06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það, sem jeg var að mótmæla hjá hv. frsm. meiri hl. (JAJ), var það, að jeg hefði sagt, að okkar gengi lagaði sig eftir verðlaginu í viðskiftalöndunum. Hv. þm. (JAJ) hefir líklega misheyrst. Eins og hann veit, hefir minni hl. í nál. sínu lýst, í hverju verðfestingarstefnan er fólgin, — að peningunum sje haldið í því verði, sem samsvarar kaupmætti þeirra í innanlandsviðskiftum. Hinu hefi jeg aldrei neitað, að til er sú leið, að láta verðlagið í landinu laga sig eftir genginu, en sú leið er torfærari og hefir enga kosti fram yfir hina. Þó mun jeg taka vel undir sáttaumleitanir hv. 3. þm. Reykv. (JakM), og get fallist á það fyrir mitt leyti, að frv. sje breytt í það horf, að núverandi gengi verði fest um óákveðinn tíma. Næstu þing gætu svo gert nauðsynlegar ráðstafanir til stýfingar. Þó er jeg aðeins einn um það ennþá að játa þessu sáttaboði, sem komið er frá einum manni úr hv. meiri hl. fjhn. En ef menn vilja sinna þessu, þarf ekki nema stutt hlje til að semja skriflegar brtt. við frv. til að laga þetta. (TrÞ: Það má líka vel bíða til 3. umræðu.). Það tel jeg þó óráðlegra, þar eð svo gæti farið, að frv. yrði felt áður.

En jeg segi aðeins þetta til hæstv. fjrh. (JÞ), að þar sem hann byggir von sína um velgengni atvinnuveganna á hækkun krónunnar, byggjum við verðfestingarmenn vonir okkar um velgengni atvinnuveganna á föstum gjaldeyri, og um það er enginn ágreiningur, að það, sem atvinnuvegirnir þarfnast helst til að geta þrifist, er, að verðlagið sje í samræmi við gengið, en samkvæmt stefnu hæstv. fjrh., ef á að fara eftir henni, hygg jeg, að þess geti orðið alllangt að bíða, að atvinnuvegirnir hljóti þetta öryggi. Þó vil jeg freista samkomulags á þeim grundvelli, sem hv. 3. þm. Reykv. hefir stungið upp á, ef hv. meiri hl. fjhn. vill fylgja honum að því máli.