06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í C-deild Alþingistíðinda. (2301)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Minni hl. fjhn. hefir skýrt afstöðu sína til frv. allgreinilega í nál, sínu, enda voru mörg aðalatriðin tekin hjer fram við 1. umr., og hirði jeg eigi að endurtaka það.

Um brtt. minni hl., er það að segja, að hann telur heppilegt að festa hið raunverulega gengi, er rannsókn leiðir í ljós, að rjett sje. Og þeir, sem treysta núverandi gengi, ættu ekki að óttast þá rannsókn.

Önnur brtt. okkar fer í þá átt, að fella niður ríkisábyrgðina. Hún er óþörf, ef gengið er fest, og hættuleg, ef það er laust.

Minni hl. fjhn, lítur einnig svo á, að það geti ekki verið nema um einn banka að ræða, er beri ábyrgð á gengisversluninni, og það sje seðlabankinn. Má hann óhætt gera ráð fyrir því, að Alþingi taki ábyrgð á þeim fyrirskipunum, sem það hefir gert. Þegar Alþingi hefir látið í ljós sinn vilja, þarf landsstofnun, eins og Landsbankinn, ekki að óttast, því að það hefir um leið tekið ábyrgð á ákvörðunum sínum. Með þessum breytingum hefir minni hl. fjhn. lagt til, að frv. verði samþ.

Minni hl. fjhn. telur ekki þurfa að fárast út af þeim verðbreytingum, sem orðið hafa af völdum ófriðarins mikla, þó þær verði varanlegar. Þær koma jafnt fram í kaupi og vöruverði. Það verður ekki sagt með sanni, að dýrtíð sje meiri í landinu nú en var fyrir ófriðinn, ef orðið „dýrtíð“ er notað í rjettri merkingu. En þetta hefir margfaldlega verið misskilið. Þótt verðgildi krónunnar sje nú lágt, þá jafnast það upp, ef kaupgreiðslur hafa hækkað að sama skapi. Dýrtíð er því aðeins, að ósamræmi sje milli kauphæðar, vöruverðs og verðgildis peninga.

Jeg þarf ekki að nefna nein söguleg dæmi um hið sama, sem ófriðurinn mikli hefir leitt af sjer, að gjaldeyrir falli í verði. Þegar hann hefir þannig lækkað, þá er það engin ógæfa, þótt verðgildi hans festist. Og það hefir reynst bjargráð, þar sem stöðvun hefir komist á, enda verður það mesta rjettlætið, eftir langvarandi verðlækkun hans. Því að þegar verðlækkun gjaldeyrisins hefir staðið svo lengi, að verðlag í landinu hefir lagað sig eftir því, þá er hlutfalli milli kaups og vöruverðs ekki raskað.

Út af öllu þessu og mörgum fleiri ástæðum leggur minni hl. fjhn. það til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem jeg hefi talað um.

Hv. meiri hl. fjvn. virðist aftur á móti ekki samstæður, nje hafa „stabiliserað“ skoðanir sínar, eða svo virtist mjer á ræðu hv. frsm. hans (JAJ).

Í frv. er ætlast til, að landsstjórn, bankastjórn og gengisnefnd starfi í sameiningu að því að koma festingu á verðgildi erlends gjaldeyris. Því er ekki rjett að nota orðið stýfing, eins og háttv. frsm. (JAJ) gerði. Enda kom það fram hjá honum, að þessari notkun á orðinu stýfing fylgir og annar misskilningur. Best er að halda sjer við það, að kalla það eitt stýfing, þegar myntlögunum verður breytt, og til þess kemur ekki fyr en festingarviðleitnin hefir sigrað.

Meiri hl. segir, að engin hlutlaus erlend þjóð hafi stýft gjaldeyri sinn, þetta tal um, hvort þjóðirnar hafi verið hlutlausar eða ekki, kemur ekki þessu máli við, að öðru leyti en því, að hve miklu leyti það hefir áhrif á verðlagið í löndunum. Vitanlegt er, að þjóð vor hefir ekki auðgast á stríðinu. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir sýnt fram á það í bók sinni „Lággengi“, að íslenska þjóðin sje ekki auðugri nú en hún var fyrir stríð. Er líklegt, eftir þeim rökum, sem hann færði fram, að þetta sje rjett hermt. En hitt er vitanlegt, að ófriðurinn hafði áhrif á verðlagið í landinu, jafnmikil og hjá mörgum ófriðarþjóðunum. Alt tal um hlutlausar þjóðir og ófriðarþjóðir á hjer ekki heima. Aðalástæðan fyrir festingu gjaldeyrisins eru hinir miklu örðugleikar á því að breyta verðlaginu í landinu sjálfu, framleiðslukostnaði útflutningsvarnanna. Þetta er aðalatriðið, en eigi, hvort þjóðirnar hafa verið hlutlausar eða ekki. Þessir örðugleikar eru jafnmiklir hjá oss og hjá ófriðarþjóðunum, ef okkar gjaldeyrir er jafnfallinn í verði og þeirra, að rjettu lagi.

