27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

1. mál, fjárlög 1927

Pjetur Þórðarson:

Jeg á hjer eina brtt. á þskj. 230, undir VI. lið, sem að sönnu er að efni til lík till. næst á undan; en þó stendur líklega töluvert öðruvísi á um hana en hinar till. með sömu fyrirsögn. Þarna stendur svo sjerstaklega á, að farið er fram á að fá styrk td sjerstakrar skýlisbyggingar í Borgarnesi. Reynslan hefir sýnt nú um margra ára skeið, að það hafa orðið mjög mikil vandkvæði á að koma þar fyrir sjúklingum, sem hafa verið á ferð til Reykjavíkur. En eins og allir vita, er fólksstraumur mikill um Borgarnes til Reykjavíkur, og margir sjúklingar eiga þarna leið um. Það hefir að sönnu oftast nær gengið sæmilega vel að koma sjúklingum fyrir hjá einstökum mönnum, hafi þeir ekki verið sjerstaklega mikið veikir eða með smitandi sjúkdóm. Aftur á móti hefir það komið fyrir að illmögulega hefir gengið að fá að hleypa inn sjúklingi, sjerstaklega hafi hann verið haldinn af einhverjum þeirra sjúkdóma, sem kallaðir eru farsóttir.

Afleiðingin af því, að ekkert sjúkraskýli er til í Borgarnesi hefir orðið sú, að nú fyrir nokkru reyndist það svo, að manni sem heldur gistihús, var þröngvað til að hýsa sjúkling. Af því leiddi svo aftur það, að gera varð sjerstaka ráðstöfun til þess, að sjúkdómurinn breiddist ekki út frá þessum stað, og þar með alveg að kippa atvinnunni af manninum um lengri tíma. Eftir nokkurra ára þóf fjekst það þó, að ríkissjóður bætti þessum manni að nokkru leyti skaðann. Það má segja, að það sje dálítið einkennileg tilviljun, að næsta till, á eftir minni till. á þskj. 230 er einmitt um það að greiða manni á Norðurlandi 4 þús. kr. í skaðabætur vegna skaða, sem hann beið af sóttvarnarráðstöfunum 1924. Er auðsjeð á till., að það hefir verið samskonar sóttvarnarráðstofun, sem þar var gerð, og vildi til í Borgarnesi fyrir nokkrum árum. Þó svo væri, að þarna væri lagt fram dálítið fje til þess að byggja sjúkraskýli þá myndi það í raun og veru ef til vill borga sig fljótt betur að koma upp ódýru skýli heldur en að eiga yfir höfði sjer að verða að borga skaðabætur eftir á. Það getur numið miklu meiri upphæð heldur en það, sem fer í að styrkja skýlið, auk þess sem þetta bakar einstökum mönnum miklu meira tjón en hægt er að gera sjer í hugarlund. Og vitanlega kemur ekki til nokkurra mála að ríkið bæti mönnum slíkt tjón nema að litlu leyti.

Hjer er þá um það að ræða að koma upp litlu sjúkraskýli, útbúnu með tveimur sjerstökum herbergjum, öðru til þess sjerstaklega að láta í þá sjúklinga, sem annaðhvort væru mjög veikir eða með smitandi sjúkdóma, en hinu fyrir almenna sjúklinga, sem ekki eru haldnir næmum sjúkdómum.

Nú vill svo til þarna uppfrá, að alkunnur góður maður, sem nýlega er látinn, ráðstafaði peningaupphæð til þess að efnt yrði til sjóðstofnunar til þess að koma upp slíku skýli, sem hjer er um að ræða í Borgarnesi. Maðurinn var Páll Jónsson bóndi í Einarsnesi. Síðan hann gaf þessa upphæð hefir í Borgarnesi sjerstaklega verið á ýmsan hátt skotið saman nokkru fje og fengið á annan hátt í þessu skyni. Vitanlega nemur það ekki mikilli upphæð enn. En því er haldið áfram, svo að gera má ráð fyrir, að það gæti orðið 1927 nægilegt fje til þess að byggja skýli fyrir, ef hæfilegur styrkur úr ríkissjóði fengist á móti. Þeir, sem sjerstaklega hafa þetta mál með höndum, eru fyrst og fremst læknirinn, Ingólfur Gíslason, og aðalgistihúshaldarinn, sem mest hefir liðið fyrir að vera þröngvað til að hýsa sjúklinga og komist oft í mikinn vanda út af því.

Jeg vænti þess, að hv. deildarmenn, a. m. k. þeir fáu, sem hjer eru viðstaddir, muni vilja líta nokkuð á þær sjerstöku ástaður fyrir þessari till. um fjárframlag til þessa sjúkraskýlis.

Þegar jeg samdi þessa litlu till., athugaði jeg í þingmálafundargerð úr Borgarnesi 30. jan. í vetur, hve mikla upphæð er farið fram á. Hún var sú sama og jeg hefi sett. Í fundargerðinni stendur: „gegn 2/3 kostnaðar annarsstaðar frá.“ En síðan hefi jeg fengið upplýsingar um, að þetta hafi ekki verið allskostar rjett eða eiginlega meiningin. Jeg býst við, að jeg þurfi að breyta þessu nokkuð áður til þess komi að greiða atkv. nm till., og þess vegna geri jeg ráð fyrir að taka till. aftur og bera hana fram við 3. umr. En jeg hefði kosið þá að fá meiri áheyrn en jeg get nú fengið, eftir því sem á stendur hjer í háttv. deild, af því svo sjerstaklega stendur á, að mín till. á ekki nema að nokkru leyti skylt við þær samnefndu till. hjer á sama þskj.

Við erum svo heppnir í þessu hjeraði, að læknirinn er svo efnum búinn, að hann á sinn eiginn bústað; en vitanlega er hann ekki stærri en það. að hann getur ekki lagt til nokkra sjúkrastofu sjálfur.

Jeg endurtek það, að þarna í Borgarnesi verða oft mjög mikil vandræði, þegar svo stendur á — sem oft kemur fyrir — að það þarf að flytja sjúklinga, hvort heldur til dvalar hjá lækninum, eða þó í miklu fleiri tilfellum að flytja sjúklinga þar um, sem fara eiga til Reykjavíkur.

Jeg vænti þess, að háttv. deildarmenn skoði þetta mál með sjerstöku tilliti til þess, hversu vel er af stað farið með að afla fjárins til þessa skýlis.

Skal jeg svo ekki tefja tímann með því að fara út í annað eða fleira í þessu máli, sem hjer liggur fyrir, við þessa umr.