12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í C-deild Alþingistíðinda. (2383)

66. mál, skylda útgerðarmanns til að tryggja fatnað og muni lögskráðs skipverja

Hákon Kristófersson:

Jeg get ekki sjeð annað en að þau atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem hann færir fyrir sínu máli, hafi verið mjög ljeleg og ekki í samræmi við þær varnir, sem sá hv. þm. (SvÓ) færir venjulega fyrir sínu máli. Jeg var ekkert að tala um það, að nál. hv. meiri hl. hefði átt að vera 2–3 línum lengra, því að jeg hefði verið ánægður með það, ef jeg hefði sjeð þar nokkrar frambærilegar ástæður fyrir því, að málið yrði felt, en jeg er óánægður yfir meðferð hv. meiri hl. á málinu, því að jeg tel það nauðsynjamál. En meðferð þess sýnir, að jafnfróður og athugull maður og hv. þm. S.-M. (SvÓ) er, hefir ekki viljað leggja neina rækt við það, en við hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) erum alveg sammála, því að við álitum báðir, að of langt sje gengið í tryggingarskyldu útgerðarmanna. Jeg álít, að þeir ættu að vera skyldir til þess að sjá um tryggingu í báðum tilfellum, en fá það greitt aftur, og þó að kannske hafi verið sýnt ranglæti í einu tilfelli, þá get jeg ekki sjeð, að ekki mætti eiga sjer stað skilgreining í hinu tilfellinu. Jeg vil fúslega laga alt, en mjer er kunnugt um, að það eru svo margir fálækir menn, sem missa alt, sem þeir hafa með sjer, þegar strand ber að höndum, en mega ekki við því. Þessvegna furðar mig á því, að hv. sjútvn. skuli hafa snúist þannig við málinu, en jeg held, að hún hafi bundið sig of mikið við það ranglæti, sem að mínu viti er orðið gagnvart útgerðarmönnum, en það er ekkert ranglæti, þó að þeim sje gert skylt að tryggja þessa muni, ef viðkomandi greiðir það aftur af kaupi sínu.