25.02.1926
Neðri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

17. mál, fjáraukalög 1925

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Á Alþingi 1924 lagði þáverandi stjórn fram fjáraukalög fyrir árið 1923 og leitaði heimildar til aukafjárveitinga fyrir árið 1923 að upphæð h. u. b. 46 þús. kr. Árið 1925 voru lögð fyrir Alþingi samskonar lög fyrir árið 1924, og var þá upphæðin h. u. b. 38 þús. kr. Í þessu frv. um aukafjárveitingar er upphæðin 196 þús. kr. Þetta stingur allmjög í stúf við hinar fyrri upphæðir. Jeg get mint á, að fjárlögin fyrir árið 1925 voru samin á Alþingi 1924, og var þá sjerstök áhersla lögð á það af þáverandi fjvn. að fá sem flesta liði inn í fjárlögin og að láta gjaldahlið fjárlaganna sýna sem rjettasta mynd.

Jeg vil þó ekki af hálfu fjvn. beina neinum sjerstökum ámælum til hæstv. stjórnar út af þessu, því að við nánari athugun kemur ýmislegt fram, sem skýrir þennan mikla mun og gerir að miklu leyti skiljanlegt, hvað upphæðirnar eru margar og háar. Í fyrsta lagi eru 2 hæstu upphæðirnar, sem nema til samans h. u. b. 1/3 af öllum 196 þúsund kr., ekki gerðar upp á eindæmi hæstv. stjórnar, heldur með ráðum fjárveitinganefnda á síðasta þingi. Þessar upphæðir eru h. u. b. 34 þúsund kr. til aðgerðar Landsbókasafnshúsinu og 36 þúsund kr. í viðbót við styrk handa Búnaðarfjelagi Íslands. Það er alveg rjett, sem segir í athugasemdum við frv., að mjög mikill hluti þessa fjár hefir gengið til nauðsynlegs viðhalds á opinberum byggingum eða til mannvirkja til varnar skemdum af ágangi sjávar og vatna.

Af hálfu fjvn. vil jeg þó geta þess um einn lið í frv., að henni þykir hæstv. stjórn þar hafa gengið fulllangt, sem sje í styrkjum til utanfara. Ef þetta hefði verið borið fram á þinginu 1924, hefði fjvn. lagst á móti flestu. Það er auðvitað, að hægra er um að tala en í að komast að neita slíkum styrkjum, en ef þetta á að vaxa áfram eins og hingað til, getur það orðið allþungur baggi fyrir ríkissjóð.

Nefndin vill ekki ámæla hæstv. stjórn fyrir að hafa veitt styrk til þess að lækna mænuveikisjúklinga, en hún vill benda á, að aðferðin er dálítið óvanaleg. Fjenu er ávísað til landlæknis og hann ráðstafar því. Þegar þetta er borið saman við eftirlitið með úthlutun fjár til styrktar berklaveikum, þá virðist ekki mikið eftirlit með þessu fje af hálfu stjórnarráðsins. Viðvíkjandi síðustu tveim liðum 3. gr. vil jeg geta þess, að þeir eru nú í síðasta sinn í fjáraukalögum og eru nú teknir upp í fjárlög fyrir árið 1926.

Um 5. gr. vil jeg taka það fram, að fjvn. hefir álitið þessa styrki nauðsynlega, en af athugasemdum við greinina kemur í ljós, að mjög er það óákveðið, hvaða reglur gilda um úthlutun slíkra styrkja.

1) Til sjóvarnargarðs á Siglufirði borgar ríkissjóður helming kostnaðar.

2) Til sjóvarnargarðs á Sauðárkróki borgar ríkissjóður ¾ kostnaðar.

3) Til sjóvarnargarðs á Stokkseyri og Eyrarbakka borgar ríkissjóður ¼ kostnaðar.

4) Til fyrirhleðslu fyrir Hjeraðsvötn borgar ríkissjóður 2/3 kostnaðar.

Fleiri dæmi mætti taka, sem sýna það, að engin föst regla er til um það, hvað mikinn hluta ríkissjóður leggur fram af kostnaðinum. Jeg vil beina því til hæstv. stjórnar, að hún geri grein fyrir hinum mismunandi reglum, sem gilda um þessar styrkveitingar.

Í þessu sambandi má minna á, að í sumum þessara kauptúna á ríkissjóður mikið af lóðum, sem hann hefir leigt fyrir afarlágt verð. Nefndinni er ekki grunlaust um, að mjög gamaldags taxti sje á eftirgjöldunum, og mundi ástæða fyrir hæstv. stjórn að athuga, hvort ekki væri rjett að hækka lóðagjöldin.

Loks ætla jeg að víkja örfáum orðum að síðasta lið 5. greinar, sem er styrkur til kostnaðar við mælingar og uppdrætti af kauptúnum og sjávarþorpum. Þarna stendur dálítið sjerstaklega á. Þessi liður var beinlínis feldur af fjárlagafrv. á Alþingi 1924. Það var sem sje beinn þingvilji að veita ekki fjeð. En í fyrra var þetta veitt í fjárl. 1926. Hefði ekki svo staðið á, þá hefði verið óverjandi fyrir hæstv. stjórn að taka þetta upp núna.

Um brtt. nefndarinnar þarf jeg ekki að segja nema örfá orð. 2 fyrstu brtt. stafa af því, að síðan frv. var samið, eru komnar aðrar upplýsingar og fullkomnari reikningar. 3. brtt. er um ferðastyrk til biskups. Hann er sama eðlis og hinir, og þótti nefndinni rjett að láta hann fylgjast þar með. Þá er 4. brtt., um að í 4. gr. 2 komi „lögfræðinga“ fyrir „embættismanna“, og 5. brtt. um, að í 4. gr. 3 og 4 komi „þjóðskjalavarðar“ og „Þjóðskjalasafninu“ fyrir „þjóðminjavarðar“ og „Þjóðminjasafninu“. Eru þær sjálfsagðar.