12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í C-deild Alþingistíðinda. (2387)

66. mál, skylda útgerðarmanns til að tryggja fatnað og muni lögskráðs skipverja

Jón Auðunn Jónsson:

Það er auðheyrt, að þessi hv. þm. (JBald) þekkir ekkert til sjómensku, ekki nokkurn skapaðan hlut, þegar hann segir, að það sje ömurlegt líf, ef menn hafa ekki með sjer fatnað fyrir 400 kr., eða heldur hv. þm. (JBald), að menn hafi svo gott pláss, að þeir geti haft með sjer slíka muni í opnum bátum fyrir þessa upphæð, þegar menn fara í róður og koma aftur eftir nokkrar klukkustundir. Þannig er það að minsta kosti á bátum við Ísafjarðardjúp, menn fara í róðra og hafa ekki með sjer föt fyrir 400 kr. Og það er heimska ein að skylda menn til þess að vátryggja það, sem ekki er til, og hásetarnir fá ekki einn einasta eyri meira fyrir því. En þetta á við um smábátana, og jeg hygg, að fyrir gufuskipin sje 800 kr. alt of hátt líka, það mundu aldrei fást greiddar slíkar bætur. Jeg geri ráð fyrir, að hásetar hafi með sjer ein nærföt og eitthvað smávegis annað, svo að þeir hafa kannske með sjer fyrir 400 kr. í hæsta lagi, en þar má ekki vátryggja fyrir lægra en 800 kr., þó að þeir hafi ekki meira með sjer en þetta. Og þetta eiga útgerðarfjelögin að borga fyrir það, sem ekki er til. En jeg vil nú benda hv. þm. (JBald) á, að það er hrein og bein sviksemi, ef jeg vátryggi hlut fyrir fimmfalt hærra verð en verðmæti hans er, og hv. þm. ætlar þó víst ekki að láta útgerðarmenn smábátanna bera það úr býtum, að þeir verði fyrst fyrir því að greiða iðgjöldin og svo á eftir dæmdir fyrir svik. Hjer er að vísu ekki talað um að tryggja fyrir nema 400 kr., en það er líka bersýnilega of mikið, því að það kemur engum til góðs nema vátryggingarfjelögunum, og er að eins til að reyna að ná þessum aurum frá smábátaútgerðinni, sem reyndar eru ekki til, og væri þá betra að hafa annað form til þess. Jeg held líka, að hv. þm. (JBald) hefði verið nær að gera ekki sitt til að drepa það frv., sem jeg flutti í fyrra um stórmiklar réttarbætur til handa sjómönnum, og jeg held, að það hefði verið meira í þarfir sjómannastjettarinnar að gera það ekki.