12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (2269)

98. mál, strandferðaskip

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er reyndar orðið til lítils að halda ræður í þessari hv. deild, ef þær eiga að vera handa hv. þm., því það er nú komið svo, að menn hemjast alls ekki í þessum sal. En jeg vil þó láta í ljós þá skoðun, að stjórnin muni sjá sjer fært á þessu eða næsta ári að koma á fullri framkvæmd laganna frá 1913 um strandferðir.

Jeg skal þá víkja fáeinum orðum að þessum lögum. þar segir í 1. gr., að stjórninni veitist heimild til að kaupa hluti í Eimskipafjelagi Íslands fyrir alt að 400 þús. kr., gegn því, að fjelagið taki að sjer að halda uppi strandferðum umhverfis landið með tveimur eða fleiri strandferðaskipum. Svo segir í 2. gr., að ef ekki náist samningar við Eimskipafjelagið um það, þá sje stjórninni heimilt að láta byggja tvö strandferðaskip. Í 4. gr. segir, að skipin skuli hefja strandferðir ekki síðar en í apríl 1916. Nú hefi jeg í vasanum samning milli Eimskipafjelags Íslands og stjórnarinnar um það, að það taki að sjer þessar strandferðir með tveimur strandferðaskipum, gegn því, að ríkissjóður legði fram 400 þús. kr. Var hann gerður í ráðherratíð Hannesar Hafsteins. En áður en kæmi til að fullnægja þessum samningi, skellur stríðið á. Þessvegna fór það svo, að það voru aldrei borgaðar inn nema 100 þús. kr., ekki 400 þús., eins og háttv. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, það vita allir, að meðan á stríðinu stóð margfaldaðist verð skipa, þannig að ekki voru nokkur tiltök að fá tvö strandferðaskip fyrir 400 þús. kr. Og þó að þessi samningur hafi verið gerður, þá sá stjórnin ekki fært að halda honum upp á Eimskipafjelagið, því að það hefði verið sama sem að eyðileggja það. Þar af leiddi, að nokkru seinna — um stríðslokin — var Eimskipafjelagið leyst frá þessum samningi.

Nú lít jeg svo á, að þar sem 10 ár eru nú liðin síðan þessi lög áttu að vera komin í fulla framkvæmd í síðasta lagi, og þar sem heimildin í 1. gr. um samning við Eimskipafjelag Íslands hefir þegar verið notuð, þá sje ekki unt að nota þessi lög frá 1913 lengur. Og jeg verð að segja, að þótt þessi dagskrá verði samþykt, þá mun jeg ekki sjá fært að kaupa strandferðaskip eftir heimild í lögunum frá 1913. Jeg álít ekki vera neina stoð í þeim. Þau eru tímabundin og gilda aðeins að því er snertir skipakaup þangað til í apríl 1916. Þá segja þau, að skipin skuli vera komin í strandferðir. (SvÓ: Mega þau ekki koma síðar?). Nei, ekki eftir lögunum.

Þessi lög hafa verið notuð eftir sínum upprunalega tilgangi, samkvæmt 1. gr., en samningurinn var upphafinn af því, að ófært þótti að krefja fjelagið að standa við hann. Jeg skal ekki fullyrða, hvort stjórnin hefir ekki sjeð sjer fært að uppfylla kröfur Eimskipafjelagsins, jeg var ekki viðriðinn slík mál þá.

Annars er þessi dagskrá þannig orðuð, að lagt er í stjórnarinnar vald, hvort framkvæmdir verði á þessu eða næsta ári. Út af því vildi jeg segja það, að jeg mun alls ekki sjá mjer fært að leggja út í þetta á yfirstandandi ári, og skal færa nokkur rök fyrir því.

