10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í C-deild Alþingistíðinda. (2338)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg vil leiðrjetta í annað sinn misskilning hjá hv. frsm. meiri hl. (JAJ) um, að frv. þessu þurfi að fylgja innlausnarskylda. Jeg hefi sagt það áður, að gætilegast væri að hafa gullvíxilfót meðan stöðvun gengisins væri að komast á, en gullinnlausnin kæmi ekki fyr en það væri orðið og bankarnir gætu framkvæmt hana. Þetta er afareinfalt mál, enda hafa flestir, sem um það hafa skrifað, talið rjettast að byrja fyrst með gullvíxilfæti. Það voru Finnar, sem fyrst byrjuðu á þessu. Bankastjórn finska þjóðbankans átti frumkvæðið, meðan þing og stjórn skildu það enn ekki. Þingið þurfti því ekki að skipa henni, hvað gera skyldi. Þetta er ólíkt því, sem hjer er. Þingið verður að gefa út lög eða fyrirskipanir, um stefnuna í þessum málum, ef bankastjórnin og löggjafarvaldið eru ekki sammála. Festingarstefnan hefir nú verið framkvæmd á Finnlandi í 2½–3 ár, en síðan hafa verið afgreidd stýfingarlög. En þau lög eiga alveg óskylt við þetta frv., eins og var að skilja á hv. frsm. meiri hl. (JAJ). þykir mjer leitt, að hann skuli ekki geta skilið þetta.

Ef dagskrá þessi, sem fer í sömu átt og dagskrá meiri hl. við 2. umr., verður samþ., má búast við, að alt verði laust og liðugt og breytist eftir því, sem vindurinn blæs, en ekkert verði reynt að gera í þessu máli til festingar og öryggis fyrir atvinnulífið.

Það er ekki rjett hjá hv. frsm. meiri hl. (JAJ), að brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sje sama og dagskráin. Þar er um fleiri atriði að ræða, enda tekið á fastari og ákveðnari tökum, eins og sómir slíku máli. En dagskráin er aftur á móti loðin og óákveðin. Mætti segja, að hún sje lík núgildandi lögum um gengisverslun, því að það getur verið bæði um hægfara hækkun og stöðvun að ræða. Betur verður dagskráin aldrei lögð út. Ef brtt. hv. 2. þm. Rang. (KlJ) verður samþ., líkist dagskráin að sönnu meira fyrri brtt. hv. 1. þm, S.-M. (SvÓ), en verður þó aldrei nærri eins ákveðin og frv., því að í því eru fleiri atriði, sem minni hl. leggur áherslu á, að samþ. verði. — Jeg get þó ekki annað sjeð en að í dagskránni sje meira aðhald fyrir stjórnina, þegar litið er á hana í sambandi við alla meðferð þingsins á þessu máli. En meðferð þingsins við 2. umr. sýnir ákveðinn vilja deildarinnar. Og það er ekki nema einfalt reikningsdæmi, að leggja okkur, sem verðum á móti dagskránni, við hina, sem greiða henni atkv. í því trausti, að halda genginu föstu. Samanlagt er það meiri hluti deildarinnar, sem þannig togar stjórnina í áttina til festingar, þó atkvæðin falli sitt á hvað. En hæstv. fjrh. (JÞ), sem er góður reikningsmaður, ætti að geta skilið þetta.

Hv. frsm. meiri hl. (JAJ) hjelt áfram uppteknum hætti um að slá út í loftið. Hann taldi, að það gæti haft hættulegar afleiðingar, ef frv. yrði afgreitt í því formi, sem það nú er í, afleiðingar, sem hann vildi þó ekki tala um til að auka ekki á þessa ósýnilegu hættu. Vildi hann víst helst ræða þetta mál fyrir lokuðum dyrum. Þetta er ekki ný bardagaaðferð og stendur oftast í sambandi við ónóga þekkingu. Það er þessi tilhneiging manna að „mystificera“ alt, gera alt að þeim höfuðleyndardómum náttúrunnar, sem enginn fær skilið. Guðfræðingi koma í hug gamlar, úreltar trúfræðikenningar, sem reynt er að sveipa dularfullum hjúpi til að fela veilurnar.

