26.02.1926
Neðri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í C-deild Alþingistíðinda. (2275)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Jón Baldvinsson:

Hv. þm. Str. (TrÞ) má búast við því, að mál þetta verði tekið til alvarlegrar athugunar, og jafnframt, að allir verði ekki sammála um það.

Í frv. þessu felst fyrst og fremst stýfing krónunnar, og ennfremur, að gengi íslenskra peninga verði lækkað í hlutfalli við verðlagið innanlands, að minsta kosti virðist það fullkomlega meining flutningsmannsins.

Af greinargerð frv. er og fyllilega ljóst, að háttv. flm. telur hækkun krónunnar síðast liðið haust alt of mikla, og jafnvel, að hann telji, að sterlingspund hefði eigi átt að lækka niður úr 26 kr. Stefna sú, sem kemur fram í frv., er því þvert ofan í stefnu Alþingis undanfarið. Þegar lögin um gengisskráning og gjaldeyrisverslun voru sett 1924, voru allir á því að hækka krónuna og koma henni í hið gamla gullgengi. Og í fyrra fór þessi hv. þm. (TrÞ) þó ekki lengra en það, að vilja styðja að hægfara hækkun krónunnar, en nú fer hann feti lengra, þar sem hann vill stýfa hana fyrir neðan það skráða gengi, sem nú er á íslenskum peningum.

Að Alþingi 1925 vildi ekki fara þessa leið, sýnir, meðal annars, að þrátt fyrir það, þótt tveimur mönnum væri bætt í gengisnefndina, sem vitanlegt var um, að myndu standa á móti hækkuninni, sló það þann varnagla að láta menn þessa ekki hafa atkvæðisrjett um sjálfa skráninguna.

Það er nú vitanlegt, að menn þessir hafa neytt allra sinna áhrifa til þess að halda krónunni niðri, en þrátt fyrir alla mótstöðu þeirra hækkar hún samt. Sýnir þetta ljóslega, að ekki hefir verið hægt að halda henni niðri. Enda hlaut svo að verða, þar sem árið 1924 var meira aflaár en þekst hefir áður, og sömuleiðis fyrri hluti ársins 1925. Og samfara þessum mikla afla var svo ágæt sala á afurðunum. Jeg vil því spyrja, hvenær hafi verið ástæða til að hækka verðgildi peninganna, ef ekki á þessum tímum?

Háttv. flm. (TrÞ) talaði miklu hóflegar í framsögu sinni en búast mátti við, eftir frv. og greinargerð þess, en þó andaði gegnum ræðu hans sömu stefnunni og þar. Einmitt til að mótmæla þeirri stefnu finn jeg mig knúðan til þess að taka til máls, og sömuleiðis fyrir þá sök, að jeg eða flokkur minn hefir ekki tækifæri til þess að hafa áhrif á málið í nefnd þeirri, er því mun ætlað að fara í.

Háttv. flm. (TrÞ) vildi reyna að sýna fram á, að það væru ekki aðeins útgerðarmenn og bændur, sem töpuðu á gengishækkuninni, heldur gerðu verkamenn það líka, en þetta er misskilningur. Jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að stefna sú, sem vakað hefir fyrir Alþingi undanfarið, að þoka krónunni smátt og smátt upp í gullgengi, sje sú happadrýgsta, því að þá er víst, þegar krónan er komin upp í gullgildi, að annar endinn er fastur, því að aldrei kemur til, að hún fari upp fyrir það.

En eftir kenningu hv. flm. (TrÞ), þá ætlast hann alls ekki til, að krónan verði fest fyrst um sinn, heldur á hún að svífa í lausu lofti, getur bæði hækkað og lækkað. Auk þess, sem mestar líkur eru fyrir, að halda megi krónunni fastri, ef hún kemst í sitt gamla gullgengi, og það hlýtur altaf að vera áhugamál verkamanna, að peningamálum þjóðarinnar sje komið á sem traustastan grundvöll.

Þá talaði háttv. flm. (TrÞ) um, að mikið atvinnuleysi blasti við verkalýðnum og vildi kenna gengishækkun peninganna um það. Út af þessum ummælum vil jeg benda háttv. flm. (TrÞ) á, að slíkt ástand hefir oft komið fyrir áður, og það jafnvel á þeim tímum, sem krónan var að lækka. Sömuleiðis hafa slíkir atvinnuleysiskaflar líka komið, þegar atvinnurekendur hafa ekki sjeð sjer hag í að gera út, og því lagt skipum sínum, sem oft hafa verið töluvert langir kaflar. Er þetta atvinnuleysisástand því í engu sambandi við hækkun peninganna. Þessi ástæða háttv. flm. er því út í bláinn.

