19.04.1926
Neðri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í C-deild Alþingistíðinda. (2402)

6. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Bernharð Stefánsson:

Háttv. frsm. meiri hl. (MJ) var mjer sammála um, að ekki mætti útiloka menn frá námi fyrir það eitt, hvar þeir ættu heima á landinu. Og hann var ekki í vandræðum að finna ráð við því. Hann vísaði bara til þess, sem áður var, meðan skólinn var óskiftur. Það er óneitanlega handhæg leið, að vísa bara til þess, sem áður var, og býst jeg við, að flest mætti sanna með þessháttar röksemdafærslu. Það mætti með sömu rökum segja, að við þyrftum alls enga skóla, því að einu sinni voru þeir tímar, að enginn skóli var til, og það mætti eins vísa til þess tíma. Og einu sinni var aðeins einn lærður skóli til, og enginn annar skóli í landinu. Það mátti líka vísa til þess tíma og segja, að hafa mætti aðeins einn skóla, eins og forfeður okkar gerðu.

Þá taldi hann fleira, sem ætti að bæta úr þeim örðugleikum, sem þessi breyting mundi baka mörgum, þar á meðal að setja ætti upp heimavist við skólann. Á það er frekar hlustandi, því að það myndi bæta dálítið úr. En fullnægjandi er það ekki.

Í sambandi við það, sem hann sagði fyrst, benti hann á, að piltar gætu stundað nám hjá prestum eins og þeir hefðu gert áður. Eftir því heldur hann, að tímarnir hafi ekkert breytst. Jeg held aftur á móti, að hinar sömu ástæður, sem valda því, að heimilin geta ekki lengur annast barnafræðsluna, valdi því einnig, að prestarnir eigi erfitt með að hafa slíka kenslu á hendi. Því að nú er sú tíð ekki lengur, að prestarnir, frekar en aðrir, hafi þjón á hverjum fingri.

Þá mintist hann á, að við gagnfræðaskólann á Akureyri mætti setja námsskeið, með tilsvarandi kenslu og væri í hinum lærða skóla, og að um þetta myndi koma brtt. til 3. umr.

Um þetta vissi jeg ekkert, er jeg talaði síðast. Hefi jeg því ekki til einskis spurt. Sýnir þetta, að nú eru fylgismenn þessa frv. farnir að sannfærast um, að ástæður þær, sem Norðlendingar færa fram, hafi töluvert við að styðjast.

Að sjálfsögðu verður námsskeið þetta betra en ekkert, en þó mundi það hafa sína galla, t. d. mundi það að öllum líkindum kosta nemendurna heilt ár, sem bættist við námstíma þeirra.

Þetta álít jeg æði mikinn galla, enda hygg jeg, ef athugaður væri námsferill manna á löngum tíma, að það mundi sýnt, að Norðlendingum væri síst þörf á lengri námstíma en öðrum. Gæti jafnvel hugsað mjer, að það yrði öfugt. Og þó þetta námsskeið yrði sett á stofn, þá þyrftu þeir, sem sækja skólann hjer, að ganga undir inntökupróf hjá óþektum kennurum í óþektum skóla, og ekki ósennilegt, að þessum aðkomumönnum yrði að einhverju leyti gert erfiðara fyrir um inntöku í skólann heldur en hinum. Þetta munu allir játa, sem í skóla hafa gengið, að getur verið óþægilegt. Og þar sem hv. frsm. meiri hl. (MJ) gat þess sjerstaklega, að hann hefði lesið utanskóla í æsku, trúi jeg ekki öðru en að hann hafi einhverntíma orðið var við óþægindi í þessu efni.

Niðurstaða mín er því sú, að þrátt fyrir þetta, sem hv. frsm. meiri hl. (MJ) hafði góð orð um, að bætt yrði fyrir Norðlendingum með brtt., þá nægir mjer það ekki, og get jeg því ekki gengið að því, að greiða atkvæði með frv. þess vegna. Öðru máli væri að gegna, ef um það væri að ræða, að Akureyrarskólanum væri um leið breytt í lærðan skóla, sem útskrifaði stúdenta, þá væri ef til vill lítandi við frv. En eins og það liggur fyrir nú, verð jeg að vera á móti því.