12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í C-deild Alþingistíðinda. (2381)

66. mál, skylda útgerðarmanns til að tryggja fatnað og muni lögskráðs skipverja

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Það er rjett fyrir siða sakir, að jeg ætla að segja fáein orð í þessu máli. — Það er ekki nema von, að hv. flm. og frsm. minni hl. (JBald) kvarti undan því, að nefndin hefir lagt á móti málinu, og spyrji, hverjar ástæður eru hjá meiri hl. nefndarinnar fyrir því. En hv. flm. (JBald) veit reyndar vel, að aðalástæðan er sú, að meiri hl. vill láta hvern vera sjálfráðan um það, hvort hann tryggir eða ekki; um slíka hluti tekur því varla að tala frekar.

Hv. þm. Barð. (HK) virtist vera mjög óánægður yfir því, hvað nál. meiri hl. væri stutt, og sagði það aðeins eina línu. En jeg veit ekki, hvort hv. þm. (HK) hefði orðið nokkuð ánægðari, þótt nál. hefði verið 2–3 línur, eins og álit minni hl. er. Í þessu stutta nál. meiri hl. er nú samt sem áður sagt það, sem nefndin hafði að segja, og áleit hún ekki, að þörf væri á að eyða meiri prentsvertu í það, sem jafnlitlu skiftir og þetta. Jeg skal annars geta þess, út af till. hv. þm. Barð. (HK), um að vísa málinu til stjórnarinnar, að jeg, fyrir nefndarinnar hönd, hefi ekkert á móti því, að frv. fari þá leið, sem hann óskar, því að það er þó ekki eins og að láta það fara norður og niður, að vísa því til hennar, og getur verið betur borgið þar heldur en ef felt væri með harki og hávaða. En ákveðið er frá nefndarinnar hendi að leggja til, að málið verði felt, ef till. hv. þm. Barð, (HK) verður ekki samþykt.