25.02.1926
Neðri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

35. mál, einkasala á útfluttri síld

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það virðist vera meiri hreyfing nú í ár en á undanförnum árum, að gefa síldarútveginum einhvern gaum. Ástæðan til þess virðist auðsæ; útgerðin gekk lakar nú en undanfarið, þ. e. a. s. ekki síldveiðin sjálf, heldur sala afurðanna. Það kom í ljós sá galli, að þegar of mikið veiðist, fellur varan í verði, verður ónýt, og fjöldi manna missir efni sín, og alt fer eftir þessu. Þó að þessi saga hafi margendurtekið sig, þá er það þó bara það árið, sem illa gengur, að þessi iðrunaralda gengur yfir. Menn hugsa ávalt, að betur slampist næst. Lengst gengu þessar iðrunarhugleiðingar 1921. Þá voru sett lög um þetta efni, en sá galli var á, að þau komu ekki að fullu haldi, vegna vansmíða, er á þeim urðu í meðferð þingsins.

Í þessu frv., sem jeg ber nú fram og ekki varð útrætt í fyrra, er bent á ákveðna leið til þess að komast fram úr verstu erfiðleikunum, en þeir eru: að koma síldinni út, þannig að komið sje í veg fyrir það ólag, sem nú er á síldarsölunni. Er fjöldamargir útgerðarmenn bjóða hana út á sama tíma, fer auðvitað svo, að verðið fellur á síldinni; erlendu kaupmennirnir láta sjer hægara um kaup, þegar tilboðin koma til þeirra úr öllum áttum. Væri lögboðin einkasala á síldinni, þá væri hægt að veita því inn á markaðinn í einu, sem hann þyldi, og með því væri hægt að koma í veg fyrir það, að óeðlilegar sveiflur kæmist á verðið. Þá fengist og fje til að leita nýrra markaða. Það er hart, að ekki skuli vera hægt að koma út jafnágætri vöru og síldin er, vegna þess, hve lítið er gert til þess að afla nýrra markaða. Reynslan hefir sýnt, að útgerðarmennirnir eru ekki færir um að leggja fje til markaðsleita af sjálfsdáðum. Það er vel skiljanlegt, því að það kostar mikið fje. Og þó að einn og einn bauki sjer, er ekki að búast við, að árangur verði eins góður og ef þetta væri skiplagsbundið undir einni stjórn. Jeg held, að eina ráðið til þess að gera síldaratvinnuveginn tryggan, sje það, að ríkið taki að sjer einkasölu á síldinni. Jeg veit, að margir trúa á sömu lausn með samvinnu útgerðarmannanna. En reynslan hefir sýnt, að þeir geta aldrei komið sjer saman. Það hefir verið margt ritað um þetta á síðari árum. Pjetur A. Ólafsson, sem er vel kunnugum þessum málum, hefir ekki mikla trú á að útgerðarmennirnir geti komið sjer saman. — Það er eins og vant er, einhver heldur, að hann viti betur eða geti betur en hinir, og svo springur alt. Eina ráðið til að komast fram úr þessu, er að lögbjóða það, að ríkið hafi einkasölu á síldinni. Hjer hefir nú mikið verið deilt um einkasölur, en jeg ætla ekki að fara að rifja upp þá hlið þessa máls.

Jeg legg til, að frv. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til sjútvn.