29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í C-deild Alþingistíðinda. (2472)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurjón Jónsson:

Jeg ætla aðeins að víkja nokkrum örðum til hv. frsm. meiri hl. (ÁJ). Hann taldi það rangt hjá mjer, þegar jeg líkti skemtanaskattinum, við nefskatt. Reyndar sagði jeg ekki, að hann væri nefskattur, heldur að hann líktist nefskatti. Jeg vil benda á það, að einstöku kauptún voru farin að innheimta slíkan skatt, áður en lögin um skemtanaskatt gengu í gildi. En þá voru kauptúnin svift þessum tekjustofni.

Þá sagði hv. þm. (ÁJ), að kent hefði mótsagnar hjá mjer, þegar jeg sagði, að þjóðleikhúsið yrði fyrst og fremst leikhús fyrir Reykjavík, en vildi samt láta ríkissjóð styrkja það. Í þessu felst engin mótsögn, því að jeg sagði, að leikhúsið væri líka, í öðru lagi, fyrir alt landið. En mjer finst sanngjarnt, að Reykjavíkurbúar leggi aukaskatt á sjálfa sig, til þess að leikhúsið komist upp.

Hv. þm. (ÁJ) sagði, að jeg hefði átt að verja það, að takmarkið fyrir íbúatölu í kauptúnum væri fært niður. Jeg lýsti því yfir, að ef þessi tillaga yrði ekki samþykt, mundi jeg vilja færa takmarkið niður, því að jeg álit meira rjettlæti í því, að innheimta þennan skatt af sem flestum borgurum landsins en litlum hluta þeirra, ef á annað borð á að fara út fyrir Reykjavík.

Þá beindi hv. þm. (ÁJ) til mín að taka aftur tillöguna, af því að það væru svo mismunandi ástæður hjá okkur flm. til þess, að hún væri flutt. Það skal jeg játa, en jeg sje þó enga ástæðu til að taka hana aftur vegna þess. Jeg lít svo á, að verði tillagan samþykt, geti þingið ekki komist hjá að taka upp í fjárlögin styrk, sem svarar til þeirrar upphæðar, sem annars kæmi utan af landi. 1923 lýsti þingið því yfir, að það vildi efna til sjóðsstofnunar í þessu skyni, og jeg álít, að þingið geti ekki hlaupið frá því. Það er alls ekki þinginu samboðið að hlaupa frá þeim bagga, sem það hefir sjálft lagt á menn í þessu skyni. Jeg get því ómögulega verið sammála hv. frsm. (ÁJ) og hv. 3.þm.Reykv. (JakM) um, að það sje sama sem að eyðileggja sjóðsstofnunina, að samþykkja tillöguna á þskj. 396. Jeg lýsti því yfir í fyrra, í ræðu, sem jeg flutti þá hjer á þingi, að jeg áliti, að tekna sjóðsins væri illa aflað að því leyti, að mislagt væri á borgara ríkisins.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Vænti jeg þess, að málið fari ekki út úr þingi fyr en sjeð er fyrir endann á, að fjárveiting til þess verði tekin upp í fjárlögin. Jeg verð að segja, að jeg skil ekki þá menn, sem finst órjettlátt, að taka skatt af sem flestum kauptúnum, en geta sætt sig við, að hann sje tekinn af 4–5 kauptúnum. Er nokkurt rjettlæti í því, að taka skatt af Ísafjarðarkaupstað, en sleppa Siglufirði, þó að þar sjeu íbúar 100–120 færri.