19.04.1926
Neðri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

6. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

það hefir stundum tekist betur til, þegar máli hefir verið vísað til stjórnar, en í þetta skifti. Á síðasta þingi var því vísað til stjórnarinnar, með von um, að það kæmi ekki fram aftur. Það hefir þá verið borið fram enn einu sinni og fær þá hinar sömu viðtökur og áður, að undir eins og byrjað er að ræða það, rjúka flestir þdm. út úr salnum. Áhuginn fyrir þessu menningarmáli er ekki meiri en þetta. Mjer er óskiljanlegt, hve langlíft frv. er orðið, og það hlýtur að standa í sambandi við eitthvað, sem ekki er vert að tala um nema í hálfum hljóðum.

Svo sem hv. frsm. meiri hl. (MJ) sagði, eru tvö höfuðatriði frv. þessa: latínukensla í ríkum mæli og óskiftur skóli. Hv. frsm. (MJ) ljet í veðri vaka, að það væri ekki aðalatriði fyrir sjer, að fá latínukenslu aukna. Öðru vísi mjer áður brá. Jeg veit ekki betur en að upphaflega hafi átt að auka latínukenslu um helming, eða jafnvel þrefalt. Nú eru orðin endaskifti á þessu. Þjónar latínunnar segja nú, að sjer standi á sama um hana, bara að skólinn verði óskiftur. Þannig hafa þeir þá flúið úr öðru aðalvígi sínu, og jeg býst við, að þess verði ekki langt að bíða, að hitt verði líka yfirgefið.

Jeg skal þá fyrst halda mjer við latínuna. Hv. frsm. (MJ) sagði, að hún væri ekkert aðalatriði, En hvernig var þetta á þinginu í fyrra? Heimtuðu latínumennirnir ekki þá að fá latínu til inntökuprófs? Mjer skildist svo á hv. þm. Dala. (BJ) þá, að alt væri ónýtt, ef latína væri eigi við inntökupróf. — Það má auðvitað bera fyrir sig umsagnir gamalla og gáfaðra manna um það, að latínan hafi reynst þeim gott meðal til þess að temja hugann. En það er ekki leitast við að fá dóm þeirra manna, sem lotið hafa nýja skipulaginu. Ef þeir væru orðnir nógu gamlir, mundu svör þeirra hin sömu um námsefni þeirra. Óánægjan er í rauninni önnur en út af námsefni. Meðal eldri manna er óáægja út af því, að yngri stúdentar viti ekki sumt, sem þeir eldri viti. En eftir hinu er ekki tekið, að hinir yngri stúdentar vita margt, sem hinir vita ekki. Úthaf þekkingarinnar er svo stórt, að eigi er við öðru að búast en að aflað verði sundurleitrar þekkingar, og ekki geti allir vitað alt, eða eitt og hið sama. Námskröfurnar breytast óðum, og það, sem áhersla er lögð á nú, hverfur síðar í myrkur sögunnar, en annað kemur í staðinn, það væri tákn dauða en ekki lífs, ef slíkar breytingar ættu sjer ekki stað hjá okkur. Það var engin stundaræsing, sem olli því, að latínunni var spyrnt burtu úr Mentaskólanum. Það var rótgróin óánægja, áratuga gömul, sem hún fjell fyrir. Og slíkar eikur sem hún falla ekki fyrir vindhöggum. Ríki latínunnar var mikið á miðöldunum. En það eru axarhögg nýrri alda, sem hafa felt hana, og rutt henni úr öndveginu.

Lærðustu latínumenn um aldamótin færðu ekki önnur rök gegn nýja fyrirkomulaginu en þetta: Við verðum að bíða eftir Dönum, þar sem við sækjum háskóla til þeirra. — Í Danmörku komst svo hið nýja fyrirkomulag á mótstöðulítið, fyrir góðra manna aðstoð. Á þeim tímum var heldur eigi neinn ljómi yfir latínunni, enda þótt nú bláni yfir henni í augum einstaka manns, þegar hún er komin 20 ár aftur í tímann. Björn M. Olsen sagði um aldamótin, að þá væri enginn stúdent, er hefði svo mikið vald yfir latínunni, að geta lesið hana, skrifað eða talað lýtalaust án þeirrar fyrirhafnar, sem enginn leggur á sig nema próf vofi yfir.

