eru löngu í gildi komin og eru enn í gildi.

Ein fullyrðing af hendi hv. frsm. meiri hl. (JAJ) fanst mjer dálítið ljettúðug og loðin, sú, að Eimskipafjelagið gæti tekið strandferðir með minni tilkostnaði en það opinbera. Hvar er sönnunin? Jeg held hún sje engin. Það er alt annað mál, að fjelagið getur betur staðið sig við að halda uppi þeim strandferðum, sem standa í sambandi við millilandaferðirnar, en ríkið að kosta strandferðir. En það eru engar venjulegar strandferðir eða póstferðir, sem Eimskip annast, þótt millilandaskip affermi á ýmsum höfnum eða taki farm.

Þá vildi hv. frsm. meiri hl. (JAJ), að því er mjer virtist, bíða með umbætur strandferða þangað til snjóbílar væru komnir til sögunnar og farnir að kafa fannir og flytja fólk milli landshluta. Hugvitssemin er þarna einstök! Ef hann vildi eitthvað í sölurnar leggja til að flýta fyrir því, að slík samgöngutæki fengjust og yrðu bráðlega í notkun, þá væri dálítið mark takandi á þessu hjali.

En mjer virðist þetta einungis út í hött sagt hjá honum, og sennilega með það fyrir augum, að draga framkvæmd laganna frá 1913 á langinn. Þessi tilraun sem gera á hjer með snjóbíl eða reimabíl samkv. samþ. till., er aðeins til þess að vita, hvort möguleikar nokkrir eru á samgöngubótum með þessu tæki. Og þó að einn snjóbíll fengist, færi hann ekki milli allra hjeraða landsins eða gæti á nokkurn veg komið í stað strandferða.