29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í C-deild Alþingistíðinda. (2462)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurjón Jónsson:

Á þingskj. 396 flyt jeg, ásamt 6 öðrum háttv. deildarmönnum, brtt. við frv. það, er hjer liggur fyrir. Í þessari brtt. er kveðið svo á um, að það sje Reykjavík ein, af kaupstöðum landsins, sem eftirleiðis greiði skemtanaskatt til þjóðleikhússins. Því að með því ákvæði, að kaupstaðirnir verði að hafa 4000 íbúa til þess að koma undir þessi lög, eru sem stendur allir aðrir kaupstaðir en Reykjavík teknir undan ákvæðum laganna.

Það mætti nú ef til vill sýnast svo, að fyrir okkur öllum, flm. þessarar brtt., vaki alveg það mótsetta við það, sem fels í 1. gr. þessa frv., þar sem þar er gert ráð fyrir, að allir kaupstaðir landsins og kauptún með yfir 500 íbúa, falli undir ákvæði laganna frá 1923 um skemtanskatt og þjóðleikhús. En svo er þó í rauninni alls ekki, að því er mig snertir, og skal jeg skýra afstöðu mína ljóslega, til málsins. Jeg þori ekki að segja, að fyrir öllum meðflutningsmönnum vaki það sama og fyrir mjer, en þeir segja þá sjálfsagt til sín með það.

Með lögunum frá 1923, um skemtanaskatt og þjóðleikhús, er svo ákveðið, að skemtanaskattur úr þeim kaupstöðum, sem hafa 1500 íbúa eða fleiri, skuli renna í sjóð til þess að koma upp þjóðleikhúsi í Reykjavík, og skal jeg undir eins viðurkenna, að tilgangur þessa sjóðs eða sjóðsstofnunar er í alla staði lofsverður, því að menning okkar krefst þess, að við eignumst hjer í höfuðstaðnum myndarlegt leikhús, svo fljótt sem efni okkar og ástæður annars leyfa. Enda er góð leiklist menningarvottur og lyftistöng menningar, en skilyrði þess, að leiklist geti þrifist og tekið framförum, er að eignast gott leikhús, en það eigum við nú ekki.

Þótt jeg nú viðurkenni tilgang þessarar sjóðsstofnunar, þá vil jeg ekki viðurkenna, að tilgangurinn helgi meðalið í þessu nje öðru. Aðferðin, sem höfð hefir verið til þess að afla þessum sjóði tekna, hefir frá byrjun verið órjettlát. Það var algerlega rjettlátt, að Reykjavíkurbær væri að einhverju skattlagður til þess að koma upp þessu leikhúsi, því að þótt það ætti að heita þjóðleikhús og ætti að vera að mestu eða miklu leyti kostað af þjóðinni í heild, þá varð þó þetta hús jafnframt leikhús sjerstaklega fyrir Reykjavíkurbæ, og Reykvíkingar njóta þess framar öllum öðrum landsmönnum. En fyrir utan íbúa Reykjavíkur voru svo teknir hjer um bil 10 þúsund manna, og þeir skattlagðir til þessa sjóðs, en öllum öðrum landsmönnum slept við að gjalda nokkuð. Á þessi 10 þús. er skattur lagður, sem nú síðastliðið ár mun ekki vera langt frá að nema um kr. 1.50 á nef. Jeg get ekki álitið, að í löggjöf þessari hafi verið gætt þess jafnrjettis gagnvart borgurum ríkisins, sem nauðsynlegt er, að öll lög geri.

Frá byrjun hefði jeg talið rjettlátt, að Reykjavík ein hefði greitt nokkurn sjerstakan skatt, — skemtanaskattinn, — en ríkið að öðru leyti hefði lagt fram fje til þessarar sjóðstofnunar úr sameiginlegum sjóði landsmanna allra, úr ríkissjóði. Jeg hefi þegar tekið fram, hversvegna jeg álít rjett, að Reykjavík greiði talsvert sjerstaklega í þenna sjóð, þar sem húsið verður fyrst og fremst fyrir Reykjavík, en að öðru leyti verður leikhúsið ekki neinum sjerstökum flokki landsmanna meira virði en öðrum; það ætti að geta orðið landsmönnum öllum til sóma, og til eflingar menningar landsmanna allra.

Háttvirtir flutningsmenn hafa líka fundið til þess misrjettis, sem lögin frá 1923 gera þessum umræddu kaupstaðarbílum; kemur það bæði fram í greinargerð fyrir frumvarpinu og eins í nefndaráliti háttv. allsherjarnefndar, en þeir vilja gera órjettinn minni, með því að færa íbúatölu þeirra kaupstaða og kauptúna, er skattskyld verða, úr 1500 niður í 500 íbúa. Jeg skal viðurkenna hjá hv. flm., að við erum nær því rjetta, því almennara sem við innheimtum þenna skatt, og ef við ættum að fara þessa leiðina, þá hefði jeg viljað fara lengra, — taka öll kauptún með, sem t. d. hafa 200 íbúa. En hví ættum við þá ekki heldur að taka skrefið alveg, sýna fult rjettlæti og taka styrkinn úr sjóði landsmanna allra, en lofa einstökum kaupstöðum og kauptúnum að ráðstafa sínum skemtanskatti samkvæmt lögum frá 1918.

Í þessu sambandi skal það af minni hálfu skýrt fram tekið, að jeg álít, að ekki geti komið til mála að svifta sjóð þjóðleikhússins tekjum, svipuðum tekjum og hann hefir nú haft að undanförnu. Þingið hefir einu sinni gengið inn á, að sjóðurinn fengi slíkan styrk til leikhúsbyggingarinnar, og þar sem langt er frá því, að takmarkinu sje náð, þá mundi jeg skoða það svo, að þingið brygðist sínum fyrri heitum, ef sjóðnum yrði ekki sjeð fyrir svipuðum tekjum áfram. Vil jeg því mega gera ráð fyrir, að þeir, sem greiða þessari till. á þskj. 396 atkvæði, þeir verði einnig með því, að á fjárlögunum fyrir 1927 verði leikhússjóðnum veittur styrkur, sem jeg geri ráð fyrir, að hæfilegur mundi vera um 20 þús. kr. Jeg býst við, að það sje ekki langt frá þeirri upphæð, sem sjóðurinn fær nú í skemtanaskatt utan Reykjavíkur. Og þótt það yrði einhverju meira, sem veitt væri úr ríkisjóði fyrsta árið, þá mun mega gera ráð fyrir að skemtanaskatturinn heldur yxi, ef sjóðurinn hjeldi honum áfram.

Jeg hefi borið þessa tillögu fram, ekki af því, að jeg vilji, að leikhússjóðurinn sje sviftur svipaðri styrkupphæð og hann hefir haft, þar álít jeg, að þingið hafi bundið sjer þann bagga, sem það hvorki á nje má víkja sjer undan, heldur hefi jeg borið tillöguna fram af því, að jeg álít, að þingið hafi órjettlátlega aflað þessara tekna, með því að misskattleggja borgara landsins, og það sje ekki nema ein leið til þess að kippa því í lag, sem sje sú, að greiða upphæðina úr ríkissjóði.

Verði þessi tillaga samþykt, þarf 8. gr. laganna frá 1923 að breytast í samræmi við hana, og sömuleiðis skal jeg benda hv. nefnd á, að af vangá hafa ekki verið teknar upp breytingar á þeirri grein í þetta frv., sem nauðsynlegt er að gerðar sjeu, verði sú breyting á lögunum, sem 1. gr. gerir ráð fyrir.