Þá vil jeg minna á, hvað Guðm. G. Bárðarson segir nýlega í ágætri grein í einu Akureyrarblaðinu:

„Þegar í Latínuskólann kom, og margar aðrar námsgreinar kölluðu að, skifti nokkuð um skreið með latínunámið hjá flestum nemendum. Menn fóru að slá slöku við latínuna og leggja meiri alúð við önnur mál eða aðrar námsgreinar, er þeir fundu, að sjer voru til meiri frambúðarnota. Flestir reyndu að komast yfir latínunámið með sem ljettustu móti, aðeins svo að þeir gætu flotið við prófin. Við lesturinn voru þýðingar stöðugt notaðar, fyrst lesin þýðingin, síðan latneski textinn, og reynt að fella saman merkingu latnesku orðanna. Dæmi voru til þess, að menn lærðu kafla úr þýðingunum, eða rituðu milli lína í lesbókunum þýðingar ýmsra orða. Við stílana voru stöðugt notaðar orðabækur, því að mjög fáir fengu það vald á málinu, að þeir gætu að nokkru gagni bjargað sjer sjálfir.

Það var hreinasta undantekning, að nokkur nemandi liti í nokkra latneska bók aðra en námsbækurnar. — En í nýju málunum (t. d. ensku, þýsku o. fl.) lásu allmargir nemendur ýmsar bækur utan við námið, til að afla sjer meiri æfingar.

Fornmálanámið var af flestum aðeins stundað vegna prófanna, en eigi af áhuga fyrir námsgreininni, eða með þeirri trú, að námið kæmi þeim að notum ....“

Jeg skal ekki lesa meira upp úr greininni, en samskonar lýsingu hefi jeg oft heyrt hjá eldri mönnum, sem jeg hefi átt tal við. Þetta er sjálfsagt sönn lýsing, enda má sjá það á Þingtíðindum og blaðagreinum frá þeim tíma. Og vilji menn vita sannleikann í þessu máli, þá er best fyrir þá að leita fróðleiks þar, en ekki að fara eftir því, sem gamlir menn segja nú, er undrast, hvað alt hafi verið gott í sínu ungdæmi, og blöskrar, hvað tímunum fari hnignandi.

Latínan var voldug, og það er von, að ýmsir renni huga til þess. Um eitt skeið var hún heimsmál í vísindum, eða alt fram á síðustu öld, en veg hennar fór stöðugt hnignandi, einkum í germönskum löndum, eftir að Lúther hafði gert mál þjóðanna að kirkjumáli. Mjer þykir því hv. frsm. (MJ) vera orðinn nokkuð ólútherskur, að vilja gera latínuna að sáluhjálparskilyrði fyrir æðri mentun hjer á landi.

Sumt er rjett, sem latínumenn telja henni til gildis. En það eru fleiri námsgreinir, sem hafa mikla kosti til að bera, og mestu uppeldisfræðingar segja, að aðrar námsgreinir þroski betur eftirtekt og skilning manna, svo sem saga og náttúrufræði.

Eins og hv. frsm. (MJ) hafði eftir mjer, þá er latínan ekki lengur gagnfræði, og á því fjell hún. Annars mundi hún lifa góðu lifi enn. Margar þær námsgreinar, sem eru nauðsynlegar og gagnlegar, eru um leið ágætar til þess að þjálfa nemendurna. Latínan væri ekkert verri fyrir það, þótt hún væri notuð til þess að skrifa verslunarbrjef á henni, En þetta gagnsleysi latínunnar er svo stórt atriði, að hún hefir einmitt fallið á því.

