12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í C-deild Alþingistíðinda. (2385)

66. mál, skylda útgerðarmanns til að tryggja fatnað og muni lögskráðs skipverja

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg heyri, að hv. flm. (JBald) sættir sig við það, að málinu verði vísað til stjórnarinnar, en um leið vil jeg þá benda hæstv. atvrh. (MG), sem þetta mál fer til, á það, að hjer er verið að leggja ennþá eina nýja kvöð á smábátaútgerðina, sem getur munað alt að 100 kr. á bát. En ef svo stendur á, að hásetar róa fyrir hlut, þá ættu þeir að borga þetta iðgjald, að minsta kosti að hálfu. Annars er það nú svo á mótorbátum, sem eru minni en 20 smálestir, að menn hafa ekkert með sjer nema fötin, sem þeir standa i, en engin föt til skifta, svo ef mennirnir komast í land, þá hafa þeir ekkert mist, svo að þó að föt þeirra sjeu vátrygð og iðgjald greitt, og það verður sannað eftir á, að þeir hafi ekki haft neinn farangur nema fötin, sem þeir stóðu í, þá fá þeir ekkert endurgoldið. En útgerðarmaðurinn verður samt sem áður að borga iðgjald fyrir það, sem ekki var til, og er þá aðeins verið að gefa vátryggingarfjelaginu þessi iðgjöld. Annars mun mega gera ráð fyrir, að þetta iðgjald verði 5% á ári, eða á mótorbátum ekki undir 6%. Þessi vátrygging er auðvitað fyrir „total“, því að öðruvísi fæst ekki trygt. Auðvitað er líka hægt að fá vátrygt fyrir eina og eina ferð, en það mun enginn gera, því að þá yrði iðgjaldið svo miklu hærra.