05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í C-deild Alþingistíðinda. (2439)

35. mál, einkasala á útfluttri síld

Jakob Möller:

Mjer finst nú, úr því að komið er inn á þessa braut, þá sje það í sjálfu sjer miklu rjettara að halla sjer að þessu frv. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) heldur en frv. hv. sjútvn.

Það er viðurkent af fríverslunarmönnum, að það geti verið rjett, að ríkið taki einkasölu á því, sem einokað er af einstökum mönnum, vegna þess að hættara er við misbeiting á aðstöðu hjá einstökum mönnum en hjá ríkinu. Það ætti að minsta kosti að vera betur trygt, ef ríkið færi með þetta, að mikil mistök eigi sjer ekki stað. Mjer skilst, að þar sem um tvær leiðir er að velja, að ríkið taki þetta að sjer, eða að myndaður sje lögverndaður hringur, þá væri seinni leiðin tvöfalt brot á lögmáli frjálsrar verslunar. Þetta er tvöfalt brot af því, að það er einokun, í stað þess að vera frjálst. Og auk heldur einokun einstakra manna, sem ætti þó fremur að vera í höndum ríkisstjórnarinnar, — ef einokun á að hafa á annað borð. Af þessum ástæðum virðist mjer í sjálfu sjer þessi leið aðgengilegri heldur en hin, sem meiri hl. sjútvn. hefir tekið. — En að öðru leyti get jeg ekki fallist á það, að þetta frv. hafi yfirburði fram yfir hitt. Það er ekki fyrirbygt, að fáir menn geti náð tökum á síldarsölunni og skamtað verðið eftir sínu höfði. Og hjer fylgja sömu erfiðleikar fyrir framleiðsluna hvað það snertir að fá fje til þess að stunda veiðarnar, úr því menn geta ekki haft samband við erlenda síldarkaupmenn um fyrirfram sölu. Því eins og kunnugt er, þá kemur megnið af rekstrarfje til síldveiðanna frá Noregi og Svíþjóð. Bankarnir hjer munu veita mjög lítil lán til þessa atvinnureksturs, nema þá einstaka manni, sem þeir hafa treyst mjög vel og boðið hafa miklar tryggingar. Báðir þessir ókostir frv. hv. meiri hl. sjútvn. fylgja því einnig þessu frv. Að vísu er það hjer fyrirbygt, að einstakir menn í fjelagi, sem ætla að flytja út síld, geti misbeitt aðstöðu sinni hvað sjálfan útflutninginn snertir. En það fyrirbyggir ekki, að einstakir menn geti skapað sjer aðstöðu, sem þeir geti misbeitt. Og vitanlega hefir þetta frv. sömu þýðingu og hitt, hvað það snertir, ef útlendingar, sem náð hafa tökum á útflutningi síldarinnar, þykjast verða hart úti. Gagnvart slíku verður að taka til sömu ráða hvort fyrirkomulagið sem tekið verður. En sem sagt, ef á að taka þann sið upp að koma síldinni í einkasölu, þá er þetta líklegri leið heldur en hin, sem samþ. var hjer áðan. Jeg býst því við að greiða atkv. með þessu frv., að minsta kosti til 3. umr.

Jeg hygg það rjett vera, sem hv. flm. (JBald) gat um, að ef á að hafa einkasölu á síld yfirleitt, getur hún ekki náð tilgangi sínum meðan síldarbræðslan er frjáls, og því hlýtur þetta að draga þann dilk á eftir sjer, að hún verði líka einokuð. En yfirleitt er jeg mótfallinn þessari stefnu og tel enga von til þess, að hún bæti úr ástandinu eins og það er, heldur óttast jeg, eins og jeg tók fram í umr. um það mál, sem var hjer á dagskrá næst á undan, að það geti teflt þessum atvinnuvegi í enn meiri tvísýnu. Og það er leiðinleg gjaldþrotsyfirlýsing hjá flytjendum þessa máls, að vilja grípa til slíkra úrræða. Því mjer finst, að þeir, sem stunda þessa atvinnu, gætu reynt að útvega nýja markaði með frjálsum samtökum, en sannleikurinn er sá, að þetta hefir ekki verið reynt og virðist ekki einu sinn hafa verið rannsakað, hvaða verð mundi vera hægt að fá annarsstaðar en á Norðurlöndum, þótt vitanlegt sje, að síld sje notuð víða annarsstaðar og það í nágrannalöndum. En það mikla tap, sem þessi atvinnurekstur hefir beðið, hvað eftir annað, stafar oft af því, að menn hafa ætlað sjer að skrúfa verðið miklu hærra upp heldur en þurfti til þess að geta þó sloppið sæmilega frá sölunni. Og þrátt fyrir yfirlýsingar hv. meiri hl. í þessu máli, að útflutningsfjelagið eigi ekki að vera neinn okurhringur gagnvart neytendum, þá bendir reynslan þó í þá átt, að ekki muni látin ónotuð sú aðstaða, sem hægt verður að ná á erlendum markaði.