Nú er það að vísu rjett hjá frsm. minni hl. (JAJ), að allir deildarmenn, já, allir landsmenn, mundu vera hækkunarmenn, ef þeir væru vissir um, að verkakaupið, skuldir atvinnuveganna o. fl. færðist niður sem svaraði gengishækkuninni. En þetta lögmál hv. meiri hl. hangir alt á þessu litla orði: ef, sem er aðalorðið í þessu spakmæli hv. frsm. Það má búa til ótal sannleikskorn með samtengingunni ef aftan í. Ef-ið táknar bara, að hjer sje ekki um sjálfan raunveruleikann að ræða. Af slíkum sannleika var líka mikið í ræðu hv. frsm. (JAJ). Meiri hl. nefndarinnar hyggur, að auðvelt sje að koma verðlaginu niður. Í nál. stendur: „þess er að vænta, að allir sjái nauðsyn þess, að kaupgjaldið fari lækkandi, samfara þverrandi dýrtíð.“ Og enn segir þar: „Svo framarlega sem atvinnurekendur og vinnusalar eru samtaka, og verkamenn sjá nauðsyn og sanngirni kauplækkunar í samræmi við hækkandi gengi og þverrandi dýrtíð, þá er hækkun í gullgildi vel framkvæmanleg, án tilfinnanlegrar röskunar á atvinnulífinu.“ Það er þetta ef, svo framarlega sem og þess er að vænta, sem álit meiri hl. byggist á. En reynslan hefir sýnt, að það gengur ekki eins og í sögu að koma verðlaginu niður. Langvarandi deilur og verkföll hafa hlotist af hækkuninni, jafnvel „5 aura stríð“ hefir verið háð hjer í bænum nýlega. Þó segir meiri hl., að þess sje að vænta“, að þetta geti gengið friðsamlega. Það væri rjettara fyrir þá að útvega sjer vottorð, t. d. frá háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) eða Alþýðusambandinu, um, að hann sje þessu sammála. Jeg býst við, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald), sem mun vera skoðunarbróðir meiri hl. í þessu hækkunarmáli, lýsi því yfir, að treysta megi þessu ef og þess er að vænta o. s. frv. En sannarlega hefir ekki í þeim kaupgjaldsdeilum síðustu mánaða verið sýnd sú sanngirni, sem hefði „mátt vænta“. En meiri hl. segir „ef“ og „þess er að vænta“ rjett eins og Jótinn sagði: „A benægter facta“.

Hv. frsm. meiri hl. (JAJ) skýrði frá því, að verðlagið á aðfluttum vörum væri nú komið í samræmi við gengið, en innlendu vörurnar væru eftir. Hann sagði, að innlenda verðlagið væri 306, en hið útlenda fyrir neðan 250. En slík skýrsla kippir fótunum undan því, að „vænta megi“ rólegrar gengishækkunar. Minni hl. beygir sig fyrir reynslunni og fylgir festingu, af því að engin von er til þess, að samstarf komist á, enda þótt það væri hið æskilegasta.

