30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í C-deild Alþingistíðinda. (2368)

62. mál, slysatryggingar

Jón Baldvinsson:

Hæstv. atvrh. (MG) tók mjer óstint upp, það sem jeg sagði áðan. Jeg skal játa, að mjer líkaði miklu betur við hann í þessari ræðu, þótt hann væri með einhverjar hnútur til mín. Nú var hann miklu varkárari í ummælum sínum og lofaði ekki öllu „fögru“. (JakM: Fögru?). Já, það var með gæsalöppum.

Hæstv. ráðh. (MG) vildi vísa í ummæli mín frá í fyrra því til sönnunar, að hægt væri að breyta þessum atriðum með reglugerðarbreytingum. — En ummæli mín frá í fyrra sanna einmitt, að ekki hefir verið meiningin hjer í hv. deild þá, að hlutarmenn skyldu greiða hluta af iðgjöldunum. Jeg tók það einmitt fram, að jeg hefði ekki á móti slíkri breytingu, ef mönnum þætti það máli skifta. Þetta, sem hæstv. ráðh. las upp, sannar einmitt, að skilningur hans og stjórnar slysatryggingarinnar sje hæpinn. Enda leggja þessir háttv. herrar áherslu á, að þeir „hyggi“ þetta og þetta.

Hæstv. ráðh. (MG) vitnaði og í mig, að jeg hefði álitið í fyrra, að nýja flokka mætti taka upp með einfaldri þál. En þetta var einmitt deiluatriði í fyrra, og ummæli þau, er hæstv. ráðh. las eftir mig, áttu við brtt., er allshn, flutti í fyrra, en sú till. komst ekki inn í lögin.

Það er dálítið hart, ef þessu deiluatriði frá því í fyrra á að úrskurða með rökstuddri dagskrá. Og það er eins og hv. flm. og jafnvel hæstv. atvrh. (MG) haldi, að á þennan hátt megi breyta lögunum.