Latína, gríska og guðfræði voru um eitt skeið aðalgreinar latínuskólanna. Nú er hin skólastíska guðfræði gleymd, grískan fallin, en latínan situr eftir. Er ekki jafnmikil ástæða til að taka upp grískuna og latínuna? Hún hefir og mikla kosti. Það er sami munurinn á grísku og latínu og á Grikkjum og Rómverjum. Rómverjar voru voldug þjóð og sköruðu sjerstaklega fram úr í stjórnsemi. Grikkir voru aftur á móti hámentaðir og hin göfugasta menningarþjóð, og samt kemur ekki upp nein krafa um að taka tungu þeirra upp í mentaskólanum. Annars má sjá á forlögum grískunnar, hvaða leið latínan muni loks fara. Er hún þó á eftirlaunum ennþá, sem fylgismenn hennar ættu að geta sætt sig við, og höfum við aldrei lagt til, að þau eftirlaun yrðu af henni tekin.

Það er að vísu ekki rjett að telja latínuna gagnslausa, heldur gagnslitla. Það er gagn að þeirri latínukenslu, sem nú er í skólanum, en það er líka alls ekki þörf meiri latínukenslu. Það er til vottorð frá aðalfrumherja þessa máls, hv. þm. Dala. (BJ) um það, að latínukunnátta yngri stúdenta sje prýðileg. þó hygg jeg, að latínukunnátta stúdenta væri betri, ef allur tíminn væri notaður til þess að lesa „prosa“, en slept „poesi“, án þess þó að fjölga þyrfti tímum. Það má þannig gera latínunámið gagnlegra en það nú er. Og svo er fyrir þakkandi, að latínan er ekki eina námsgreinin, sem veitt getur andlegan þroska. Og ef hún stendur fremst þar, þá er máttur hennar þó af skornum skamti, því að í greinargerð frv., sem samin er af latínulærðum mönnum, stendur: „Kendu menn þetta ónógum latínulærdómi í skóla og einkum þó tvískiftingu skólans í gagnfræðadeild og lærdómsdeild; stúdentar fengju á þennan hátt í raun og veru ekki nema 3ja ára undirbúning undir háskólanám sitt, því að gagnfræðadeildin legði aðeins áherslu á þær námsgreinar, er að hagnýtu gagni mætti verða síðar í lífinu.“

Svona hlutum þarf ekki að svara. Það vita allir, að stúdentar fá 6 ára undirbúning undir háskólanám sitt, en á annan hátt en áður, því að gagnfræðadeildin leggur áherslu á gagnlegu námsgreinarnar; og svo koma þessi fyrirlitlegu ummæli um gagnlegu greinarnar. Það er eins og nemendur eigi ekki að læra neinar gagnlegar námsgreinar. Stúdentaskólar eiga ekki eingöngu að vera undirbúningsskólar undir háskóla, heldur sjálfstæðir skólar, sem kenna margt af því hagnýtá fyrir lífið, sem háskólarnir komast ekki yfir.

Svo skal jeg lesa síðustu setninguna: „En legði ekki áherslu á það, sem vera ætti aðalatriðið, að skerpa skilning nemenda og kenna þeim rökfastar hugsanir.“ — Eins og margtekið hefir verið fram, þá skerpir hagnýt námsgrein alveg eins skilninginn og hinar, sem óhagnýtar eru og geta „kent“ nemendunum „rökfastar hugsanir“. En hver sem sá latínulærði er, sem greinargerð frv. hefir samið, þá talar hann um að „kenna rökfastar hugsanir“. Jeg býst við því, að átt sje við það, að temja hugsun nemendanna. Jeg geri nú ráð fyrir því, að ef þessi skerpa, sem kemur fram í þessu orðalagi, að kenna hugsanir, stafar frá gömlu málunum, þá verði nýju málin fult eins hlutskörp og standi fult eins vel að vígi og latínan.

En höfuðatriði alls uppeldis er að temja unglingum rökfasta hugsun og veita þeim andlegan þroska. En sem betur fer hefir latínan enga einokun á því að veita þennan þroska. En nú á að fara að veita henni eitthvert einkaleyfi til þess, og jeg þori að fullyrða, að einasta landið í Norðurálfunni, þar sem talað er um að auka latínuna stórum, er Ísland. Hjer, og hvergi annarsstaðar, er þessi undarlega hreyfing uppi og ætlar sjer að sigra á Alþingi.