Háttv. frsm. meiri hl. (JAJ) sagði, að atvinnurekendur hefðu orðið hlunninda aðnjótandi við lækkun gengisins, en nú ættu þeir að tapa því aftur við hækkunina En jeg segi, að þeir sjeu þegar búnir að tapa því. Það er alt farið, og veit háttv. þm. það best sjálfur. Svona er það um alt land. Það, sem þeir græddu á „inflationinni“ er alt tapað, meira og minna, enda var sá gróði að miklu leyti skynvilla. Frsm. meiri hl. (JAJ) ætlar að taka það, sem eftir er! En hvar er það? Það er hjá innstæðueigendunum, og jeg skil þetta svo, að leggja eigi þá skatt á þá. Það er afleiðing af kröfu þeirra manna, er ekki vilja festa gildi innstæðunnar. Ef því á að taka þennan gróða aftur, þá er hann hjá innstæðueigendunum og hvergi annarsstaðar. Við viljum ekki fara svona langt, en óskum, að verðgildi innstæðunnar verði fest. Það er hin minsta sanngirni, sem innstæðueigendum verður sýnd, og þeir eiga heimtingu á henni. En þetta fje er „inflationsfje“, dregið saman í þeim seðlum, sem valdið hafa gengislækkuninni. Örlítill hluti af þessari innstæðu er síðan fyrir stríð. Til þess er varla hægt að taka tillit. Hjer verður að gera það eitt, sem flestum verður til góðs, mesta rjettlætið skapar og þjóðarhagurinn heimtar.

Háttv. frsm. meiri hl. (JAJ) gat þess, að hið háa verðlag í landinu stafaði af háu kaupi og framleiðslukostnaði. En mundi ekki þá hinn hái framleiðslukostnaður koma niður á vörum þeim, er út eru fluttar, og af því stafi svo aftur vandræðin, sem koma af því, að útflutta varan er framleiðendum of dýr og ekki samkepnisfær, nema hún sje seld með miklu tapi. Það er þessvegna hin mesta nauðsyn á því, að kaupmáttarjafngengi komist á. Það eitt gefur atvinnuvegunum fastan grundvöll.

Þá kom háttv. þm. með þá upplýsingu, að hagstofan treystist ekki til að reikna út kaupmáttarjafngengið. Jeg hefi ekki heyrt þetta fyr. Og þegar jeg færði þetta í tal við hagstofustjóra, fjekk jeg ekki það svar, að svo væri. Hún væri einmitt að reyna að kanna þetta til botns, Enda bar háttv. þm. þetta til baka með því að fara sjálfur að reikna þetta út, og hjelt hann því fram, að verðlagið á erlendri vöru væri sem næst í samræmi við núverandi gengi. Ef miðað er við innlendu vöruna, ætti gengið á sterlingspundi að vera 28 kr. En ef hann treystir sjer til að reikna þetta út, hve miklu fremur ætti þá ekki að vera hægt að treysta hinum lærðu hagfræðingum til þess, með allar þær skýrslur og skilríki, sem þeir hafa til þess.

Hv. frsm. meiri hl. (JAJ) taldi, að ef menn miðuðu gengið við vinnulaunin, ætti sterlingspundið að vera hærra en 28 kr. Jeg vil nú benda á samræmið milli þessa og smáorðanna „ef“, „svo framarlega sem“ og „þess má vænta“, sem er undirstaðan í nál. meiri hl. Dregur þessi staðreynd ekki eitthvað úr trú þeirra á, að „þess megi vænta“, að kaupið fylgi genginu. Þetta, að vinnulaunin eru nú í miklu ósamræmi við gengið, ætti að gera það að verkum, að menn leyfðu sjer ekki að „vænta“ þess, að alt gengi hljóðalaust, ef hækka skal krónuna upp í sitt fyrra gullgildi. Annars skal jeg ekki deila mikið um þetta við háttv. þm. Jeg get fallist á margt af því, sem hann sagði um verðlagið og slíkt, en alt undirbyggir það stefnu okkar festingarmanna og grefur undan honum. Meiri hl. viðurkennir nauðsyn þess, að hafa vinnulaunin og verðlagið í samræmi við það, sem það er í þeim löndum, er við skiftum við og keppum við. En gengisskráningin á einmitt að koma á því samræmi. Við það er hún bundin, ef skráð er af nokkru viti. Verðlagið er aðalatriðið. Það gleður mig, að þessi kenning hefir rutt sjer til rúms, sem annars hefir verið lítið nefnd í sambandi við gengismálið hjer á þinginu alt til þessa. Að allir viðurkenni þetta aðallögmál gengismálsins, er fyrsta skilyrðið til þess, að festingarstefnan sigri. Hún stendur því nær markinu, því betri skilning, sem menn hafa á þessu atriði, en því fjær því, sem menn eru fávísari um það.