Út af því, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði um þetta mál, sem annars, voru mest almennar hugleiðingar, vil jeg víkja að einu atriði í starfi gengisnefndarinnar, sem mjer finst vítavert. Þetta atriði er ályktunin frá 19. maí f. á., þar sem samþykt var að halda gengi sterlingspunda á kr. 26.00 fram í miðjan september. En að gengisnefndin hefði gert slíka ályktun, komst upp í deilum þeim, sem urðu út af hækkun krónunnar seinni partinn í ágúst, þegar bankarnir fóru, út af miklu framboði á erlendum gjaldeyri, að kaupa hann fyrir lægra verð en nefndin hafði samþykt. Með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa ályktun þessa upp, eins og hún var bókuð hjá nefndinni: „Samþykt var að skrá gengi sterlingspunda á kr. 26,25. Er gert ráð fyrir, að þetta gengi standi fram í miðjan september, eða að sterlingspundið fari a. m. k. ekki á þessum tíma niður fyrir kr. 26,00.“

Jeg álít þessa ályktun, sem mjer hefir verið sagt, að hafi verið gerð eftir tilmælum Íslandsbanka, alveg óforsvaranlega. Að sjálfsögðu skal jeg taka það fram, að þeir fulltrúar atvinnuveganna, sem síðar tóku sæti í nefndinni, voru þá ekki komnir í hana. Var það því sá hluti hennar, sem atkvæðisrjett hefir um sjálfa skráninguna, sem gerði þessa ályktun. Jeg tel þessa ályktun mjög óheppilega, fyrir þá sök, að jeg held, að sakir hennar hafi sveifla gjaldeyrisins orðið sneggri og óþægilegri en hún hefði þurft að vera, ef fylgt hefði verið hægfara eðlilegri hækkun. Tilgangur ályktunarinnar var vitanlega sá, að gefa útgerðarmönnum, fiskkaupmönnum og bönkum tækifæri til að gera fjárhagslegar ráðstafanir á öruggum grundvelli. En það, sem mjer finst vítaverðast við þetta, er það, að ályktun þessi var hvergi auglýst, heldur sagði nefndin þetta mörgum, sem málið skifti, en með því skapaðist mikið misrjetti og mikill aðstöðumunur fyrir hina ýmsu aðilja, því að það liggur í augum uppi, hversu óendanlega sá útgerðarmaðurinn stendur betur að vígi, sem veit þetta fyrirfram, en hinn, sem ekkert veit um það.

Jeg hefi viljað taka þetta fram hjer, til þess að sýna fram á, hversu mjög þessi ráðstöfun hefir verið óheppileg og jafnframt órjett gagnvart almenningi.

Þá sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að kaupgjaldið myndi laga sig eftir ástæðunum. Það má vel vera, að svo verði, en jeg lít svo á, að það eigi að miðast við, hvað menn þurfi til sómasamlegs framfæris, en ekki annað. Og jafnframt megi ekki telja eftir, þó að verkalýðurinn hafi einu sinni örlítinn hag af gengishækkun, því að hann hefir miklu oftar liðið tap af gengislækkun, og þá hefir ekki verið um það fárast.

Hefi jeg svo þessi orð mín ekki öllu lengri. En jeg kvaddi mjer hljóðs til þess að mótmæla þeirri stefnu, að fara að fella íslenska peninga í verði nú, og jafnframt að stýfa krónuna, þar sem allar ástæður mæla á móti því, að farið sje inn á þá braut nú. Því að hvenær hafa bankarnir staðið betur út á við en nú? Og hvenær hefir ríkissjóður staðið betur en nú? Þó að jeg vilji vitanlega ekki fara að „komplimentera“ stjórnina fyrir það, því að tekjur ríkissjóðs hafa verið teknar með óhæfilegum sköttum. — Það er því langt síðan að ástandið hefir að þessu leyti verið eins gott og nú. Það er þeim mun undarlegra, að þessi stefna skuli einmitt nú vera að reka upp höfuðið.