15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

69. mál, friðun Þingvalla o. fl.

Forsætisráðherra (JM):

Jeg geri ráð fyrir því, að hv. þdm. hafi kynt sjer tillögur og álit Þingvallanefndar, og eins og stendur í greinargerð frv., þá er það að mestu tekið eftir frv. því, er nefndin samdi. Stjórnin gat þó eigi fallist á að leggja niður ábúð á jörðum í Þingvallasveitinni. Henni virtist eigi vera færð rök fyrir nauðsyn þess. En skyldi það koma í ljós, þá hefir þingið það í hendi sjer að leggja ábúð niður á þessum jörðum.

Jeg held, að tillögur nefndarinar sjeu hóflegar og gætilega og skynsamlega sje í málið farið. Jeg hefi ekki rætt mikið um þetta mál í þessari hv. deild, en í hv. Ed. hefi jeg áður látið í ljós skoðun mína um málið og haldið því fram, að nægilegt sje að friða það svæði, sem nefndin leggur til um, nefnilega svæðið milli gjánna upp að Ármannsfelli. Það gæti enn verið ástæða til þess að friða skóginn inn með Ármannsfelli og brekkuna hjá Hrafnagjá. En það má gjarnan bíða, því að kunnugir vita, að þótt skógurinn hafi ekki verið friðaður, þá hefir hann blómgast. Aðeins ríður á því, að hann sje ekki höggvinn illa. Og jeg hefi góða von um, að bændur í þingvallasveit láti skógarvörð ráða skóghögginu framvegis, án lagasetningar þar um.

Kunnugir menn geta sjeð það, að Bolabás er ekki rjett settur á kortið, en mörgum mun þykja leiðinlegt, ef hann væri ekki innan hins friðaða svæðis. Á kortinu er hann mikið vestar en hann á að vera, og hann er innan hins friðaða svæðis. Þá er og á kortinu kallaður Bolaás, en það mun vera rangt. Þar heitir Fjármúli, að því er jeg best veit.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um málið að sinni. Jeg vona, að hv. fjvn. taki að einhverju leyti til athugunar till. nefndarinnar um fjárframlög, þótt nefndin hafi ekki ætlast til þess, að þær kæmu til greina á þessu ári.