06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í C-deild Alþingistíðinda. (2308)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þykir hv. frsm. minni hl. fjhn. (ÁÁ) hafa gefið meira tilefni til langra umræðna en sanngjarnt er gagnvart sárþreyttum þingdeildarmönnum. Jeg get ekki komist hjá því að svara nokkrum atriðum ræðu hans, því að hann beindi henni meira til mín en til hv. frsm. meiri hl. fjhn. (JAJ). Jeg skal þá byrja á því, er hann kom að, undir ræðulokin, er hann gerðist siðavandur, og vítti það, að jeg nefndi orðið svik í sambandi við stýfingu að nauðsynjalausu. Hann fór loflegum orðum um bókina „Lággengi“ og sagði, að hún væri ekki skrifuð í hita, heldur með rólegri og nákvæmri athugun. Hann las kafla úr bókinni. En þar segi jeg hið sama og nú. Hvað stendur í bókinni? Þar stendur þetta: „Þetta eru svik, sem þjóðfjelagið getur ekki leyft sjer, ef aðrar færar leiðir eru til, segja hækkunarmenn“. Þetta er skrifað með rólegri athugun, og jeg hefi ekki gert annað hjer en að endurtaka þetta. Jeg bæti svo við í bókinni, að annað mál sje, hvort verknaðurinn verði nefndur sama ljóta nafninu, þegar hann sje framkvæmdur opinberlega með lagasetningu. Því sama hefi jeg haldið fram nú. Altaf þegar jeg hefi viðhaft þetta ljóta orð, þá hefi jeg haft fyrirvarann: að nauðsynjalausu. Þá er stýfing sama eðlis sem svik. Hitt verða ekki kölluð svik, þótt þjóðir, sem eru kúgaðar og hrjáðar af langvarandi styrjöldum, gripi til þessa úrræðis, þegar þær eiga ekki annars kostar.

Hitt er misskilningur, að það sjeu svik, þegar þær breytingar verða á genginu, að þjóðirnar geri seðla sína óinnleysanlega. Það er í eðli sínu líkt og greiðslufrestur. Innstæðueigendur halda rjetti sínum óskertum, þar til innlausnarskyldan er lögleidd aftur. Þá var það rjett, sem þessi hv. þm. hafði eftir mjer um stýfingu dönsku „kúrant-seðlanna“. Handhafar þeirra urðu ekki fyrir neinu ranglæti, þó að verð þeirra væri með lögum fært niður í námunda við hið raunverulega verð þeirra á sama tíma. En hv. þm. var á villigötum, er hann talaði um, að jeg hefði leyft mjer að gefa út seðla, sem ekki voru trygðir með gulli, og engin innlausnarskylda hvíldi á, og menn hefðu svo orðið að taka við slíkum seðlum upp í kröfur sínar. En það er misskilningur, að jeg hafi leyft mjer að gera þetta. Jeg gerði það samkvæmt lögum frá Alþingi. Samkvæmt stöðu minni var jeg ekki annað en verkfæri til þess að framkvæma vilja löggjafarvaldsins. En hjer er heldur ekki um svik að ræða, því að seðlarnir eru ekki almenn skuldabrjef, og á því byggist, að handhöfum þeirra er ekki órjettur ger með þessu.

