30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í C-deild Alþingistíðinda. (2363)

62. mál, slysatryggingar

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Út af orðum hæstv. atvrh. (MG) vil jeg gera örlitla athugasemd. Hann taldi vandkvæði á því, að leggja nokkuð af iðgjaldagreiðslunni á þá menn, sem ráðnir eru fyrir hlut af afla, en kvaðst þó mundu sjá sjer það fært, ef deildin lýsti yfir því, að það væri hennar vilji. Nú liggur það í dagskrá sjútvn., ef hún verður samþ., að slík yfirlýsing er gefin, og leysist því með henni þessi spurning. þá tók hæstv. ráðh. (MG) það fram, að stjórnin sæi sjer tæplega fært að leggja fyrir næsta þing frv. um almennar slysatryggingar, þar sem með væru tekin öll áhætttuverk. Það liggur eigi í dagskránni eða nál., að teknir verði undantekningarlaust allir þeir, sem í nál. eru taldir, þótt nefndin hinsvegar telji best, að sem flestir komist undir tryggingarákvæðin. það er álit allra í meiri hl. sjútvn., að nú sjeu margir gerðir tryggingarskyldir, sem vinna hættulítil verk, en aftur á móti undanþegnir aðrir, sem hættumeiri verk vinna, sem nefndin leggur mesta áherslu á að afnumin verði. Um þá till. hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að vísa málinu til hæstv. stjórnar án frekari formála, er það bert, að í henni liggur engin bending um að fá reglugerðarbreytingu, heldur aðeins eyðing málsins. Því verð jeg, fyrir hönd nefndarinnar, að telja hana allsendis óaðgengilega.