Jeg er nú einn af þeim, sem er svo ósvífinn að fullyrða, að hinir yngri stúdentar sjeu eins vel þroskaðir og hinir eldri. Jeg býst við, að einhverjir hinna eldri stúdenta verði hissa, þegar þetta kemur, þvert ofan í margendurtekið tal þeirra um þroskaleysi yngri stúdentanna, verði hissa, þegar þeir heyra sannleikann. Nei, deildaskiftingin hefir yfirleitt gefist vel, og stúdentar eru yfirleitt eins vel þroskaðir nú og áður, nema hvað þeir eru nú yfirleitt yngri og hafa þar af leiðandi ekki tekið út eins mikinn aldursþroska og eldri stúdentarnir á sinni tíð. Það hafa ekki farið fram neinar rannsóknir á árangri kenslunnar fyr og nú, sem staðið geti á bak við þessa hreyfingu. Það er ekki um neitt slíkt að ræða, sem veldur því, að þetta mál er borið fram. Það er aðeins gamli tónn Gyðinganna, að þessi lýður, sem ekki þekkir lögmálið, sje bölvaður. Sá er aðeins munurinn, að latínan er komin í stað lögmálsins, og að sá lýður, sem ekki kann hana, sje bölvaður.

Jeg gat þess áðan, að ágætir uppeldisfræðingar halda því fram, að námsgreinar, svo sem náttúrufræði og saga, sjeu eins vænlegar til andlegs þroska og rökrjettrar hugsunar eins og latínan, og jeg vil bæta því við, að ef tungumál hafa eins mikil þroskaáhrif og af er látið, þá er jeg alveg viss um það, að stúdentar fá allan þann þroska, sem af tungumálum getur leitt, með því fyrirkomulagi, sem nú er, og fái þeir ekki nægan þroska af öllum þeim málum, sem í skólanum eru kend, þá er þó vissulega ekki á bætandi. Latínuna þarf því ekki að auka, og meðal annars vegna þess, að sumar hinna námsgreinanna, þótt ekki geri þær eins háværar kröfur, búa við þröng kjör.

Og ef einhver tími væri afgangs, ætti að verja honum til hagnýtra námsgreina, sem hafa of lítinn stundafjölda. Það eru fleiri námsgreinar en latínan, sem verða að lúta að litlu, hvað stundafjöldann snertir. En sem fyrverandi drotning í heimi andans er hún drambsöm og vill ekki lúta að litlu. Vona jeg því, að kennarar hinna námsgreinanna segi til sín og láti vita óskir sínar um aukinn stundafjölda í sínum námsgreinum, til þess að halda latínunni í skefjum. Þetta með latínuna var og er enn annað aðalatriði þessa máls, þegar þess er gætt, að höfuðstefna frv. byggist á henni. Annars er yfirleitt lítið farið inn á „pædagogisk“ atriði í því, enda á ekki svo að vera í almennum lögum, því að best fer á því, að þau sjeu stutt og einungis tekin aðalatriðin. En í 3. og 7. gr. eru þó ákvæði um, að latínan skuli vera önnur aðalnámsgreinin í neðstu bekkjum skólans og hafa meiri stundafjölda en allar aðrar námsgreinar samanlagðar, svo latínan er ekki lengur neitt aukaatriði í breytingu skólans, eins og hv. frsm. meiri hl. (MJ) hjelt fram, þótt svo hafi verið látið í veðri vaka, nema hún sje orðin það nú eða kunni að verða það.

Annað aðalatriði frv. er að hafa skólann óskiftan. Fylgjendur „lærða“ skólans hafa talað um töf og tvíverknað við að hafa gagnfræðapróf og tvískiftingu, og þeir hafa bent á það, að milliþinganefndin í mentamálum hafði komist að þeirri niðurstöðu, að tvískiftingin hefði í för með sjer árs töf fyrir nemendurna. Jeg vil nú segja það, að nefndin hafði alls ekki athugað þetta vandlega, þetta er aðeins illa rökstuddur dómur, og hefði milliþinganefndin athugað þetta vel og sýnt fram á, að þessu væri svona farið, hefði hv. frsm. meiri hl. (MJ) átt að geta borið fram einhver rök hjer í þessari hv. deild á móti tvískifta skólanum. Það er þá komið á daginn, að þetta aðalvígi, óskifti skólinn, er ekki víggirt, það er eftir að gera það, og það þarf að gera það, til þess að latínumennirnir geti hafst þar við. En það tekur sennilega 3–4 næstu þing, að safna efni og ástæðum, svo að best mun vera að bíða með þetta mál, þangað til það er alt komið í kring.