Jeg skal ekki fara mikið út í rjettlætið í því að fella seðlana í verði. Það er satt best að segja, að ef fara ætti að skifta gæðum milli manna eftir einhverju ímynduðu rjettlæti, þá hygg jeg, að þyrfti að stinga hendi í margra vasa og láta í vasa annara. En auðlegð og fátækt skiftast ekki eftir slíku rjettlæti. Hingað til hefir sá grundvöllur verið látinn nægja, að eignirnar væru fengnar á löglegan og heiðarlegan hátt. Annar betri grundvöllur undir vernd eignarrjettarins hefir ekki enn verið fundinn. þessu verðum við að fylgja, og á þessum grundvelli standa hækkunarmenn. þeir vilja ekki kippa í burt þeim löglega grundvelli, sem eignir og skuldir byggjast á, frekar en taka t. d. fasteign frá auðugum manni og fá hana í hendur öðrum fátækari, þótt jafnari skifting gæðanna fengist á þann hátt. Jeg skal setja fram reikningsdæmi, til skýringar á ranglæti því, sem stýfingin veldur, og háttv. þm. mun í rauninni viðurkenna. Hugsum okkur, að maður hafi átt 100 kr. 1914, og hafi haft þær á vöxtum síðan og lagt vextina við höfuðstólinn. Eftir þessi 12 ár væru 100 kr. með þessu móti orðnar að 170 kr. Árið 1914 gat hann fengið tiltekið vörumagn fyrir peninga sína. Nú vill hann kaupa vörur fyrir peninga sína, og skulum við gera ráð fyrir því, að verðlagið fari eftir smásöluvísitölu hjer. Þá fær hann nú fyrir þessa peninga sína vörur, sem kostuðu árið 1914 66 krónur. Í stað þess að fá vextina, hefir hann tapað þeim og 1/3 af höfuðstólnum. Þetta hefir hann gefið þjóðfjelaginu. Svona fer, ef stýft verður. Þá er tekinn af innstæðueigendum allir vextir og 1/3 innstæðunnar. En þetta er ekki rjettlæti, heldur lögleysa, ef önnur úrræði eru fyrir hendi. En ef krónan er hækkuð upp í gullgildi, þá verður niðurstaðan sú, að innstæðueigandinn tapar vöxtunum og 1/5 af innstæðunni. (ÁÁ: Vilja þá hækkunarmenn svíkja?) Nei, þetta hefir tapast vegna breytinga á kaupmætti gullsins, rás viðburðanna hefir svift innstæðueigandann þessu.

Þá skal jeg snúa mjer að byrjun ræðu hv. þm. Hann beindi til mín tveim spurningum. En hann getur ekki vænst þess, að jeg svari þeim nú. Verði jeg í þeirri stöðu, sem jeg er nú í, til næsta hausts, þá mun jeg fylgja ákvörðunum þingsins. Jeg hefi spurt meiri hluta nefndarinnar, hvað leggja beri í dagskrána, en ekki fengið svar, og svo er ekki vitað enn, hvort dagskráin verður samþykt eða ekki.

Um orðin festing, stýfing og dýrtíð þýðir ekki að deila mikið. Það er misskilningur hjá hv. þm., að menn hugsi um hlutfallið milli kaupgjalds og vöruverðs, er þeir tala um dýrtíð. Menn miða við, hvað þeir fá fyrir peninga sína. Þannig hefir það verið alla tíð frá því að Columbus fann Ameríku. Menn hafa talað um dýrtíð í sambandi við það, að þeir fengu minna fyrir peninga sína en áður.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði það fullum fetum í ræðu sinni, að í haust mundi verða mikið verðfall á innlendum afurðum. Jeg vil nú trúa því, af því að mjer finst það eðlilegt. Verðvísitalan af innlendu afurðunum er nú 306, en af þeim útlendu 234. Þessi mismunur hlýtur að rjettast á þann hátt, að hin innlenda vara fari niður, þegar því er nú haldið fram af flm. frv., að verðlag muni lækka mikið, þá sje jeg ekki ástæðu til þess að gera örvæntingaráðstafanir; jeg hygg, að óhætt sje að bíða til haustsins. Verðbreytingar á landbúnaðarvörum fara fram einu sinni á ári. Eftir slíkum verðbreytingum verður að bíða til þess árstíma, sem er haustið.

