27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

1. mál, fjárlög 1927

Halldór Stefánsson:

Jeg tel, eins og fleiri, að fyrsta og ríkasta skylda þingsins sje að byggja upp trausta fjárhagslega heild. Því ríkari ætti ábyrgðartilfinning þjóðarfulltrúanna að vera fyrir þessum skyldum, sem land vort og þjóðfjelag er minna en flest önnur og hin ytri skilyrðin ómildari en víðast annarsstaðar. Fjárhagslegt sjálfstæði er sá grundvöllur, sem alt þjóðlífið verður að byggja á. En fjárhagssjálfstæðið verður aftur að byggjast á fjárhagsmætti einstaklinganna, og þeirra hagur aftur á því, sem náttúrufar og önnur ytri skilyrði — náttúrleg og tilbúin — leyfa. Af þessum ástæðum er það auðsætt, að leggja verður áherslu á alt það, sem bætir hin ytri skilyrði og gerir land vort betra og byggilegra, og alt það, sem styður einstaklinginn í lífsbaráttunni og samkepnisbaráttunni, ekki eingöngu innanlands, heldur og við einstaklinga annara landa, því að samkepni einstaklinganna innbyrðis er nú harðari en nokkru sinni áður, orðin alþjóðleg, og þá er auðsætt, að því ver stöndum við í þeirri baráttu, sem náttúrufar lands vors er hrjóstrugra en flestra annara menningarlanda. Nú vitum við, að alt, sem viðkemur umbótum, er skemur á veg komið hjá oss en öðrum, og nefni jeg þar til einkum alt, er að samgöngum innanlands lýtur og ræktun landsins. Með þetta fyrir augum hættir mjer við að líta á hinar einstöku tillögur til fjárframlaga, og tel jeg; að verklegar umbætur verði að sitja þar í fyrirrúmi. Ef hægt er að gera ytri skilyrðin góð, þá er jeg ekki hræddur um, að ekki þróist hin innri, og þá verður miklu rýmra um framlög til alls þess, sem mönnum leikur hugur á.

Eftir þennan formála ætla jeg að minnast svolítið á sumar þær brtt., sem jeg er við riðinn hjer.

Fyrsta brtt., sem jeg ætla að minnast á, er X. brtt. á þskj. 230; fer hún fram á það, að hækkað verði framlagið til Hróarstunguvegarins úr 20 þús. kr. upp í 27500 kr. Á þingmálafundi, sem haldinn var þarna um slóðir, fengum við þm. N.-M. áskorun um að fá lagt svo mikið til vegarins, að hann gæti orðið fullgerður á 2 árum. Samkvæmt skýrslu vegamálastjóra eru ólagðir af veginum rúmir 9 km., og er áætlað, að það kosti 70 þús. kr. að fullgera hann. Í gildandi fjárlögum eru veittar til þessa 15 þús. kr. Þá eru eftir 55 þús., en upphæð sú, sem hjer um ræðir, er helmingurinn af því.

Við þm. N.-M. höfum rætt um þetta við vegamálastjóra, og hann hefir viðurkent, að seint hafi gengið vegagerð þessi. Fyrir rás viðburðanna hefir vegagerðin gengið seinna en þingið hefir ætlast til. Það eru nú meira en 10 ár síðan byrjað var á verkinu, og því til sönnunar, að seinna hafi sóst verkið en til var ætlast, vil jeg geta þess, að alls er búið að veita til þessa vegar 116 þús. kr. í fjárlögum, en ekki hefir verið unnið fyrir meira en 43500 kr. Ástæðan til þess er sú, að stundum hafa alveg fallið niður framkvæmdir, stundum að nokkru, af hvaða ástæðum, læt jeg ósagt. Ef unnið hefði verið það sem þingið hefir ætlast til, væri vegurinn nú fullgerður.

Eins og getið er um í nál. fjvn., bárum við þetta mál undir hana, og tók hún því að vissu leyti vel, en í tillögum sínum miðar hún við, að veginum verði lokið á 3 árum, og með tilliti til þess hækkar hún fjárveitingu stjfrv. úr 15 þús. kr. upp í 20 þús. kr., en með það getum við ekki verið ánægðir og berum því fram þessa till., sem miðar við, að vegurinn að Fossvöllum verði fullgerður á tveim árum, 1927 og 1928.

Það hefir verið minst á nýlega af hæstv. fjrh. (JÞ), að líkt stæði á með þetta hjerað og hjeruðin hjer austanfjalls hvað snerti samgöngur. Á báðum stöðunum væri álíka örðug sókn til hafnar. En á Fljótsdalshjeraði er þó yfir torfærari fjöll að fara til hafnarstaða en hjer austanfjalls. Líka eru samgöngur örðugri þar að því leyti, að hjeraðið má heita veglaust til beggja handa frá þjóðveginum. Vegurinn notast heldur ekki til fulls fyrir en hann er fullgerður til áfangastaðarins, vegna þess að það vantar auðvitað skýli, þar sem vegurinn endar, en þar verða vörur á stundum að geymast, því að þegar hann þrýtur, verða menn að skifta um flutningatæki og flytja á hestum. Menn eru því orðnir mjög óþolinmóðir að bíða eftir því, að veginum verði lokið.

Eins og menn skilja, er hjer ekki farið fram á, að veitt sje fje, sem ekki þarf að veita hvort sem er, heldur aðeins að það sje veitt örar en ætlast var til í frv. stjórnarinnar og till. fjvn., og vænti jeg þess, að hv. deild geti fallist á, að rjett sje að gera það.

Þá kem jeg að XV. brtt. á sama þskj., um símalagningar. Þar er farið fram á, að fjeð til símalagninga sje hækkað um 15 |þús. kr., eða úr 315 þús. kr. upp í 330 þús. kr., og sje hækkuninni varið til Loðmundarfjarðarsíma. Fyrir þinginu hefir legið ítarlegt og rökstutt erindi frá mönnum úr Loðmundarfirði, þar sem tekin er fram annarsvegar þörf sveitarinnar sjálfrar fyrir símann og hinsvegar þörf annara, sem eiga viðskifti við sveitina, meðal annars hvað því viðkemur að fá þar beitu, en hana er oft hægt að fá þar, þó að ekki fáist hún annarsstaðar. Við þm. N.-M. höfum átt tal um þetta við landssímastjóra, og hann tjáði okkur, að ef sú fjárveiting, sem ákveðin er í frv. stjórnarinnar, yrði hækkuð, teldi hann, að þessi sími ætti að koma næstur, enda talaði háttv. frsm. fjvn. í þá átt. En nú hefir nefndin ekki farið fram á, að hækkað sje tillag til þessa síma, heldur til annars síma, sem landssímastjóri mun hafa haft lík ummæli um. Hvað valdið hefir, veit jeg ekki, en vænti þess þó, að hv. nefnd taki þessari tillögu okkar vel og sömuleiðis hv. deild.