Annars er það einkennilegt, að mentamálanefndin skyldi komast að þessari niðurstöðu, að „vel athuguðu máli“, eins og hún segir, þegar það er athugað, að sænska mentamálanefndin, sem gefið hefir út mjög myndarlegt nál. upp á 800 bls., minnist ekki einu orði á það, að tvískiftingin sje þetta mikla aðalmein stúdentsmentunarinnar. Hjer tala menn svo mikið um tvískiftinguna, að þeir telja mentaskólann næstum því 2 skóla, og að það sje eins og unglingarnir sjeu að klofa yfir einhverja gjá, þegar þeir fara milli deildanna. Það er merkilegt, að ein mesta mentaþjóð heimsins, Svíar, skuli ekki hafa uppgötvað þessa bölvun. Og niðurstaða dönsku mentamálanefndarinnar er sú, að 2/3 nefndarmanna reka ekki augun í þessa bölvun. Í Danmörku er mentamálin á alveg hörmulegu stigi frá sjónarmiði latínudýrkenda, því þar eru allir mentaskólar tvískiftir, einir 50 af 1000 ganga í fornmentadeildirnar, 450 læra ekkert meira í latínu en við, og hinir, sem eftir eru, læra ekkert í henni og stunda þó örðugt háskóla- og vísindanám. Niðurstaðan hefir því ekki orðið sú í Danmörku, að þeir hugsi til að afnema tvískiftinguna. Um Noreg veit jeg ekki ennþá, því að norska mentamálanefndin hefir ekki skilað áliti sínu, en það er að sjá af norskum blöðum, að tilgangslaust muni að leita þar stuðnings við óskiftan skóla.

Þá hafa verið notuð þau rök fyrir óskiftum skóla, að þar sje betra að koma námsgreinunum fyrir, og að skiftingin valdi í því efni sjerstökum erfiðleikum. Er þá vanalega vitnað í sögukensluna og sagt, að hana sje ómögulegt að kenna í tvískiftum skóla, í barnaskólum sje kent stutt yfirlit, svo sje kent helmingi stærra yfirlit í gagnfræðadeildinni og loks enn stærri saga í lærdómsdeild. Þetta sje eins og hvert eggið utan yfir öðru. Þá skyldi maður ætla, að í óskiftum skóla yrði að taka svo stórt heildarágrip, að það nægði allan skólatímann. En jeg veit það, að svo er hvergi hagað sögukenslu, heldur er henni hagað eftir þroska nemendanna, og í barnaskólum er ekki kend saga, heldur sögur. Svo þegar unglingarnir fara að venjast óhlutkendri hugsun, um fermingaraldurinn, er hentugast að hafa gott söguyfirlit, sem ljúka má í 3 bekkjum, stærra yfirlit þarf ekki. Þegar svo er komið í lærdómsdeild, má fara að gefa sig við einhverri ákveðinni grein sögunnar, taka ákveðið tímabil hennar til rannsóknar og einhvern ákveðinn þátt hennar til þess að kryfja til mergjar. Þannig eru miklir möguleikar til þess að koma fyrir sögukenslunni, og veldur það engum örðugleikum, heldur getur tvískiftingin einmitt veitt nemendunum mikla hjálp við námið. Svona er nú um þessa aðalnámsgrein, sem fylgjendur þessa máls segja, að valdi töfum og geri tvískiftinguna ótæka.