Jeg skal ekki fara mikið út í það, sem hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) sagði um gengishækkunina í Danmörku á árunum 1813–1845. Alt, sem í „Lággengi“ stendur um það, er eftir öðrum bókum haft. Það kemur ekki oft fyrir, að menn fái tækifæri til þess að öðlast reynslu á þessu sviði. En Napóleonsstyrjaldirnar og ófriðurinn mikli hafa fært mönnum heim sanninn um það, að hægfara gengishækkun er óhagstæðari fyrir þjóðfjelögin en hröð gengishækkun. Ef hækkunarstefna er upp tekin, er betra, að hækkunin komi fljótt, heldur en hún sje dreifð yfir langan tíma. Jeg veit, að hv. þm. kannast við þessa skoðanabreytingu, sem er bygð á reynslu síðustu ára. En ef á að fara að bera saman erfiðleikana hjer og í Danmörku 1813, þá er mjög ólíku saman að jafna. Á árunum 1807–1813 dundu miklar hörmungar yfir Danmörku. Bretar skutu höfuðborgina í rústir og tóku skipaflotann o. fl., o. fl. þetta er nokkuð annað en það, sem gerðist hjer á stríðsárunum. Við höfum ekki orðið fyrir þeim efnalegum áföllum, sem rjettlæta það, að við fellum gjaldeyri vorn í verði. Það hefir mikla þýðingu fyrir rás viðskiftalífsins, hvort það tekst að hækka gjaldeyrinn og hve auðveldlega sú hækkun tekst. Hækkunin 1924–5 var framkvæmd auðveldlega. Jeg skal engu spá um þá hækkun, sem eftir er, hvort hún er möguleg eða ekki. — Jeg get ekki verið að eyða tíma í að útlista lögmálið um framboð og eftirspurn og verkanir þess á vinnulaunin. Það þekkja allir, sem komnir eru til vits og ára.

Að síðustu fann þó hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) það, að það þurfti að leita að afsökunum fyrir þjóðfjelagið fyrir að bera fram, fylgja og lögtaka aðra eins ráðstöfun og þá, sem gerð yrði, ef frv. væri samþykt.

Og afsökunina fann hann þar, sem hennar var helst að leita. Hann taldi okkur hafa verið óvita. Og eins og fullorðinn maður eigi ekki að bera ábyrgð á því, sem hann gerði meðan hann var óviti, eins getum við ekki borið nú ábyrgð á þeim málum, sem fóru úr lagi, meðan þjóðin var óviti.

Þetta getur e. t. v. gilt sem afsökun í sumra augum. En út á við verður þessi afsökun lítils metin. Ef við tökum þetta okkur til afsökunar, verða aðrar þjóðir hræddar um, að við sjeum ennþá óvitar, fyrst við vorum það 1918 og næstu árin þar á eftir. — Jeg er hræddur um, að lagasetning í þessa átt myndi verða lögð okkur út til ámælis í nágrannalöndunum og veikja traust á okkur. Myndi það ekkert bæta úr, þótt við gætum gefið þá skýringu, að við hefðum verið óvitar frá því 1918–23, en værum nú orðnir svo klókir, að vilja ekki bera ábyrgð á því, sem þá mistókst.

Að síðustu skal jeg aðeins svara því, sem hv. frsm. (ÁÁ) gat um í ræðu sinni, að hjer hefði aldrei verið tekin nein stefna í gengismálinu. Jeg verð nú að segja það, að mjer finnast þetta ómakleg ummæli. Á þinginu 1924 var tekin svo ákveðin stefna í gengismálinu, að hún hefir aldrei komið betur í ljós. Á því þingi voru gerðar allar þær ráðstafanir, sem stöðvuðu lækkun, en ýttu undir hækkun krónunnar, — og það var hárrjett stefna. En það hefir verið sagt af kunnugum mönnum, að þá hafi aðeins eitt verið látið ógert, og það var að taka lán erlendis. Alt annað var gert; það voru föst tök, sem þá voru tekin í gengismálinu, það er fyrst nú, að horfið er frá þessari stefnu. Nú er að koma fram stefnuleysi í þetta mál. Og þótt mönnum hafi verið þetta mál óljóst, þá verða þó allir að viðurkenna, að bæði vilji og viðleitni þjóðarinnar hefir altaf miðað að því, að hindra lækkun, en auka hækkun krónunnar eftir því, sem efni hennar hafa staðið til. Svo að afstaðan 1924 var ekki annað en fullkomnun og festing á þeirri viðleitni, sem áður hafði gert sig gildandi hjá bönkum, þingi og stjórn; viðleitni, sem áður hafði ekki borið eins sýnilegan árangur og síðar fram kom.

Jeg held, að meðan ekki fylgja þessari stefnu meiri erfiðleikar en nú eru fram komnir, þá eigi ekki að víkja frá henni og fara að samþykkja frv.