26.02.1926
Neðri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (2277)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Jakob Möller:

Jeg ætla ekki að koma verulega inn á málið að þessu sinni, aðeins segja orfá orð vegna tilefnis, sem hv. þm. Str. (TrÞ) gaf mjer. Annars á jeg sæti í nefnd þeirri, sem fjalla mun um málið, og því nægur tími fyrir höndum. Það var út af því, sem hv. þm. (TrÞ) sagði um ráðstafanir til að hindra verðfall krónunnar; Jeg man, að hv. þm. hallaðist fyr á þá sveif, að krónan ætti að fá greiðan gang niður á við. Jeg hjelt, að hann væri nú búinn að þreifa á þeim sannleika, að „hæg er leið —“ o. s. frv., og leiðin upp á við jafnan nokkuð örðug. Eða er það meining hv. þm. Str. (TrÞ), að krónan eigi stöðugt að hrapa niður, en aldrei hækka. Hvar mundi það lenda? Eða á að slá genginu föstu til bráðabirgða, svo að láta það hrapa, og síðan að taka upp nýjan gjaldeyri? Hvernig mundi mögulegt að byggja þjóðfjelag á slíkum grundvelli? Nei, auðvitað er lífsspursmál fyrir alla að hafa fastan og ábyggilegan gjaldeyri. Sannleikurinn er sá, að hægt er að gera hvort sem vera skal, að vinna móti hækkun eða lækkun. Það vantaði ekki, að sagt væri, þegar krónan var að lækka, að hjer væri aðeins um eðlilegt viðskiftalögmál að ræða. En síðan hefir verið sannað, að hægt er að hindra verðfall. Danir gerðu ráðstafanir til að hindra verðfall, þegar þeim skildist, að frá því var ekkert undanfæri, og það reyndist mjög auðvelt. Krónan stórhækkaði. Hitt er líka tvímælalaust hægt, að koma í veg fyrir óholla hækkun gjaldeyrisins. Jeg læt ósagt, hvort ástæða hefir verið til þess hjer undanfarið ár, en það hefði verið hægt. Hæstv. fjrh. (JÞ) gerir meira úr þeim örðugleikum en ástæða er til, en líklega gerir hann það vegna þess, að hans sannfæring er, að best sje, að krónan komist upp í gullgildi.

Mjer skilst hv. flm. (TrÞ) ganga inn á, að krónan megi lækka, en það er alveg óforsvaranleg aðstaða. Nú liggur málið svo fyrir, að fyrst og fremst verður að hindra lækkun. Jeg sje ekki miklar líkur til, að ástæður verði til hækkunar. Aðstaðan er að ýmsu leyti óhagstæð, sjávarútvegurinn á við talsverða erfiðleika að stríða. Það er því auðsætt, að hjer muni verða fyrir höndum fyrst um sinn svipaðar ástæður og undanfarin ár, er gengið var að falla. Ráðstafanir þær, sem gerðar verða, hljóta að miðast við það að hindra verðfall, ef hugsa á til þess að festa gengið. En frv. fer í öfuga átt.