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) lagði áherslu á það, að 4. bekkur væri of þungur. Jeg get fallist á það, og það má laga. Það þyrfti t. d. ekki annað en flytja þýskuna í 3. bekk. Enda er hún gagnfræðanámsgrein, sem heppilegt væri að gagnfræðingar fengju kenslu í til þess að geta komist af stað í málinu og notfært sjer síðar með ástundun, ef ekki væri lengra haldið en til gagnfræðaprófs. Jeg þekki mann, sem ekki hefir gengið á neinn skóla, en varð mjög vel að sjer í þýsku eftir eins árs tilsögn. Auk þess er þýskan kend þannig í skólanum, að á 1. ári er tekin bók, sem er alveg heild út af fyrir sig, bók, sem getur vel staðist, þótt ekkert komi á eftir, svo að það er auðsætt, að ef þýskan er tekin í 3. bekk, þá veldur skiftingin alls engum örðugleikum. Sá maður, sem fastast hefir haldið fram óskiftum skóla, Jón Ófeigsson, hefir kent þýskuna með þeim hætti, að fyrsta árs námið getur orðið að góðu gagni, þó þá sje hætt skólanámi. Enda vita allir, að í hverri námsgrein er jafnan byrjað á sjálfstæðu heildaryfirliti, og það kemur skýrt fram hjá kennurum stærðfræðisdeildarinnar í brjefi því, sem fylgir nál. minni hl., að fyrst megi byrja á yfirliti og að raða megi svo námsgreinunum, að tvískiftingin geri ekkert tjón.

Önnur ástæða, sem hampað er mjög, er munurinn á vísindanámi og gagnfræðanámi, sem fylgjendur þessa máls segja, að sje fyrir lífið, en vísindanámið sje alt annað. Manni virðist eins og verið sje að tala um annan heim. Jeg þekki ekki þessa skiftingu. Því hefir verið margneitað, að til sje nokkur skifting í gagnfræði og „stúdentafræði“. Það er að vísu sá munur á náminu, að hið síðara er lengra. En það er enginn eðlismunur á því, heldur aðeins stigmunur Stúdentaprófið er gagnfræðapróf, sem háskólinn heimtar áður en hann tekur við nemöndunum. Og þýðir því ekki að benda á slíkt; það er alveg til ónýtis. Meginið af náminu er miðað við þarfir vors þjóðfjelags og þeirrar menningar, sem vjer eigum við að bíta. Alt skólanám er að mestu leyti gagnfræðanám. Sjálf vísindin eru gagnfræði. Jeg veit ekki betur en embættismennirnir, prestar, læknar og lögfræðingar verði að afloknu námi að koma út í lífið og sýna, hvað þeir geta gert og afrekað með því gagnfræðanámi, sem háskólinn hefir veitt þeim. Annars hefir þjóðfjelagið ekkert við þá að gera. Þetta eru menn, sem eiga að þjóna sínum verkefnum hjá þjóðfjelaginu, alveg eins og sjómaðurinn og bóndinn, og er þar á enginn eðlismunur. Munurinn er aðeins sá, að þeir þurfa lengri námstíma.

Menn eiga ekki að rugla þessu skólanámi saman við hin sönnu vísindi og þá menn, sem stiga ný spor í átt fram fara og fullkomnunar og kippa mannkyninu áfram. Og það verðum við að játa, að í skólunum mun aldrei hægt að „fabrikera“ þau vísindi, sem hrinda þjóðunum áfram og ryðja brautina upp á við til hæða hinnar fullkomnu þekkingar: Slík vísindi finnast aldrei í latneskum skræðum og óskiftum skóla.

