05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í C-deild Alþingistíðinda. (2441)

35. mál, einkasala á útfluttri síld

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg get tekið það þessu frv. til gildis, er hv. 3. þm. Reykv. (JakM) lýsti því yfir, að það væri rjettari leið, ef til einkasölu kæmi, að ríkið hefði hana með höndum, heldur en einstakir menn. En þó hv. þm. (JakM) segðist ekki að öðru leyti geta fallist á frv., þá er hann mjer sammála um þetta. Það hlýtur líka að vera, þegar um tvö frv. er að ræða, er fjalla um sama efni, og þar sem framkvæmdin er hugsuð á svipaðan hátt, þá er eðlilegt, að taka heldur það, sem í meginatriðinu er betra.

Hv. þm. (JakM) var með aðfinslur við þetta frv., sem að miklu leyti voru þær sömu og hann færði fram í dag gegn fr. hv. meiri hl. sjútvn. Þar á meðal þetta, að mönnum yrði örðugra að afla sjer rekstursfjár, þegar einkasalan er komin á. En til þess er því að svara, að þegar fullljóst er orðið, að skipulagi á að koma á þennan atvinnuveg, þá er líklegt, að auðfengnari verði lán hjá bönkunum fyrir þá menn, sem gera út á síld, einkum fyrir þá menn, sem út hafa gert árum saman og fengið hafa reynslu. Og þetta gildir að vísu bæði frv. En jeg verð samt að telja það betur trygt eftir mínu frv. en hinu. Þannig munu margir menn, sem fengið hafa lánsfje frá útlöndum og þar með bundið allmikið af framleiðslu sinni fyrir ákveðið verð, og þannig nálgast allmjög beina leppmensku — þeir menn munu, ef ríkið tekur einkasöluna á síldinni, verða að leita til lánsstofnana til að fá fje til rekstursins.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) benti í lok ræðu sinnar á aðalmeinið í síldarsölumálinu hingað til, sem er það, að menn hafa spent bogann of hátt, ætlað að stórgræða, en af því hefir leitt hrun og stórtap. Þetta er mesta meinið, og jeg held, að úr því verði alls ekki bætt nema með skipulagi. Og úr því hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir komið auga á þetta, þá ætti hann líka að fylgja þessu. frv., sem einmitt er framborið í þeim tilgangi að koma á slíku skipulagi. Hann játaði að vísu, að hann mundi greiða því atkv. til 3. umr., en skildist þó, að hann mundi greiða atkv. á móti því út úr deildinni. Mjer þykir nú ekki líklegt, eftir atkvgr. um frv. sjútvn., að til þess komi, og samkvæmt ræðu hv. frsm. sjútvn. (SigurjJ) þá mun ekki þýða að halda áfram þessu máli jafnframt hinu. Jeg vil því beina því til hæstv. forseta, að hann taki málið af dagskrá og fresti umr. Það getur sem sje verið, að frv. um sölu á síld o. fl. verði felt við 3. umr., og þá getur verið gott fyrir þá, sem hafa áhuga á því að koma skipulagi á síldarsöluna, að þeir geti gripið til þessa frv., ef svo færi. Því það er sýnilegt, að menn, sem eru á móti frv. sjútvn., gætu heldur fylgt frv. mínu, svo það gangi fram, ef hitt fellur.