12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í C-deild Alþingistíðinda. (2379)

66. mál, skylda útgerðarmanns til að tryggja fatnað og muni lögskráðs skipverja

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það vildi svo undarlega til, að fyrir þingfund hjer í morgun voru staddir hjer menn, sem hafa orðið fyrir því óláni, að missa allan sinn fatnað og muni við strand, sem nýlega kom fyrir. Það var undarleg tilviljun, að jeg skyldi hitta þessa menn sama dag, sem þetta mál kemur hjer til 2. umr. þetta bendir á, eins og líka öllum mun vera ljóst, að það er hin mesta nauðsyn á því, að fatnaður og munir skipverja sjeu trygðir, og að samþykkja beri lög um það efni. Það mun ekki lítið, sem fer í sjóinn árlega, alt saman óvátrygt. Jeg hygg, að það muni vera sum árin upp undir 200 manns, sem fyrir tapi verða. Ef gert er ráð fyrir, að hver maður hafi að meðaltali föt og muni fyrir 500 kr., þá eru þetta ekki litlir peningar, sem þarna fara forgörðum, það mun að vísu ef til vill vera minna virði á seglskipum og mótorbátum, en aftur meira á hinum stærri skipum, sem hafa meira pláss og halda lengur út.

Samkv. 1. gr, þessara laga er gert ráð fyrir því, að útgerðarmaður gufuskips skuli skyldur til að tryggja fatnað og muni fyrir ekki lægri upphæð en 500 kr., en útgerðarmaður mótorskips og mótorbáts fyrir 400 kr. Meiri hl. sjútvn. hefir nú tekið heldur stirðlega í þetta mál og lagt til, að frv. yrði felt. En það er sýnilegt, að þetta mál verður ekki útrætt nú, þó að hv. deild fallist á það. En hv. meiri hl. sjútvn. hefir ekki viljað líta við þessu máli; ekki gera breytingar, bara fella það. Hv. frsm. (SvÓ) sagði, að ekki væri meira um þetta að segja en það, sem stendur í nál. En mjer finst vera margt hægt að segja um það. Hjer er mikið verðmæti, sem fer forgörðum árs árlega, og því mikið unnið við þessa vátryggingu. Það eru margir, sem standa uppi slyppir og snauðir, þegar þeir koma frá strandi. (MJ: Er ekki hægt að tryggja án þessara laga?). Jeg hygg, að hvorki útgerðarmenn nje skipverjar hefðu hirðu á að tryggja í hvert skifti, nema hjer kæmi lagaboð. Það er ekki nema einstaka maður svo forsjáll, að tryggilegt sje að selja mönnum sjálfdæmi um þetta. Það þykir t. d. sjálfsagt að lögbjóða, að hús skuli trygð, og fleira mætti nefna. Hv. frsm. (SvÓ) sagði, að þetta kæmi ósanngjarnlega niður á smærri útgerðinni. Það er rjett, að það er dálítið aukin útgjöld fyrir þá, en hins vegar meiri trygging fyrir þá, sem hjá þeim starfa, Jeg hygg, að flestum útgerðarmönnum þyki leitt, að skipverjar þeirra verði fyrir skaða við strönd, en það er ekki víst, að þeir geti hjálpað þeim, þótt þeir sjeu allir af vilja gerðir. Eina ráðið er að lögbjóða þetta, og jeg tel rjettara, að útgerðarmennirnir beri þennan kostnað, eins og annan kostnað af útgerðinni. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Þótt jeg geri ekki ráð fyrir því, að þetta frv. verði afgreitt nú, þá vænti jeg þess þó, að hv. deild lofi þessu frv. að fara til 3. umr.