Röksemdirnar um eðlismuninn á gagnfræða- og vísindanámi hafa ekki við neitt að styðjast. Og einn helsti stuðningsmaður þessa frv., Jón Ófeigsson kennari, hefir einmitt sýnt það með till., sem hann hefir komið fram með, að hjer er um engan eðlismun að ræða. Till. hans fer í þá átt, að bæta námskeiðunum við gagnfræðaskólana. Hjer er því enginn eðlismunur, en vantar aðeins eitthvað, sem bæta þarf við. En það væri ekki hægt, ef eðlismunur væri á. Í till. er þessvegna fólgin skýlaus viðurkenning á því, að um engan eðlismun sje að ræða í milli gagnfræðinga og logagyltra latínumanna. En till. þessi er nú ekki svo ítarlega framsett, að hægt sje að byggja að svo komnu löggjöf á henni. Jeg á líkt bágt með að skilja, hvernig hægt sje að setja þessi námsskeið við hlið ársskólanna. Það verður örðugt að gera hjer hæfar kenslubækur og samrýma þetta nám skólanáminu í heild sinni. Hitt væri betra, að hafa ekki þessi námskeið samhliða hinu náminu, heldur að vorinu, er aðrir hafa lokið námi sínu, en þó ekki svo löng, að það skerði tíma þann, er nemendur hafa til þess að vinna fyrir sjer. Jeg tel það einn besta kostinn á uppeldis- og skólamálum vorum, hve unga fólkið stendur í nánu sambandi við atvinnulíf þjóðarinnar, og að atvinnulífið er þannig, að námsfólkið hefir, svo að segja, nóg að gera að sumrinu. Þetta eru kostir, sem svo margar aðrar þjóðir ekki hafa, þar á meðal nágrannaþjóðir vorar, og kvarta sáran yfir. Öfunda þær okkur mjög af þessu og hafa leitað að tilbúinni uppbót hjer á, en það hefir lítið gagnað. Ætti því ekki að vera að lengja námstímann og takmarka þannig möguleikana fyrir skólafólkið, að geta unnið, og fyrir atvinnuvegina, að hafa gagn af því. Þetta er hlutur, sem er miklu meira virði en óskiftur skóli, miklu meira virði en latína, þótt kend væri jafnvel í barnaskóla. En latínan finst mönnum sjálfsögð eins og andrúmsloftið, en gæta ekki að því, að þeir eru að berjast hjer fyrir hjegóma, lengst aftan úr öldum, aðeins til þess að borðaleggja kolla vissrar stjettar í landinu.

Það eru ekki gallar eða kostir gagnfræðaprófsins, sem eitra hið æðra uppeldi, og það er alls ekki hjer, sem þarf að endurbæta: Hjer má alt standa eins og það er. En það gægist fram í frv. á tveim stöðum, hvar skórinn kreppir að. Það er þar, sem talað er um íþróttir í skólanum og heimavistir fyrir nemendur, sjerstaklega fyrir þá, sem eru utan af landi. Þessi ákvæði benda í rjetta átt og sýna, hvernig mentaskólar eiga að vera. En hvað snertir leikfimina, þá er það aðeins reglugerðaratriði, og má breyta því án þess leitað sje til þingsins. En um hitt atriðið, heimavistina, vil jeg taka það fram, að jeg skal eindregið styðja að því, að hún komist upp, t. d. með styrk á fjárlögunum. Vildi jeg óska þess, ef frv. verður ekki afgreitt, að stjórnin sjái um það, að þessir kostir frv. verði varðveittir. Jeg vil vona, að fylgi þeirra manna, sem ekki hafa talað við umr. um þetta mál, en rjett hafa upp höndina því til stuðning, sje svo heilt, að þeir fylgi einnig, þegar til fjárveitinga kemur.

Það kom fyrir einkennilegt atvik við umr. fjárlaganna um daginn. Svo er mál með vexti, að meiri hl. mentmn. flutti till. um uppbót til tveggja tímakennara við Mentaskólann, sem búa við lítið kaup. Var till. þessi bygð á hinni mestu sanngirni, þar sem hjer var um ágæta kennara að ræða, sem skólinn vill og þarf að halda í. Var farið fram á, að þeir hefðu sama kaup yfir sumarið, og nam upphæðin 2200 kr. Gekk till. í líka átt og höfuðbreytingar frv., sem sje að fjölga föstum kennurum. Hefir rektor mentaskólans talist svo til, að ef frv. verður samþykt, þurfi að bæta við 7 fastakennurum. Vitanlegt er það, að rektor hefir enga von um, að aðsókn að skólanum minki. Þar við bætist, að sökum ákvæðisins um frí 10. hvert ár, mun enn þurfa tvo fasta kennara. Þarf þannig, ef frv. verður samþ., 9 fasta kennara í stað stundakennaranna. Till. um launauppbót til þessara tveggja stundakennara var feld, eins og menn muna, og það með atkv. þeirra manna, sem frv. þetta styðja. Þótti þetta einkennilegt mjög, og sýnir, að hjer er ekki um latínudýrkendur að ræða og ekki um trú á óskiftan lærðan skóla, heldur um naglaskap, þar sem menn vildu ekki veita 2200 kr. til tímakennaranna í rjettlætisskyni. Hvaða samræmi er í þessu, að fella 2000 kr. tillögu, en samþykkja útgjöld, sem nema tugum þúsunda? Ætli ástæðan sje ekki sú, að þessir sömu þm. viti ekki, hverju þeir sjeu að fylgja, en lifi í þeirri óljósu von, að þeir sjeu að draga úr stúdentaviðkomunni. Það er einkennilegt, að þeir þm., sem fella þessa sanngirniskröfu, skuli nú greiða frv. atkv., sem fer fram á miklu meira. Munum við því koma með till. aftur, þegar fjárlögin koma til einnar umr. hjer í deildinni. Menn verða búnir að átta sig betur á henni.