Háttv. þm. gat þess, að í Noregi væru framleiðendur fylgjandi festing gengisins, af því miklir erfiðleikar steðjuðu að, til þess að losna við þá. En hví eru framleiðendur hjer ekki líka með festingu? Það mun víst vera af því, að hinir norsku framleiðendur skilja betur þýðingu gengisskráningarinnar fyrir hag þjóðar sinnar. Undarlegt er það, hve litla áherslu hinir íslensku framleiðendur leggja á festingu gengisins. Jeg skil ekki þetta tómlæti um hið þýðingarmesta mál fyrir afkomu þjóðarinnar og atvinnulífs hennar, sem til þessa hefir komið til kasta þingsins.

Háttv. frsm. meiri hl. (JAJ) bað mig að athuga afleiðingar þess að festa gengið. Afleiðingarnar verða þær, að viðskiftalífið verður öruggara, grundvöllur atvinnuveganna traustari, fjárlögin rjettar áætluð og hægt að reikna út framtíðina með meiri vissu en verið hefir um langt skeið. Það verður auðveldara að segja fyrir um afkomu atvinnuveganna, þegar gengið er fast og óbreytt. Þegar gengið er fest, losnum við við kreppur, stöðvun atvinnufyrirtækjanna, verðföll o. s. frv., að svo miklu leyti, sem slíkt á rætur sínar í gengisbreytingum. Það er vegna þessara afleiðinga, að við hikum ekki við að leggja til, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, verði samþ.

Þá kem jeg að samanburðinum á Noregi og Íslandi og möguleikunum þar til hækkunar. Ríkisskuldir Noregs eru hærri en okkar, en jeg hygg, að skattaálögurnar sjeu þyngri hjer en í Noregi. Einnig sje jeg það á fjárlögunum, að ekkert útlit er fyrir, að skattar verði lækkaðir svo nokkru nemi í náinni framtíð. Til þessa verða menn að taka tillit, auk ríkisskuldanna. Atvinnuvegirnir verða að bera gífurlega skatta, sem einir nægja til þess að tæma sjóði þeirra, svo að ekkert verður afgangs. Þess væri óskandi, að fulltrúar framleiðenda, þeir, sem sæti eiga á þingi, hefðu vit á að leggja meiri áherslu á festing gengisins en á hinar litlu lækkanir á sköttunum, sem þeir nú leita skálkaskjóls hjá gagnvart kjósendum sínum. Hjer má þó vinna höfuðorustuna! Það eiga ekki að vera þessar smáskærur eða metningur, sem mestu ræður um flokkadeilurnar. Aðalmálin eiga að fá sinn rjett. En það sjer á gengismálinu og lækkun smátolla, t. d. á síldartunnum, að menn þekkja ekki úlfaldann frá mýflugunni.

Um það, hvort hollara sje að hafa hátt eða lágt peningagildi, skal jeg fátt segja. Það er óþarfi að tala um slíkt. Hjer er ekki um meira að ræða en það, hvort krónan á að vera í 75 aurum eða 100 aurum. Og það er enginn sparnaður í því að hækka gildi krónunnar um 30%. Það er ekkert hættulegt að hafa t. d. líka mynt og Frakkar, sem eru ein mesta sparnaðarþjóð heimsins. En ef svo væri, að þetta hefði mikla þýðingu, þá ættum við að taka upp einhverja gífurlega mynt, sterlingspundið eða eitthvað enn hærra. Jeg hygg þó, að jafnljett yrði í buddunni hjá fólkinu fyrir það. Sennilega er þetta tal háttv. frsm. meiri hl. (JAJ) komið til af því, að hann ruglar saman áhrifum hárrar eða lágrar myntar á fólkið og hinu, hvaða áhrif það hafi að hafa gullmynt eða pappírsmynt, það, að menn spari fremur gull en seðla, hefir stundum verið rætt um meðal hagfræðinga — en við gengismálið á það ekki skylt. Annars hygg jeg, að hv. frsm. meiri hl. (JAJ) hafi fremur vilst inn á þetta atriði en að hann hafi ætlað að leggja nokkra áherslu á það.

Jeg verð að játa, að háttv. frsm. meiri hl. (JAJ) lagði ekki eins mikla áherslu á hækkun krónunnar og jeg hafði búist við og fjrh. (JÞ) hafði gert hjer í deildinni áður. Hv. þm. vill ekki útiloka möguleikana fyrir hækkun, og er það þó vafasamt. eftir rökum hans að dæma. Yfirleitt fanst mjer á ræðu hv. þm. sem hann væri staddur miðja vegu milli hækkunar- og festingarmanna. Þar sem jeg nú geri ráð fyrir, að hv. þm. sje á leiðinni úr flokki þeirra hækkunarmanna, vona jeg, að þess verði ekki langt að bíða, að hann, ásamt fleiri fjelögum sínum, komi alveg yfir um til okkar, sem ekki hikum við að mæla með verðfesting ísl. krónunnar sem næst núverandi sanngildi.

