11.03.1926
Neðri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

62. mál, slysatryggingar

Jón Baldvinsson:

Mjer finst engin ástæða til að kippa sjer upp við það, þó að einhverjir kunni að vera óánægðir með þessi lög. Slíkt er algengt um ný lög, einkum þegar um nýjar kvaðir er að ræða. Þegar frá líður, sætta menn sig við lögin, ef það kemur í ljós, að þau miða til almenningsheilla.

Jeg er viss um, að slysatryggingalögin verða að miklu gagni, og mjer finst sjálfsagt, að þau fái að reyna sig svo, að betur verði sje, hverju helst er þörf á að breyta. Því fer fjarri, að nokkur reynd sje komin á þau eftir tvo mánuði.

Mjer fanst hv. flm. (JAJ) lítið rökstyðja það, að um stórfelda galla væri að ræða á þessari lagasmíð. Að því mætti kannske finna, að mótorbátar yrðu tiltölulega ver úti en gufuskip, en úr því var hægðarleikur að bæta með breytingu á reglugerðinni um iðgjöldin. Hv. flm. (JAJ) fullyrðir í greinargerð frv., að þessar álögur geti orðið til þess að stöðva smábátaútgerðina. Mjer þykir ólíklegt, að 186 krónur geti riðið baggamuninn í þessu efni. En óánægju í byrjun út af þessum ákvæðum mátti búast við, og má ekki taka of mikið tillit til þess. Hinsvegar er sjálfsagt að breyta lögunum, ef reynslan leiðir í ljós verulega galla.