Jeg var að tala um heimavistina og leikfimina. Og það er skoðun mín, að það varðar oss miklu meira en alt þetta latínunám og málfræðisstagl, sem verið er að seilast eftir. Það er einmitt skólalífið, sem eykur þrótt unglinganna og þjálfar þá og kemur að gagni í lífinu. Það er ekki þjálfun málfræðinnar, heldur þjálfun hins heilbrigða skólalífs, sem gerir oss að meiri mönnum, gerir oss betri og lyftir oss á hærra stig. — Við eigum ekki að fara til Þýskalands, til þess að vita, hve marga latínutíma við eigum að hafa, heldur til Englands, og athuga, hvernig börn hins breska heimsveldis eru alin upp við íþróttir.

Jeg vil benda mönnum á, að það eru íþróttirnar, sem styðja að því, að koma skólalífinu í það horf, sem farsælast er, og þær stuðla að því að gera mennina þróttmikla, framkvæmdarsama, sjálfstæða og drengi góða.

Jeg hefi nú talað lengur en jeg bjóst við að gera. En jeg vil þó að endingu spyrja stuðningsmenn þessa máls, hversvegna þeir vilji fara að breyta um nafn á skólanum og leggja niður orðið mentaskóli. Þó er þetta hið virðulegasta „pædagogiska“nafn,sem hægt er að velja nokkurum skóla. Hv. stuðningsmenn frv. segja, að fræðslan sje ekki aðalatriðið, en þó vilja þeir fara að breyta um nafn og taka upp annað, sem minnir á lærdóm. þeir segja, að latínan eigi að kenna. mönnum að hugsa skýrt og rökrjett.

Samt taka þeir upp svo órökrjett heiti, sem lærður skóli er. Ekki getur skólinn verið lærður! Jeg geri ekki ráð fyrir, að það sje þessi tegund skýrleika eða dómgreindar, sem felst í orðinu lærður skóli, er ala á hina ungu stúdenta framtíðarinnar upp í. Heitinu mentaskóli á að halda, það er í miklu betra samræmi við það, sem frömuðir þess máls vilja. Hitt nafnið bendir til, að menn vilji koma á aftur þeirri stjettaskiftingu, sem einu sinni var, þegar hinir lærðu menn voru yfirstjettin, en leikmennirnir undirstjettin. En sje svo, að menn vilji fá hjer aftur stjett lærðra manna, verður aldrei úr því bætt með latínuskóla. Hv. þm. verða að gera sjer það ljóst, að ekki er hægt að fara með þjóðlíf vort aftur í tímann, Rás viðburðanna verður að halda farvegi sínum. Menn stöðva ekki Dettifoss með litlafingrinum. Og eins má segja um þetta. Hjól tímans verður aldrei stöðvað með lögum frá Alþingi.

Núverandi fyrirkomulag Mentaskólaus er í fullu samræmi við okkar tíma og við komandi ár. Þessvegna ljæ jeg lið mitt til þess, að fella þau höfuðatriði, sem hjer hefir verið talað um, sem sje það, að auka latínunámið og fella niður tvískiftinguna. Frv. er „reaktion“, útsog. Og þingið verður að gæta sín, að fylgja ekki með í því útsogi. Þá stendur það gegn þróuninni, sem er að sigra og hlýtur að sigra. En ef frv. verður felt nú, mun því ekki skjóta upp aftur.