11.03.1926
Neðri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í C-deild Alþingistíðinda. (2354)

62. mál, slysatryggingar

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það mun engum hafa komið á óvart, þó að skamt yrði þess að bíða, að brtt. kæmi fram við lög þau um slysatryggingar, er samþ. voru á síðasta þingi. Jeg gat þess meðal annars þá, að ef miða ætti iðgjaldsgreiðslu við áhættuna innan hvers flokks í sjómannatryggingunni, yrðu álögurnar svo þungar á smáútgerð, að ekki mundi þykja viðunandi. þetta hefir líka komið á daginn. Það hafa heyrst háværar raddir frá hinum smærri útgerðarmönnum um, að þetta væri mjög erfiður skattur. Það hafa verið samþyktar áskoranir á þingmálafundum og fiskifjelagsfundum um að ljetta þessum bagga af hinni minni útgerð. Jeg held, að betra hefði verið að fara eftir minni till. í fyrra og koma á samtryggingu allra sjómanna með tilliti til þess, hver nauðsyn væri á tryggingu og hverjir væru færastir um að borga. Það hefir sýnt sig, þegar slys hefir borið að höndum, að allir hafa tekið höndum saman um að bæta skaðann eftir föngum. Það sást glögt síðast liðinn vetur, hvernig útgerðarmenn hlupu undir baggann, og allir sjómenn lögðu fram sinn skerf til þess að bæta tjónið. Jeg hygg, að það sje ósk og ætlun Sjómanna og útgerðarmanna að hjálpa hver öðrum til þess að halda uppi þessum nauðsynlegu tryggingum. Það mun yfirleitt vera samhuga álit manna, að hin mesta nauðsyn sje á að halda uppi tryggingum til handa sjómannastjettinni. Fyrsti vísir til tryggingar var einmitt handa þessari stjett. En um það þarf ekki að fjölyrða, heldur snúa sjer að því að bæta úr helstu ágöllum. Iðgjöldin eru

nú talsvert hærri en þau voru áður en lögin frá 27. júní fyrra ár gengu í gildi. Áður var greidd ein króna fyrir hvern háseta á skipum, sem voru 5 smálestir eða meira, en nú kr. 1,20. Áður greiddu útgerðarmenn og hásetar þetta gjald í sameiningu. Nú greiða útgerðarmenn það einir. Það vita allir, sem kunnugir eru smábátaútgerð nú, að síst er bætandi á álögurnar. Menn verða að muna það, að hjer er um að ræða þjóðlegasta þátt útgerðarinnar. En því þjóðlegri er atvinnuvegurinn, sem fleiri mönnum gefst kostur á að gerast sjálfstæðir atvinnurekendur. Jeg vona, að þessi grein útgerðarinnar eigi eftir að taka framförum og blómgast, en til þess þarf meðal annars góðar landhelgisvarnir. Vörn sú, sem stríðið veitti, sannaði það, að ef við getum varið landhelgina, þá er þessum atvinnuvegi borgið.

Nú fer smábátaútgerðin minkandi, og margt bendir á, að hún muni fara sömu leið og þilskipaútgerðin fór, sem nú er að mestu úr sögunni. Okkur ber að stemma stigu fyrir því, að hún fari eins. Það er enn svo, að meiri hl. þeirra, sem lifa á sjávarútvegi, lifa einmitt á þessum útvegi. Ef takast á að bjarga honum frá yfirvofandi hnignun, verður fyrst og fremst að snúa af þeirri braut, sem síðasta Alþingi hjelt inn á. Þá voru tindar svo margar smáálögur á þessa útgerð, að furðu má gegna, þar sem kunnugt er, að hún er í afturför. Jeg skal taka dæmi: Gerum ráð fyrir, að haldið sje úti 6–8 rúmlesta mótorbát með 7 mönnum í 40 vikur. Þá verða aukin útgjöld útgerðarinnar vegna slysatryggingarlaganna frá síðasta þingi 186 kr. Gerum ráð fyrir, að báturinn afli 160 skippund og að hvert skpd. seljist á 100 kr. það gerir 16000 kr. þá gerir ½% hækkun á útflutningsgjaldi 80 kr. Slysaiðgjöld þeirra, sem vinna við verkun aflans, má áætla 22 kr. Aukin útgjöld verða eftir þessu nærfelt 300 krónur. Þar við bætist, að undanfarið ár voru líka auknar álögur, t. d. með gengisviðaukanum o. fl. Þetta eru hin beinu útgjöld, en svo verður útgerðin auðvitað að taka þátt í þeirri miklu útgjaldaaukningu, sem samþ. var á þinginu 1924–1925.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, þar sem drepið er á ýms atriði í greinargerð frv. Jeg óska, að málinu verði vísað til sjútvn. og vænti þess, að hún skili nál. sem fyrst.