07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Baldvinsson:

Háttv. framsögumenn og hæstv. ráðherrar hafa skýrt frá því, að eina ástæðan til þess, að fjvn. leggur þetta til, sje sú, að firra ríkissjóð útgjöldum.

Mjer finst það djúpt til orða tekið og næsta mikið í fang færst, er þeir 7 nefndarmenn ætla sjer að knjesetja hina 20 og lýsa nokkurskonar vantrausti á þeim, að þeir sjeu ekki meir en svo hæfir til þess að koma fram með tillögur um fjárveitingar.

Þá finst mjer það heldur mikil þröngsýni að berjast á móti öllum tillögum, af því þær auki útgjöld ríkissjóðsins; jeg álít, að fyrst og fremst beri á það að líta, að hverju gagni það megi verða landi og lýð.

Jeg verð að skoða till. hv. fjárveitinganefndar um að samþykkja fjárlögin óbreytt sem vantraust á háttvirta deild. Jeg trúi því ekki, að íhaldsmenn eða framsóknar, sem sæti eiga í nefndinni, hafi borið fram till., nema þeir hafi áður hvorir um sig vitað vilja síns flokks og fengið leyfi hans. (TrÞ: Hefir hv. þm. fengið leyfi flokksbræðra sinna til að halda slíkar ræður hjer?). Jeg veit ekki, hvort það er siður í herbúðum framsóknar, að þm. verði að leggja ræður sínar fyrir flokksmenn áður en þær eru fluttar, en til þess þekki jeg ekki í flokki þeim, er jeg er í. (MJ: Vita ekki allir flokksmenn fyrirfram, hvað hv. þm. ætlar að segja?). Ekki er það nú víst. Jeg skil ekki í því, að það mundi steypa ríkissjóði, þó að þessar 15–20 þús. kr. bættust við. Stendur þá ríkissjóður mjög tæpt, ef hann þolir ekki baggamun þann, er stafa mundi af eftirgjöf á lánum til hreppa í kjördæmum hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Nei, en hitt er satt, verði fjárlögin opnuð, eiga þm. á hættu, að þau þurfi að fara til einnar umr. í Ed. En mjer finst, að ef ekki væri önnur breyting gerð í Nd., hefði Ed. litla ástæðu til að breyta. En Nd. á að rjettu lagi að leggja síðustu hönd á fjárl. á hverju þingi.

Jeg skal þá svara. hæstv. fjrh. Hann taldi ekkert óþinglegt við það, þó að stjórn leitaði til þingflokka um ýms útgjöld, sem ekki eru í fjárlögum. Getur verið, er brýn nauðsyn ber til, en það er vitanlega á ábyrgð stjórnarinnar. Að gefnu tilefni skal jeg geta þess, að jeg mun ekki áfellast hæstv. stjórn, þótt hún greiddi styrk eftir 1. lið á þskj. 514, til Bjarna frá Vogi.

En ef þetta verður alment og nokkuð verulega kveður að því, er og verður það óþinglegt, ef stjórnin rær í einstaka þm. og þingflokka til að fá þá til að vera góða, ef hún veiti þessa eða hina fjárveiting utan fjárlaga. Þessi aðferð, að fara utan við fjárl. með samþykki einstakra nefnda eða flokka, að stjórn veiti fje, svo að segja utan við landslög og rjett, er ekki heppileg. Jeg hygg rjettara og þinglegra að hafa fjáraukalög á hverju þingi. Að vísu bera hv. þm. það fram, að með því móti mundi komast meira af útgjöldum inn í fjáraukalög en annars mundi verða eytt aukalega af stjórninni. En það er ómögulegt að vita, hvað stjórn kann að eyða, sjeu henni ekki takmörk sett. En hafi stjórn fasta heimild, þá er alt hreint, engar árásir nje eftirköst. Hinsvegar gefur þessi aðferð tilefni til deilu eftir á, þótt einstakar fjárveitingar geti verið fullkomlega rjettmætar.