Við þurfum vissulega nú á næstunni að athuga viðskiftareikning okkar við útlönd, því að á honum byggist okkar peningagengi að mjög miklu leyti. Nú hefir þessi hv. deild samþ. að skora á stjórnina að gera það sem unt er til þess að halda genginu föstu til næsta þings. (TrÞ: Ekki að gera það sem unt væri!) Eitthvað var það í þá átt. (TrÞ: Kappkosta!). Það fylgdi með að sjerstaklega ætti að leggja kapp á, að gengið lækkaði ekki. En ef við nú á þessu ári, sem lítur út fyrir að verði vont útflutningsár, förum að kaupa frá útlöndum skip og annað, sem við verðum að borga með ársframleiðslunni, þá er jeg hræddur um, að fari að koma halli á okkar ársviðskifti við útlönd. Þessvegna væri það mjög svo ógætilegt af Alþingi, ef ætti að fara að skipa stjórninni að láta byggja svo dýrt skip á þessu ári, eftir að hafa lagt fyrir hana að sjá um, að gengið fjelli ekki. Einnig verðum við að gá að því, að það eru miklar opinberar framkvæmdir á þessu ári. Við erum að byggja Landsspítala, við erum að byggja Klepp, við erum að byggja heilsuhæli Norðurlands. Svo er fjöldi einstakra manna að byggja sjer hús. Til alls þessa þarf mikið af erlendu efni. Við erum að leggja talsvert af símalínum hingað og þangað, og til þess þarf einnig mikið af erlendu efni. Alt þetta verðum við að borga annaðhvort með útfluttum vörum á árinu eða með því að stofna til skulda erlendis. Nú finst mjer það muni vafasamt, að Alþingi vilji fara inn á þá braut að safna miklum skuldum erlendis. Býst við, að það sje vilji meiri hl. þingsins að hafa nokkurn veginn jöfnuð á viðskiftunum við útlönd. En það er ómögulegt að búast við slíkum jöfnuði, ef farið er að leggja út í slíkt, — að kaupa skip, sem kostar að minsta kosti hálfa miljón króna. Við skulum líka athuga, að á þessu yfirstandandi ári erum við að kaupa mjög stórt og dýrt skip, kæliskipið, og að minsta kosti þarf að borga hálfa miljón króna á þessu ári upp í það. (JAJ: Strandgæsluskipið líka). Já, það er líka rjett. það er 500 þús. kr., og kemur að mestu leyti á þetta ár.

Ef maður athugar möguleikana fyrir jöfnuði á reikningi þessa árs við útlönd, þá verð jeg að segja, að það má skipast vel, eftir því sem nú er útlit fyrir, ef ársviðskiftin við útlönd sýna ekki halla, þó að við leggjum ekki út í annað eins fyrirtæki. Jeg skal þess vegna strax lýsa því yfir alveg afdráttarlaust, að þótt dagskrá þessi verði samþykt, þá verður ekkert á yfirstandandi ári gert til þess að byggja þetta skip. En með því er ekki sagt, að ekki verði að einhverju leyti lifað eftir dagskránni. Hún nær líka til næsta árs. En þá vil jeg benda á, að næsta þing kemur saman snemma á árinu, svo að hægt er að taka málið upp á ný. Getur verið, að viðskiftamál okkar skipist þannig, að þá yrði hægt að leggja út í þessi skipakaup. En ekki er hægt að fullyrða neitt um það nú.

Jeg minnist þess, að á öndverðu þingi lýsti samgmn. yfir því, að mig minnir í einu hljóði, að hún vildi ekki leggja til, að keypt yrði strandferðaskip á þessu ári. Jeg veit ekki, hvað breytst hefir okkur í hag síðan — get ekki komið auga á neitt, Jeg læt mjer því í ljettu rúmi liggja, hvað samþ. verður í þessu máli, því að stjórnin mun ekkert gera í því fyr en á næsta þingi. En ef eitthvað sæist lýsa fram undan, þá mætti leita sjer vitneskju um, hvað slíkt skip muni kosta. Nú er engin vissa um það — öðru nær.

Jeg hefi átt tal um þetta við formann Eimskipafjelags Íslands, og hann leit svo á, að það væri of mikil aukning á skipastólnum að kaupa nú tvö ný skip, og hann undirstrikaði það, að með kæliskipinu væri einmitt mikið bætt úr strandferðunum, þessu hafði jeg áður haldið fram hjer í þinginu, og það gladdi mig að heyra það, að formaður Eimskipafjelags Íslands skyldi vera mjer þannig alveg samdóma.

Jeg lít svo á, að þótt dagskráin á þskj. 497 verði samþ., með stoð í lögunum frá 1913, þá sje það ekki nægileg heimild fyrir stjórnina til þess að láta smíða skip. Stjórnin mun því leita annara heimilda, ef hún skyldi sjá sjer fært að kaupa skip.