Háttv. frsm. sagði, að ef krónan yrði stýfð, yrði að gera seðlana innleysanlega í gulli þegar í stað. Jeg hefi því ástæðu til að halda, að hann hafi ekki gert sjer vel ljósan muninn á verðfestingu og stýfingu eins og jeg hefi raunar áður drepið á. Frv. er þess efnis, að halda verðgildi krónunnar föstu, en ekki að stýfa hana. Tilgangur þess er að reyna að koma verðgildi krónunnar í rjett samræmi við verðlag í landinu, þá fyrst, þegar í það er komin festa, sje krónan stýfð með breytingu á myntlögunum. Frv. er því alls ekki stýfingarfrv., heldur verðfestingarfrv. þegar um verðfestingu er að ræða, er um tvær leiðir að velja. Önnur er sú, að lögleiða gullmyntfót þegar í stað og gera seðlana um leið innleysanlega, og ef mjer skjátlast ekki, er það skoðun hv. meiri hl., að þetta verði að gera, nýrri mynt hleypt af stokkunum og innlausnarskylda þegar lögleidd. Jeg held, að þetta væri mjög ógætilega að farið. Hitt er betra, að byrja með að hafa gullvíxilfót, þ. e. að seðlabankarnir hafi jafnan á boðstólum verðfasta „valutu“, t. d. enska, þetta er það, sem jeg kalla verðfestingu. Finnar stýfðu ekki sinn gjaldeyri fyr en þeir höfðu haldið honum sæmilega föstum í 2–3 ár; það var ekki fyr en á síðast liðnu hausti, að þeir samþyktu stýfinguna. Austurríki hafði gullvíxilfót fram að ófriðnum. Þar var engin gullinnlausn lögleidd, heldur voru seðlarnir innleystir, þegar óskað var, með erlendum gjaldeyri, sem gull stóð á bak við. Það, sem við viljum með þessu frv., er það, að gengið sje fast og að til sje ávalt í bönkunum á reiðum höndum „valuta“, sem hægt sje að selja við fastákveðnu verði. Þetta er gætilegri og öruggari aðferð en hitt, að skella á gullinnlausn þegar í stað.

Jeg hefi nú sýnt fram á, hversu veigalitlar ástæður hv. meiri hl. eru, og það að treysta á það, að allir geti orðið samtaka um að hækka gengið og lækka verðlag sem því svarar, er svo barnalegt, að það tekur engu tali. Jeg eyði ekki frekar orðum að því.

Þá virðist mjer dagskrártillaga meiri hl. engu síður fótfúin en nál. Hv. frsm. (JAJ) sagði, að Landsbankinn hjeldi fast við þær kröfur, sem hann ljet bera hjer fram á lokuðum fundi í þinginu í vetur, um ábyrgð ríkissjóðs á gengistapi á þeim lánum, sem bankinn kynni að verða að taka vegna gjaldeyrisverslunarinnar, ef hann á að hafa hana á hendi framvegis. En þessi krafa er miðuð við, að stjórnin hjeldi við sömu stefnu og áður í þessu máli. Ef stöðugt skal hækka, getur hann auðvitað aldrei verið öruggur fyrir tapi á erlendum viðskiftum sínum. En ef tekin er ákvörðun um festingu, þarf hann ekki að óttast.

Í dagskránni er lagt til að afgreiða þetta mál „í fullu trausti“ þess, að stjórnin hagi sjer alt öðruvísi en áður og taki nú upp þveröfuga stefnu við þá, sem hún hefir haft til þessa. Jeg veit ekki, hvort ber að skoða þetta sem „traust“. Jeg held jafnvel, að rjettara orðalag hefði verið „í fullu vantrausti þess“ o. s. frv.

Jeg segi svo ekki fleira um þetta að sinni, en get þess aðeins aftur, að þingið getur ekki sóma síns vegna afgreitt svo mikilvægt mál með jafnfúinni dagskrá, sem þessari.