Hv. þm. (JAJ) vill ekki tala neitt um stefnuna, hver hún eigi að vera í þessu máli, nje um afleiðingarnar. Það gæti haft óttalega hættu í för með sjer! Jeg veit, hvað hv. þm. á við, en þorir ekki að segja. Það er, að festing krónunnar mundi veikja lánstraust landsins. Það þarf enga dirfsku til að segja þetta. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir sagt þetta áður í sambandi við önnur mál. Með þessu má auðvitað slá ryki í augu manna. En við eigum fyrst og fremst að líta á það, hvað við getum varið fyrir sjálfum okkur, en ekki á það, sem aðrir kunna að segja. Og um lánstraust vort erlendis er það að segja, að áhrif festingarinnar mundi verða þveröfug við það, sem hv. flm. (PO) sagði. Því verðfastur gjaldeyrir tryggir lánstraust atvinnuveganna. Jeg skal geta þess hjer í þessu sambandi, að jeg átti tal um þetta við bankastjóra ríkisbankans finska, og lagði þá fyrir hann þessa spurningu: Hvaða áhrif hefir það á lánstraust landsins, ef festur er verðfallinn gjaldeyrir? Hann leyfði mjer að hafa það eftir sjer, að hann hefði átt tal um þetta við ýmsa þektustu fjármálamenn stórþjóðanna, og það væri álit þeirra, að hver sú þjóð, sem ætti gjaldeyri, sem væri fallinn meira en 10%, hún trygði lánstraust sitt best og yki það með því að festa verðgildi peninga sinna. (JBald: Hann hefir verið að afsaka sjálfan sig!). Þess þurfti hann ekki. Hv. þm. (JBald) þyrfti ekki annað en kynna sjer niðurstöðu tveggja alþjóðafunda um þetta atriði til að sjá, að afsökunar þarf engrar við. Þeir komust báðir að þeirri niðurstöðu, sem hjer var nefnd, og jeg hefi eftir Risto Ryti. Hjer hefir talsvert verið talað um ráð erlendra fjármálamanna. (PO: Hverjir hafa fylgt þeim?). Það sannar ekkert, þótt enginn hafi haft vit á að fylgja þeim. Það, hvort margir hafi fylgt einhverju ráði, er engin sönnun fyrir ágæti kenningarinnar. Hjer verðum við að hafa það skap, að fylgja því, sem rjett er að okkar eigin dómi.

Hv. þm. Str. (TrÞ) lagði nokkrar spurningar fyrir hæstv. fjrh. (JÞ). En Það hefir gengið heldur treglega að fá ákveðin svör. Jeg bar tvær spurningar upp fyrir hæstv. fjrh. (JÞ) við 2. umr. þessa máls. Og þó nú sje ný dagskrá fram komin, þá eru þessar spurningar ekki úr gildi gengnar. Mjer þætti því gott, ef hæstv. fjrh. vildi svara þessum spurningum nú. Spurningarnar voru á þessa leið: Hvaða ráðstafanir mundi stjórnin gera um gengið, ef skuld landsins við útlönd væri yfir 200 þús. sterlingspund. Og hvaða ráðstafanir fyrir hönd þings og þjóðar mundi stjórnin gera, ef innieign landsins ytra kæmist yfir 200 þús. sterlingspund, en það var hún á síðasta ári, þegar hækkunin hófst. Hæstv. fjrh. (JÞ) er engin ofætlun að svara þessu skýrt, án þess að vefja svarið inn í loðin orðatiltæki af sama tæi og dagskráin er ofin úr. Það er kunnugt, að fjrh. og Landsbankastjórnin er ekki neinn hitamælir, sem gengur af sjálfu sjer upp og niður samkvæmt náttúrulögmálum. Aðgerðir þeirra í gengismálinu eru komnar undir skoðunum þeirra og skilningi. Því bið jeg um svar. Þeir, sem halda, að þetta komi alt af sjálfu sjer eins og þegar hitamælir starfar, koma ekki með slíkar spurningar, enda ættu þeir sem fæst orð að tala í þessu máli.